Tæplega tvö prósent þjóðarinnar í framboði

Þegar rýnt er í framboð vegna sveitarstjórnarkosninganna 14. maí nk. má sjá að 6.367 einstaklingar, eða 1,7% þjóðarinnar, eru í framboði til setu í sveitarstjórnum landsins en um er að ræða 470 sæti sem eru í boði í sveitarfélögunum 64.

Bundnar kosningar

Í bundnum kosningum greiða kjósendur framboðslistum atkvæði. Fulltrúar á hverjum lista ná kjöri í hlutfalli við fjölda atkvæða sem listinn hlýtur. Alls eru 3.209 einstaklingar á 179 framboðslistum í framboði í hlutbundnum kosningum í 51 sveitarfélagi. Sækjast þessir einstaklingar eftir 401 sæti í stjórn síns sveitarfélags.

Í tveimur af þessum sveitarfélögum er sjálfkjörið; Sveitarfélaginu Skagaströnd og Tjörneshreppi. Tjörneshreppur er einnig það sveitarfélag þar sem hlutfallslega flestir íbúa eru í framboði en 10 frambjóðendur á T lista telja um 16% íbúa hreppsins. Næst hæsta hlutfall frambjóðenda er í Kjósarhreppi en þar eru 27 í framboði eða rétt ríflega 11% íbúanna.

Þó í Reykjavík sé bæði mesti fjöldi frambjóðenda og flestir framboðslistar 441 einstaklingur á ellefu listum, þá er hlutfall frambjóðenda af íbúafjölda lægst þar eða 0,33%. Næst kemur Kópavogsbær en 176 frambjóðendur á átta framboðslistum þar telja 0,45% íbúa sveitarfélagsins.

Óbundnar kosningar

Í óbundnum kosningum er ekki kosið á milli framboða. Allir kjósendur eru í kjöri, nema þeir sem skorast hafa undan því, eða eru löglega undanþegnir kjöri. Óbundnar kosningar fara fram í 13 sveitarfélögum en þar eru 3.191 íbúar á en 34 íbúar í þessum 13 sveitarfélögum hafa skorast undan framboði í samræmi við 49. gr. kosningalaga nr. 112/2021.

Fjöldi á kjörskrá

Samkvæmt upplýsingum á vef Þjóðskrár Íslands eru 277.127 kjósendur á landinu. Af þeim eru flestir, eða 177.816, á höfuðborgarsvæðinu en fæstir kjósendur eru á Norðurlandi vestra, 5.514 talsins. Sjá nánar á vef Þjóðskrár.

Íslenska stafrófið vel nýtt

Því má bæta við að lokum að alls eru framboðslistar 179 talsins í 51 sveitarfélagi og á bak við þá eru 25 listabókstafir.

Bókstafir í íslenska stafrófinu eru 32 en 33 ef C er talið með og það er einmitt einn af listabókstöfunum. Það eru því aðeins 8 bókstafir sem ekki eru í notkun í þessum kosningum. Þeir eru: Ð, É, Ó, R, Ú, X, Ý, og Æ.