Undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningar

Til sveitarfélaga og kjörstjórna vegna sveitarstjórnarkosninga 14. maí 2022

Undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningar eru í fullum gangi. Athygli sveitarfélaga og kjörstjórna er vakin á eftirfarandi atriðum:

1. Breytingar á kosningalögum

Þann 15. mars sl. samþykkti Alþingi lög nr. 18/2022 um breytingar á kosningalögum nr. 112/2021. Breytingar á lögunum taka strax gildi en í þeim felst m.a. að viðmiðunardagur kjörskrár verður kl. 12 á hádegi miðvikudaginn 6. apríl 2022. Umsóknir íslenskra námsmanna á Norðurlöndum þurfa að berast til Þjóðskrár Íslands eigi síðar en 4. apríl 2022 og eigi síðar en föstudaginn 8. apríl 2022 skal Þjóðskrá Íslands auglýsa að kjörskrár hafi verið gerðar. Mikilvægt er að kjörstjórnir séu meðvitaðar um þessar breytingar og hafi þær til hliðsjónar í sínum störfum.

Í öðru lagi er kveðið á um nauðsynlegar lagfæringar á nokkrum atriðum, bæði í kosningalögum og í lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka, t.d. hafa málsliðir fallið niður, tilvísanir til laga eru ekki réttar og láðst hefur að fella niður tilvísun til atriða sem voru í frumvarpi til kosningalaga en breyttust í meðförum þingsins.  


Í þriðja lagi er lagt til í bráðabirgðaákvæði að heimilt verði í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí 2022 að senda atkvæðisbréf sem greidd eru utan kjörfundar áfram til sýslumanns í því umdæmi þar sem kjósandi telur sig vera á kjörskrá auk þess sem taka skuli til greina og ekki meta atkvæði greitt utan kjörfundar ógilt þótt notuð séu eldri kjörgögn.


Lagabreytingin hefur ekki áhrif á það hvenær framboðsfrestur rennur út eða hvenær yfirkjörstjórnir skulu auglýsa framboðslista.

2. Vefurinn www.kosning.is

Unnið hefur verið að uppfærslu kosningavefsins þar sem tekið hefur verið tekið tillit til nýrra kosningalaga og nýsamþykktra breytinga á þeim. Á vefnum er m.a. að finna leiðbeiningar fyrir kjósendur, framboð og kjörstjórnir ásamt því að þar má finna svör við ýmsum algengum spurningum.


Frekari uppfærsla er í vinnslu en þessi vinna er komin nógu langt til að í dag þótti mögulegt að opna vefinn. Eru kjörstjórnir hvattar til að nýta sér þær upplýsingar sem finna má á vefnum. Einnig eru sveitarfélög hvött til þess að setja tengil á vefinn á sínar heimasíður.

3. Upplýsingafundir 24. mars og 31. mars

Landskjörstjórn, Samband íslenskra sveitarfélaga og dómsmálaráðuneyti bjóða kjörstjórnum sveitarfélaga upp á upplýsingafundi næstu tvo fimmtudaga þar sem stefnt er að því að veita leiðbeiningar um helstu atriði sem huga þarf að á grundvelli nýrra kosningalaga, farið yfir helstu dagsetningar og önnur hagnýt atriði. Jafnframt gefst kjörstjórnum kostur á að setja fram spurningar og ábendingar. Fundarboð verður sent út þegar nær dregur.


Fleiri slíkir fundir kunna að verða boðaðir síðar ef þörf er á.

4. Skráning stjórnmálasamtaka

Athygli sveitarfélaga og kjörstjórna er vakin á frétt á vef dómsmálaráðuneytisins þar sem veittar eru leiðbeiningar um hvernig standa skal að skráningu stjórnmálasamtaka. Skráningin fer fram á vefsíðu Skattsins. Stjórnmálasamtakaskráin er aðgengileg á vef Stjórnarráðsins.


Skráning stjórnmálasamtaka er forsenda þess að samtök fái opinbera styrki. Einnig er rétt að geta þess að unnið er að uppfærslu á viðmiðunarreglum Sambands íslenskra sveitarfélaga um stuðning við stjórnmálasamtök. Stefnt er að því að málið verði lagt fram til afgreiðslu á fundi stjórnar sambandsins 25. mars n.k.

5. Tímalína kosninga

Stjórnarráðið hefur gefið út tímalínu kosninga sbr. kosningalög nr. 112/2021. Tímalínan er sett upp í myndrænu formi þar sem fram koma helstu dagsetningar fram að sveitarstjórnarkosningum.