Sveitarstjórnarkosningar

Ákvæði um kosningar til sveitarstjórna er að finna í lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Í lögunum er m.a. fjallað um kjördag, kosningarétt og kjörgengi, kjörskrár, kjördeildir og kjörstjórnir, framboð og umboðsmenn, atkvæðagreiðslur utan kjörfundar og á kjörfundi, atkvæðatalningu og kosningaúrslit, óleyfilegan kosningaáróður og kosningaspjöll o.fl.

Dómsmálaráðuneytið fer með framkvæmd sveitarstjórnarkosninga. Ráðuneytið heldur úti sérstökum kosningavef www.kosning.is þar sem finna má margvíslegar upplýsingar um sveitarstjórnarkosningar, undirbúning og framkvæmd þeirra, ásamt upplýsingum um aðrar kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur.

Á undanförnum árum hafa starfsmenn sambandsins tekið þátt í ýmsum vinnuhópum, sem hafa haft það verkefni að endurskoða kosningalöggjöfina.

Árið 2009 tóku starfsmenn sambandsins þátt í að undirbúa frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, þar sem gert var ráð fyrir að taka upp persónukjör með svokallaðri forgangröðunaraðferð (skammstafað STV á ensku), og var frumvarp þar að lútandi lagt fram tvisvar á Alþingi en náði í hvorugt skiptið að ganga fram. Nánari upplýsingar á vef Alþingis.

Haustið 2012 stóðu starfsmenn sambandsins að frumvarpsgerð um breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna, þar sem gengið var út frá persónukjörsaðferð sem viðhöfð er við kosningar til sveitarstjórna í Noregi. Nánari upplýsingar á vef Alþingis.

Í ágúst 2016 lauk vinnuhópur, sem forseti Alþingis fól endurskoðun kosningalaga, störfum sínum en Samband íslenskra sveitarfélaga átti fulltrúa í hópnum. Vinnuhópurinn skilaði skýrslu og drög að frumvarpi  um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis.