3. hluti: Borgað þegar hent er kerfi heim í hérað

SAMTAKA UM HRINGRÁSARHAGKERFIÐ

BOÐ UM ÞÁTTTÖKU

Síðasti hluti átaksins varðar innleiðingu á svokallaðri Borgaðu þegar hent er (BÞHE) aðferð við innheimtu sem sveitarfélögum er gert að innleiða í lok árs skv. 2. mgr. 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs. Verkefnið er nánari útfærsla á niðurstöðum verkfræðistofunnar Eflu frá því í janúar 2022 um greiningu á mögulegum útfærslum.

Til eru margar  mismunandi útfærslur af BÞHE kerfum sem í grófum dráttum er skipt upp í kerfi sem nota annars vegar rúmmál sem viðmið og hins vegar þyngd. Útfærslur eru mishentugar fyrir sveitarfélögin og geta þau valið um að nýta sér eitt eða fleiri kerfi við innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs. Verkefnið gerir ráð fyrir að öllum sveitarfélögum verði gert kleift að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs hjá sínum íbúum í gegnum Álagningarkerfi Fasteignarskrár, í takt við rúmmál þess úrgangs sem fellur til sem var sú leið sem niðurstöður Eflu bentu til að væri fær og hagkvæm leið.

Nýlegar lagabreytingar hafa verulega þýðingu fyrir sveitarfélögin í landinu þar sem þau bera mikla ábyrgð á meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. að heimilisúrgangi sé safnað og að innheimta gjald fyrir þessa þjónustu. Með nýlegum lagabreytingum er þeim gert að koma því þannig fyrir að innheimta verði sem næst raunkostnaði fyrir meðhöndlun úrgangs niður á hvern aðila og að fast gjald skuli takmarkast við 50% til ársins 2025 og 25% eftir það. Þessar breytingar þýða að flest sveitarfélög þurfa að aðlaga gjaldskrár sínar og innheimtukerfi. Sveitarfélög þurfa að taka skref frá því að nota kerfi sem innheimtir fast gjald, í að nota innheimtukerfi sem er sniðið að því magni og tegund úrgangs sem hver og einn lætur frá sér.

Þátttakendur fá fræðslu og leiðsögn um þessa innleiðingu og greinargerð með tillögum að innleiðingarferli.  

Helstu vörður eru tilgreindar hér:

Fyrirkomulag funda og afurðir verkefnisins

Fræðsla um BÞHE og hvernig innheimta og gagnaskil inn í álagningakerfi Þjóðskrár er best háttað. Einnig verður fræðsla um breytingar á verklagi sveitarfélaga fyrir BÞHE ferlið. Sett verður fram greinargerð ásamt innleiðingaráætlun fyrir hvert sveitarfélag.

KPMG koma að skipulagningu og framkvæmd með lykilfólki Sambands íslenskra sveitarfélaga og annarra sérfræðinga eftir þörfum. Vinnan fer að mestu fram í fjarfundum.

Stórt verkefni – skammur tími til stefnu

Sveitarfélög gegna veigamiklu hlutverki í úrgangsstjórnun og innleiðingu hringrásarhagkerfis. Nýjar kröfur í regluverki úrgangsmála fela í sér áskorun fyrir flest sveitarfélög sem nú vinna af kappi að því að innleiða breytingarnar fyrir 1. janúar 2023.

Sambandið hefur komið að og haft umsjón með ýmsum stuðningsverkefnum í tengslum við breytt lagaumhverfi í úrgangsmálum. Nýlega kynnti sambandið t.a.m. greinagerð um breytta innheimtu fyrir meðhöndlun úrgangs.  

Þrískipt verkefni

Samhliða verkefninu „Borgað þegar hent er kerfi heim í hérað“ hefur sambandið umsjón með tveimur öðrum verkefnum um úrgangsstjórnun sveitarfélaga, sem sveitarfélögum verður boðin þátttaka í. Annað er „Svæðisáætlanir sveitarfélaga sem verkfæri í ákvarðanatöku“ í úrgangsstjórnun sveitarfélaga“ og hitt ,,Kaup í anda hringrásarhagkerfisins - innkaup í úrgangsstjórnun sveitarfélaga“.