Undanfarnar vikur hefur verkefnið Samtaka um hringrásarhagkerfi gert víðreist um landið og hitt fyrir sveitarstjórnarfólk og lykilstarfsmenn í úrgangsmálum.
Vinnusmiðjur, fundir, samtal og fræðsla um stóru dagsetninguna 1. janúar 2023 hafa farið fram. Þá taka gildi lög um hringrásarhagkerfi og framundan er ein allsherjar breyting á öllu er varðar flokkun og endurvinnslu og lágmörkun urðunar. Auk þess er í nýju lögunum kveðið á um að framleiðendaábyrgðarkerfið, sem Úrvinnslusjóður og Endurvinnslan bera ábyrgð á, eigi að koma sterkar inn með hagræna hvata til að drífa úrgangsstjórnun í átt að markmiðum hringrásarhagkerfisins. Þátttaka og viðbrögð hafa verið afar góð og ljóst er að þessi mál eru sveitarstjórnarfólki hugleikin, enda stórt og mikilvægt verkefni og skammur tími til stefnu.
Samtaka um hringrásarhagkerfi er verkefni á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga til að aðstoða sveitarfélög við að innleiða þessar miklu breytingar. Upphafsfundurinn var haldinn 16. mars þar sem ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála, Guðlaugur Þór Þórðarson, hvatti sveitarstjórnarfólk til að keyra þetta verkefni áfram. Verkefnið skiptist í þrjá verkefnahluta, sem allir hafa það hlutverk að renna styrkari stoðum undir innleiðingu hringrásarhagkerfið hérlendis.
- Svæðisáætlanir sveitarfélaga sem verkfæri í ákvarðanatöku
- Kaup í anda hringrásarhagkerfisins - innkaup í úrgangsstjórnun sveitarfélaga
- Borgað þegar hent er kerfi heim í hérað
Svæðisáætlanir
Svæðisáætlun er grundvallarsýn og áætlun um hvernig sveitarfélögin ætla að byggja um hringrásarhagkerfi á næstu tólf árum. Fimm fundir hafa farið fram um land allt um svæðisáætlanir sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs með umhverfissérfræðinginn Stefán Gíslason í broddi fylkingar. Það er gaman að segja frá því að mikill samhljómar er meðal sveitarfélaga að auka samvinnu við gerð svæðisáætlana og hraða þeirri vinnu. Væntingar eru um að þessi vinna verði tekin upp af miklum krafti strax eftir kosningar. Samvinna og samtakamáttur eru lykilatriði þegar hringrásarhagkerfið er annars vegar og afar mikilvægt að sveitarfélög taki höndum saman, hafi sameiginlega framtíðarsýn og vinni saman að þessu mikilvæga umhverfisverkefni.
Kaup í anda hringrásarhagkerfis
Fyrsti kynningar- og vinnufundur verður haldin þriðjudaginn 31. maí næstkomandi, klukkan 9:00-12:00.Öll þau sem vinna að umhverfis- og úrgangsmálum og fjármálum sveitarfélaga eru hvött til mæta. Þessi hluti verkefnisins snýr að innkaupum sveitarfélaga á þjónustu, vörum og framkvæmdum í úrgangsmálum. Meðal annars verður lögð áhersla á útboðsgerð á þjónustu við söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs, hvort sem er við heimili íbúa eða á grenndarstöðvum, söfnunar- og móttökustöðvum. Markmið þessa verkefnis er að styðja sveitarfélög til að uppfylla kröfur nýlegra lagabreytinga og að þær rati inn í innkaup sveitarfélaga.
Borgað þegar hent er - BÞHE
Metþátttaka var á fyrsts fundi um nýtt fyrirkomulag við innheimtu sveitarfélaga fyrir úrgangsmál sem haldin var 5. maí síðastliðinn. . Þar til 1. janúar 2023 er hægt að hafa fast gjald á hverja fasteignaeiningu og miða það við magn úrgangs, tegund eða aðra þætti. Eftir það verður álagning vegna meðhöndlunar úrgangs að byggjast á svokallaðri ,,Borgaðu þegar þú hendir“ (BÞHE) aðferðafræði sem gengur út á að kostnaður hvers íbúa og fyrirtækja tekur mið af magni úrgangs, gerð, losunartíðni, frágangi úrgangs og öðrum þáttum sem hafa áhrif á kostnað sveitarfélagsins við meðhöndlun úrgangs. Til eru margar mismunandi útfærslur af BÞHE kerfum sem í grófum dráttum er skipt upp í kerfi sem nota annars vegar rúmmál sem viðmið og hins vegar þyngd. Útfærslur eru mishentugar fyrir sveitarfélögin og geta þau valið um að nýta sér eitt eða fleiri kerfi við innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs. Um þetta hafa spunnist miklar og gagnlegar umræður. Þetta er miklar breytingar og mörg minni sveitarfélög hafa áhyggjur af því hvernig best sé að innleiða þetta allt saman. Allir virðast þó sammála að ávinningurinn sé mikilvægur: BÞHE kerfið leiðir til minni úrgangs, getur leitt til hagkvæmni fyrir sveitarfélagið, en er kannski umfram allt réttlætismál – að framvegis borgi sá sem mengi.
Verkfærakista fyrir sveitarfélög
Með sumrinu halda öll þessi verkefni áfram. Miklar og mikilvægar upplýsingar hafa safnast á fundum og vinnustofunum síðast liðnar vikur. Í þessum mánuði verður gefin út handbók um úrgangstjórnun og á heimasíðunni Samtaka um hringrásarhagkerfi er hægt að finna upplýsingar, skýrslur, leiðbeiningar, sniðmát, upptökur af fundum og fleira sem getur gagnast í þessari stóru og mikilvægu vinnu.
Samtaka um hringrásarhagkerfi er því ein allsherjar verkfærakista fyrir sveitarfélögin til að innleiða hringrásarhagkerfi á Íslandi.