Eftir því sem næst verður komist mun fulltrúum í sveitarstjórnum landsins fækka um 17 við sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí.
Fulltrúum mun fjölga í þremur sveitarfélögum en í fimm sveitarfélögum mun fulltrúum fækka en í öllum tilfellum tengist fækkunin sameiningu sveitarfélaga.
Fjölgun í sveitarstjórnum
Í Vestmannaeyjum, Mosfellsbæ og í Sveitarfélaginu Árborg hefur verið ákveðið að fjölga bæjarfulltrúum úr 9 í 11.
Breytingar sem tengjast sameiningu sveitarfélaga
- Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit voru samanlagt með 12 sveitarstjórnarmenn en þeir verða nú 9.
- Stykkishólmur var með sjö bæjarfulltrúa og sú tala verður óbreytt. Í Helgafellssveit var fimm manna sveitarstjórn svo í heild er þarna fækkun um fimm fulltrúa.
- Langanesbyggð var með sjö sveitarstjórnarmenn og sú tala verður óbreytt. Í Svalbarðshreppi var fimm manna sveitarstjórn svo í heild er fækkun um fimm fulltrúa.
- Skagafjörður var með níu sveitarstjórnarmenn og sú tala verður óbreytt Í Akrahreppi var fimm manna sveitarstjórn svo í heild fækkun um fimm fulltrúa.
- Blönduósbær var með sjö fulltrúa en við sameiningu fjölgar þeim í níu. Í Húnavatnshreppi voru 7 sveitarstjórnarmenn svo heildarfækkun fulltrúa er fimm.