Úrgangsmál

Sveitarfélög gegna veigamiklu hlutverki þegar kemur að úrgangsstjórnun og innleiðingu hringrásarhagkerfis. Starfandi er verkefnisstjórn sveitarfélaga um hagsmunagæslu í úrgangsmálum og stofnaður hefur verið umræðuvettvangur sveitarfélaga um úrgangsstjórnun og hringrásarhagkerfið.

Umfangsmiklar breytingar fram undan

Í lögum um meðhöndlun úrgangs kemur fram hvernig standa eigi að stjórnun úrgangsmála hérlendis. Umfangsmiklar breytingar urðu að lögunum í júní 2021 ásamt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um úrvinnslugjald. Þessar breytingar koma flestar til framkvæmda 1. janúar 2023 og er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs. Sambandið hefur tekið saman helstu breytingar og þýðingu fyrir sveitarfélög í grein í Sveitarstjórnarmálum árið 2021. Ljóst er að öll sveitarfélög munu þurfa að endurskoða þau stjórntæki sem þau hafa á grundvelli laga um meðhöndlun úrgangs, þ.e.:

  1. Svæðisáætlanir um meðhöndlun úrgangs
  2. Samþykktir um meðhöndlun úrgangs
  3. Gjaldskrár fyrir úrgangsmeðhöndlun

Sveitarstjórnir ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu og bera ábyrgð á söfnun heimilisúrgangs. Þær bera einnig ábyrgð á að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu og setja samþykkt um helstu þætti í meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu og auglýsa hana í stjórnartíðindum. Sveitarfélög fara jafnframt oft með starfsleyfi urðunarstaða og móttöku á úrgangi og verða að skila inn upplýsingum til Umhverfisstofnunar þar um. Frá 1. janúar 2023 munu taka gildi strangari reglur um sérstaka söfnun heimilisúrgangs. Samræmdum merkingum skal komið á fyrir ákveðnar úrgangstegundir og er almenna reglan sú að safna skal eftirfarandi úrgangsflokkum í sér ílát eftirfarandi stöðum:

Sérstök söfnun við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli

  • Pappír og pappi
  • Plast
  • Lífúrgangur
  • (Blandaður úrgangur)

Sérsöfnun á grenndarstöðvum

  • Málmar
  • Gler
  • Textíll

Sérsöfnun í nærumhverfi íbúa

  • Spilliefni

Móttöku- og söfnunarstöðvar

  • Rekstrarúrgangur
  • Byggingar- og niðurrifsúrgangur flokkaður í
  • Rúmfrekur úrgangur
  • Annar úrgangur

Sveitarfélögum ber að samþykkja svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs til tólf ára þar sem m.a. er ætlast til að staða úrgangsmála í sveitarfélaginu sé lögð fram og útlistað hvernig sveitarfélagið ætlar að ná markmiðum gildandi stefnu um meðhöndlun úrgangs og úrgangsforvarnir. Reglugerð 969/2014 útlistar hvað skuli koma fram í svæðisáætluninni.

Í nýjum lögunum er gert ráð fyrir að sveitarstjórnir beri ábyrgð á að tölulegum markmiðum sem sett eru um endurvinnslu heimilisúrgangs og lífræns úrgangs og lágmörkun urðunar sé náð á þeirra svæði. Umhverfis- og auðlindaráðherra sem setur stefnu um meðhöndlun úrgangs og úrgangsforvarnir og skulu svæðisáætlanir sveitarfélaga byggja á stefnunni. Einnig eru í gildi aðgerðaáætlun í plastmálefnum og aðgerðaáætlun gegn matarsóun. Umhverfisstofnun fer með eftirlit með því að sveitarstjórnir gefi út svæðisáætlanir og leggur jafnframt faglegt mat á efni þeirra og hvort þær samræmist lögum og reglum þar um.

Sveitarfélög skulu innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs en gjaldið sem sveitarfélag eða byggðasamlag innheimtir skal þó aldrei vera hærra en nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Þar til 1. janúar 2023 er hægt að hafa fast gjald á hverja fasteignaeiningu og miða það við magn úrgangs, tegund eða aðra þætti. Eftir það verður álagning vegna meðhöndlunar úrgangs að byggjast á svokallaðri ,,Borgaðu þegar þú hendir“ aðferðafræði sem gengur út á að kostnaður íbúa og fyrirtækja tekur mið af magni úrgangs, gerð, losunartíðni, frágangi úrgangs og öðrum þáttum sem hafa áhrif á kostnað við meðhöndlun úrgangs. Þó verður áfram heimilt að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélags í formi fasts gjalds. Fyrstu tvö árin frá því að þessar kröfur koma til framkvæmda, til 1. janúar 2025, má þetta hlutfall vera 50%. Sveitarfélag eða viðkomandi byggðasamlag skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldið má innheimta með aðför.

Evrópusambandið (ESB) hefur með áherslu á hringrænt hagkerfi síðan 2014. Innleiðing ESB á Hringrásarhagkerfinu byggir í grunnunn á fimm tilskipunum. Fjórar þeirra voru samþykktar 2018 og komu í kjölfar yfirgripsmikillar endurskoðunar á Evrópulöggjöfinni um úrgang, sem hefur þann megintilgang að innleiða hringrásarhagkerfi og slíta tengslin milli hagvaxtar og myndunar úrgangs. Sú fimmta fjallar um plastvörur og var samþykkt 2019. Íslensk stjórnvöld hafa tekið upp hluta þessara tilskipana í gegnum EES samninginn.