SAMTAKA UM HRINGRÁSARHAGKERFI
Þriðji hluti átaksins varðar innleiðingu á svokallaðri Borgað þegar hent er (BÞHE) aðferð við innheimtu sem sveitarfélögum er gert að innleiða skv. 2. mgr. 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs. Verkefnið er nánari útfærsla á niðurstöðum verkfræðistofunnar Eflu frá því í janúar 2022 um greiningu á mögulegum útfærslum.
Nýlegar lagabreytingar hafa verulega þýðingu fyrir sveitarfélögin í landinu þar sem þau bera mikla ábyrgð á meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. að heimilisúrgangi sé safnað og að innheimta gjald fyrir þessa þjónustu. Með nýlegum lagabreytingum er þeim gert að koma því þannig fyrir að innheimta verði sem næst raunkostnaði fyrir meðhöndlun úrgangs niður á hvern aðila og að fast gjald skuli takmarkast við 50% til ársins 2025 og 25% eftir það. Þessar breytingar þýða að flest sveitarfélög þurfa að aðlaga gjaldskrár sínar og innheimtukerfi. Sveitarfélög þurfa að taka skref frá því að nota kerfi sem innheimtir fast gjald, í að nota innheimtukerfi sem er sniðið að því magni og tegund úrgangs sem hver og einn lætur frá sér.
Greining á útfærslum BÞHE
Fyrir liggur skýrsla sem ráðgjafafyrirtækið Efla vann fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga sem sýnir að innheimta eftir stærð og fjölda íláta, svokölluð rúmmálsleið, er einfaldasta leiðin til að innleiða BÞHE kerfi við innheimtu. Rúmmálsleiðin mun uppfylla kröfur lagabreytinganna og krefst þess að sveitarfélög kortleggi fjölda og stærð íláta og útfæri gjaldskrá í takt við BÞHE kerfi.
BÞHE hraðall
Sambandið hefur umsjón með tilraunaverkefni BÞHE hraðall og markmiðið er að klára að innleiða það með þátttökusveitarfélögunum fyrir áramót svo að búið verði að fá reynslu á þetta nýja innheimtufyrirkomulag og kortleggja hvað felst í því að innleiða það.
,,Borgað þegar hent er hraðallinn“ hefur það að markmiði að aðstoða sveitarfélög að innleiða nýjar lagakröfur um breytingar á innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs, svokallaðra sorphirðugjalda. Reynslan sem hlýst af verkefninu mun hafa þýðingu fyrir öll sveitarfélög en eftir áramót ber þeim að tryggja að greitt sé í samræmi við magn og tegund úrgangs sem til fellur hjá viðkomandi úrgangshafa, bæði hjá íbúum og sveitarfélögum.
Afurðir verkefnisins
Í þessum hluta átaksins urðu til ýmis gögn sem verða sveitarfélögunum til stuðnings í innleiðingu BÞHE. Hér fyrir neðan eru helstu gögn er varða breytta innheimtu sveitarfélaga.
- Lagabreytingarnar
- Handbók um úrgangsstjórnun sveitarfélaga
- Borgað þegar hent er hraðall - minnisblað um verkefni sambandsins, í samstarfi við HMS, Ísafjarðarbæ, Grímsnes- og Grafningshrepp - jan. 2023
- Skýrsla um greining á útfærslum Borgað þegar hent er kerfa sem Efla vann fyrir sambandið
- Borgað þegar hent er heim í hérað - glærur frá KPMG
- BÞHE hraðallinn - glærur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga
- Vinnustofa sambandsins um Borgað þegar hent er.
- Góð ráð við gerð gjaldskráa vegna meðhöndlunar úrgangs
- Texti til kynningarmála
- Átta skref til að innleiða BÞHE
- Tímaáætlun yfirfærslu BÞHE
Stórt verkefni – skammur tími til stefnu
Sveitarfélög gegna veigamiklu hlutverki í úrgangsstjórnun og innleiðingu hringrásarhagkerfis. Nýjar kröfur í regluverki úrgangsmála fela í sér áskorun fyrir flest sveitarfélög sem nú vinna af kappi að því að innleiða breytingarnar fyrir 1. janúar 2023. Sambandið hefur komið að og haft umsjón með ýmsum stuðningsverkefnum í tengslum við breytt lagaumhverfi í úrgangsmálum.
Þrískipt verkefni
Þessi hluti átaksins Samtaka um hringrásarhagkerfi snýr að styðja sveitarfélög í upplýstri ákvarðanatöku í tengslum við innleiðingu Borgað þegar hent er við gjaldheimtu fyrir meðhöndlun úrgangs.
Samhliða verkefninu „Borgað þegar hent er heim í hérað" eru „Kaup í anda hringrásarhagkerfis“ og „Svæðisáætlanir sveitarfélaga sem verkfæri í ákvarðanatöku“.