Hringrásarhagkerfið verður að veruleika

Sú hugarfarsbreyting að rusl sé í raun og veru ekki úrgangur heldur hráefni sem ber að ganga vel um og koma aftur inn í hringrásarhagkerfið er orðin ríkjandi á flestum heimilum og fyrirtækjum í dag.

Bryndís Gunnlaugsdóttir lögfræðingur og Eygerður Margrétardóttir sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga skrifa.

Markmið hringrásarhagkerfisins er að það myndist lokað efnahagslegt kerfi þar sem hráefni fer í endurvinnslu og sem minnst skili sér til endanlegrar förgunar með urðun eða brennslu. Í júní voru tekin tvö mikilvæg skref í átt til aukinnar innleiðingar hringrásarhagkerfis á Íslandi. Þá kom út stefna umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum er ber nafnið Í átt að hringrásarhagkerfi og einnig samþykkti Alþingi breytingar á ýmsum lögum varðandi úrgangsmál til stuðnings innleiðingar hringrásarhagkerfisins.

Hlutverk sveitarstjórna

Sveitarstjórnir gegna lykilhlutverki þegar kemur að úrgangsmálum og ber sveitarstjórnum að tryggja að það sé tiltækur farvegur fyrir allan úrgang sem fellur til hjá einstaklingum og lögaðilum innan sveitarfélagsins. Sveitarstjórnir geta unnið að úrgangsmálum í samstarfi við önnur sveitarfélög og er því hægt að staðsetja móttökustöðvar svo og aðrar úrgangslausnir eftir atvikum utan sveitarfélags. Það eru þrjú lykilstjórntæki er sveitarfélög hafa til þess að stýra úrgangsmálum innan sveitarfélagsins; svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs, samþykkt um meðhöndlun úrgangs og innheimta gjalds af einstaklingum og lögaðilum fyrir alla meðhöndlun úrgangs.

Þær lagabreytingar er samþykktar voru til innleiðingar hringrásarhagkerfisins taka gildi 1. janúar 2023 og þurfa sveitarfélög nú þegar að hefja undirbúning þar sem lagabreytingarnar munu meðal annars hafa áhrif á hirðu úrgangs, skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang, staðsetningu og merkingu íláta og innheimtu gjalda af einstaklingum og lögaðilum fyrir meðhöndlun úrgangs. Að auki mun framleiðendaábyrgð ná yfir fleiri úrgangsflokka og standa undir auknum hluta kostnaðar sem sveitarfélög standa undir í dag en Úrvinnslusjóður vinnur að þeirri útfærslu.

Með mikilli einföldun má segja að stærstu breytingarnar sem krefjast góðs undirbúnings við innleiðingu er annars vegar flokkun og söfnun heimilisúrgangs í þéttbýli og hins vegar hvernig innheimta skal gjald af einstaklingum og lögaðilum fyrir alla meðhöndlun úrgangs.

Sérstök söfnun heimilisúrgangs

Frá 1. janúar 2023 munu taka gildi strangari reglur um sérstaka söfnun heimilisúrgangs og er almenna reglan sú að safna skal eftirfarandi úrgangsflokkum í sér ílát eins og sjá má á töflunni hér að neðan.

Sérstök söfnun við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli Sérsöfnun í grenndargámaSérsöfnun í nærumhverfi íbúa
Pappír og pappiMálmarSpilliefni
PlastGler
Lífúrgangur (garðaúrgangur undanskilinn)Textíll
Blandaður úrgangur

Þó er lagt upp með að hægt sé að veita undanþágu frá meginreglu um sérstaka söfnun að uppfylltum nánari skilyrðum sem ráðherra er heimilt að setja í reglugerð. Þau skilyrði eru m.a. að blönduð söfnun tiltekinna tegunda úrgangs hafi ekki áhrif á möguleika til endurnýtingar þeirra og að slík söfnun tryggi sambærileg gæði úrgangs og fæst með sérsöfnun, að sérstök söfnun skili ekki betri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið eða að sérstök söfnun sé ekki tæknilega möguleg eða hafi í för með sér óhóflegan kostnað. Almenna reglan verður að hvorki verður heimilt að urða né senda til brennslu þær úrgangstegundir sem safnað hefur verið sérstaklega í nafni endurnotkunar eða endurvinnslu.

Innheimta skal eftir magni og tegund úrgangs frá hverri fasteignaeiningu

Það verða einnig miklar breytingar á innheimtu fyrir söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs. Frá og með 1. janúar 2023 verður innleidd svokölluð greiðsluregla sem er ein af meginreglum umhverfisréttarins. Inntak hennar er að sá borgi sem mengar eða sem hefur með höndum umsvif sem hafa áhrif á umhverfið. Það er því handhafi úrgangs sem jafnan skal standa straum af raunkostnaði, eða sem næst því, við meðhöndlun úrgangsins sem hann losar sig við, hafi ekki verið innleidd framleiðendaábyrgð á þeim úrgangi. Sveitarfélög þurfa því að innheimta gjald þar sem tekið er mið af magni úrgangs, gerð, losunartíðni, frágangi úrgangs og öðrum þáttum sem hafa áhrif á kostnað við meðhöndlun úrgangs. Þó verður áfram heimilt að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélags í formi fasts gjalds. Fyrstu tvö árin frá því að þessar kröfur koma til framkvæmda, til 1. janúar 2025, má þetta hlutfall vera 50%. Þessar breytingar innleiða greiðsluregluna með betri hætti en núverandi fyrirkomulag um fast gjald þar sem heimili og rekstraraðilar geta lækkað kostnað sinn með því að takmarka úrgang er fellur til og flokka hann vel. Í ljósi þess að förgun úrgangs með urðun eða brennslu er oft á tíðum ódýrari farvegur en endurvinnsla hefur löggjafinn einnig heimilað sveitarfélögum að hækka gjaldskrá fyrir förgun svo lengi sem sú hækkun skili sér til lækkunar gjaldskrár fyrir t.d. úrgang er fer í endurvinnslu. Þannig geta sveitarfélög enn frekar stuðlað að betri flokkun og jákvæðum umhverfislegum ávinningi.

Skammur tími til stefnu – undirbúningur þarf að hefjast strax

Sveitarfélög hafa óumdeilanlega skamman tíma til að tryggja að sérstök söfnun úrgangs og gjaldheimta verði í samræmi við lögin hinn 1. janúar 2023 enda aðeins um 15 mánuðir til stefnu. Í stefnu umhverfis- og auðlindarráðherra ,,Í átt að hringrásarhagkerfi“ eru tvær aðgerðir sem sérstaklega eiga að styðja við innleiðingu þessara breytinga hjá sveitarfélögum og eru báðar aðgerðirnar komnar í vinnslu í samstarfi við sambandið.

Fyrstu skref hjá sveitarfélögum

Sveitarfélög fá því góð verkfæri í hendurnar til að styðja við innleiðingu hringrásarhagkerfisins þegar þessum verkefnum er lokið nú á haustmánuðum og er lögð áhersla á að þessar afurðir fái vandaða kynningu fyrir sveitarfélögum. Fram að þeim tímapunkti er þó mikilvægt að hefja undirbúning að innleiðingu breytinganna. Samband íslenskra sveitarfélaga vill sérstaklega hvetja sveitarfélögin til þess að auka samstarf sín á milli um helstu þætti úrgangsstjórnunar og auka samræmi í úrgangsmálum.

Tryggja þarf að kjörnir fulltrúar og starfsfólk hafi svigrúm til að kynna sér breytingar í málaflokknum og gera ráð fyrir fjármagni til að hefja undirbúning á innleiðingu þeirra. Á árinu 2022 munu sveitarfélög einnig þurfa að endurskoða þau þrjú lykilstjórntæki er sveitarstjórnir hafa til að stýra úrgagnsmálum, þ.e. svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs, samþykkt um meðhöndlun úrgangs og gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs. Einnig er mikilvægt að sveitarfélög haldi vel utan um hvaða kostnað framleiðendaábyrgð á að ná yfir og gæta þess að sá ábati sem leiðir af aukinn framleiðendaábyrgð skili sér til sveitarfélagsins. Jafnframt er mikilvægt að sveitarfélög hugi að því að innheimt sé fyrir öllum kostnaði sem tengist úrgangsmálum sveitarfélagsins.

Innleiðing hringrásarhagkerfisins krefst samtals og samstarfs sveitarfélaga, byggðasamlaga, stofnana, þjónustuaðila, atvinnulífsins og íbúa svo fáein dæmi séu nefnd og búast má við fjölda viðburða næstu mánuði þar sem breytingarnar verða kynntar betur. Sambandið hefur einnig stofnað umræðuvettvang á samfélagsmiðlinum Facebook fyrir kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélaga um úrgangsmál og hvetjum við sem flesta til að taka þátt í umræðum á þeim vettvangi.

Aðrar breytingar í úrgangsmálum sem taka gildi 1. janúar 2023

  • Sveitarstjórnir bera ábyrgð á að tölulegum markmiðum sem sett eru um endurvinnslu heimilisúrgangs og lífræns úrgangs sé náð á þeirra svæði.
  • Eftirlit með gerð svæðisáætlana sveitarstjórna er komið á.
  • Umhverfisstofnun skal útbúa leiðbeiningar um gerð svæðisáætlana.
  • Bann við urðun og brennslu úrgangs úr sérstakri söfnun komið á.
  • Samræmdum merkingum fyrir a.m.k. úrgangstegundirnar pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni komið á.
  • Innleidd framleiðendaábyrgð á umbúðir úr gler, málm og við.
  • Innleidd framleiðendaábyrgð á einnota vörur úr plasti, s.s. ílát og umbúðir utan matvæla og drykki, burðarpoka, blautþurrkur, blöðrur og tóbaksvörur.
  • Innleidd aukin kostnaðarþátttaka framleiðendaábyrgðar í kostnaði sveitarfélaga við meðhöndlun úrgangs er ber úrvinnslugjald.
  • Framleiðendur og innflytjendur veiðarfæra er innihalda plast og framleiðendur og innflytjendur einnota vara úr plasti bera ábyrgð á hreinsun úrgangs á víðavangi og ströndum.
  • Skyldu til að flokka rekstrarúrgang og byggingar- og niðurrifsúrgang komið á og sveitarfélögum ber að tryggja aðstöðu til að taka við þessum úrgangi flokkuðum.
  • Lögbundin fræðsluskylda útvíkkuð og skulu sveitarfélög annast gerð upplýsingaefnis um úrgagnsforvarnir og meðferð úrgangs í sveitarfélaginu og fræða almenning, rekstraraðila og handhafa úrgangs um úrgangsmál í samstarfi við heilbrigðisnefndir.
  • Fræðsluskylda Umhverfisstofnunar, Úrvinnslusjóðs og Endurvinnslunnar útvíkkuð.
Handbók um framkvæmd úrgangsstjórnunarGreining á mögulegum útfærslum til álagningar gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs
Gefin verður út handbók fyrir sveitarfélög um úrgangsstjórnun sem verður vegvísir sveitarfélaga sem stjórnvalda í úrgangsmálum um þær stefnumótandi ákvarðanir og þjónustu sem þeim eru faldar samkvæmt lögum. Handbókin mun jafnframt að einhverju leyti nýtast öðrum sem starfa í málaflokknum.
Í handbókinni verður umfjöllun um mismunandi leiðir að gildandi markmiðum í úrgangsmálum og sem styðja við markvissa og bætta úrgangsstjórnun sveitarfélaga, s.s. varðandi útfærslu á þjónustu við söfnun og meðhöndlun úrgangs, gjaldheimtu, fræðslu, aðra þjónustu í málaflokknum, útboð og innkaupasamninga.
Handbókinni verður jafnframt ætlað að skýra hverjar heimildir sveitarfélaga eru til eftirlits og aðgerða þegar framkvæmd í málaflokknum reynist ekki í samræmi við stefnumótun, samþykktir um meðhöndlun úrgangs eða önnur fyrirmæli. Handbókin mun enn fremur innihalda sérstakan kafla með leiðbeiningum um gerð svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs og framkvæmd útboða og önnur innkaup á þjónustu og meðhöndlun úrgangs
Verklok eru áætluð í desember 2021
Aðgerðin felst í gerð yfirlits yfir mögulegar útfærslur sem sveitarstjórnir geta valið til álagningar gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs sem næst raunkostnaði niður á hvert heimili/fasteignareiningu og hvern lögaðila, í greiningu á kostum og ókostum hverrar útfærslu m.t.t. aðstæðna sveitarfélaga á Íslandi og samanburði á hagkvæmni mismunandi útfærslna.
Aðgerðin felst jafnframt í gerð tillögu að nauðsynlegum ráðstöfunum til að styðja við framkvæmdina ef við greininguna koma í ljós hindranir sem ryðja þarf úr vegi.
Verklok eru áætluð í nóvember 2021