1. hluti: Svæðisáætlanir sveitarfélaga sem verkfæri í ákvarðanatöku

SAMTAKA UM HRINGRÁSARHAGKERFI

„Svæðisáætlanir sveitarfélaga sem verkfæri í ákvarðanatöku“ er hluti af átakinu „Samtaka um hringrásarhagkerfi“ og hefur það markmið að efla og styrkja svæðisáætlanagerð sveitarfélaga fyrir meðhöndlun úrgangs sem vettvang upplýstrar ákvarðanatöku í úrgangsstjórnun. Verkefnið er hugsað sem vettvangur sameiginlegrar þátttöku sveitarfélaga sem hafa ákveðið að standa saman að gerð svæðisáætlunar, skv. 6 . gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, en einnig getur sveitarfélag skráð sig eitt og sér.

Svæðisáætlanir sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs hafa þann tilgang að skapa umgjörð utan um samtal og stærri ákvarðanir sveitarfélaga á viðkomandi svæðum um úrgangsforvarnir og um söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs. Í árslok 2020 féllu flestar svæðisáætlanir um meðhöndlun úrgangs úr gildi.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 55/2003 skal sveitarstjórn, ein eða fleiri í sameiningu, semja og staðfesta svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir fyrir viðkomandi svæði til tólf ára í senn. Samkvæmt breytingu á þessari sömu lagagrein, sem kemur til framkvæmda 1. janúar 2023, skal Umhverfisstofnun hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gefi út svæðisáætlanir og senda umhverfisráðuneytinu ábendingu ef „sveitarstjórn gefur ekki út svæðisáætlun eða svæðisáætlun er ekki í samræmi við lög og reglur“.

Svæðisáætlanavinna í fullum gangi

Sambandið gerði víðreist um landið vorið 2022 og fundaði með öllum sveitarfélögum sem skráð voru í verkefnið með það markmiði að efla og styrkja svæðisáætlanagerð sveitarfélaga fyrir meðhöndlun úrgangs sem vettvang upplýstrar ákvarðanatöku í úrgangsstjórnun. Sveitarfélög sem skráðu sig til þátttöku í þessum hluta átaksins fengu grunnstöðumat á meðhöndlun úrgangs á sínu svæði, byggða á fundunum og á samantekt sem unnin var á viðkomandi svæðum.

Sveitarfélög í öllum landshlutum hafa tekið ákvörðun um að vinna saman svæðisáætlun. Suðvesturhluti landsins, þ.e. Suðurland, suðvesturhornið og Vesturland, alls 32 sveitarfélög, hafa lokið við gerð sameiginlegrar svæðisáætlunar. Aldrei áður hefur náðst jafnmikil samvinna í svæðisáætlanagerð sem er vísir að aukinni samvinnu í úrgangsmálum á næstu árum.

Grunnstöðumat svæðisáætlana

Norðurland - minnisblaðAusturland - greinargerð
SV land - greinargerðVestfirðir - greinargerð
Suðurland - greinargerðVestmannaeyjar - greinargerð

Fyrri útgáfur svæðisáætlana sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs.

Stuðningur við úrgangsstjórnun sveitarfélaga

Handbók um úrgangsstjórnun sveitarfélaga er aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar. Um er að ræða vegvísi sveitarfélaga og verkfærakistu í úrgangsmálum. Þar er finna stefnumótandi ákvarðanir og upplýsingar um þjónustu sem sveitarstjórnir bera ábyrgð á samkvæmt lögum, en þar má einnig finna ítarlegar leiðbeiningar um gerð svæðisáætlana. Einnig hefur sambandið tekið saman helstu spurningar og svör er varða breytingar á úrgangsstjórnun sveitarfélaga.

Þrískipt verkefni

Samhliða verkefninu „Svæðisáætlanir sveitarfélaga sem verkfæri í ákvarðanatöku“ er „Kaup í anda hringrásarhagkerfisins“ og hitt „Borgað þegar hent er kerfi heim í hérað“.