1. hluti: Svæðisáætlanir sveitarfélaga sem verkfæri í ákvarðanatöku

SAMTAKA UM HRINGRÁSARHAGKERFI

Svæðisáætlanir eru verkfæri

„Svæðisáætlanir sveitarfélaga sem verkfæri í ákvarðanatöku“ er hluti af átakinu „Samtaka um hringrásarhagkerfi“ og hefur það markmið að efla og styrkja svæðisáætlanagerð sveitarfélaga fyrir meðhöndlun úrgangs sem vettvang upplýstrar ákvarðanatöku í úrgangsstjórnun. Verkefnið er hugsað sem vettvangur sameiginlegrar þátttöku sveitarfélaga sem hafa ákveðið að standa saman að gerð svæðisáætlunar, skv. 6 . gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, en einnig getur sveitarfélag skráð sig eitt og sér.

Svæðisáætlanir sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs hafa þann tilgang að skapa umgjörð utan um samtal og stærri ákvarðanir sveitarfélaga á viðkomandi svæðum um úrgangsforvarnir og um söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs. Í árslok 2020 féllu flestar svæðisáætlanir um meðhöndlun úrgangs úr gildi og nú er einungis ein svæðisáætlun í gildi á landinu auk þess sem svæðisáætlun fyrir SV-land er á lokametrunum.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 55/2003 skal sveitarstjórn, ein eða fleiri í sameiningu, semja og staðfesta svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir fyrir viðkomandi svæði til tólf ára í senn. Samkvæmt breytingu á þessari sömu lagagrein, sem kemur til framkvæmda 1. janúar 2023, skal Umhverfisstofnun hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gefi út svæðisáætlanir og senda umhverfisráðuneytinu ábendingu ef „sveitarstjórn gefur ekki út svæðisáætlun eða svæðisáætlun er ekki í samræmi við lög og reglur“.

Þau sveitarfélög sem taka þátt í svæðisáætlanahluta átaksins „Samtaka um hringrásarhagkerfi“ fá:

  1. lágmarksstöðumat á sínu svæði á magni úrgangs í einstökum flokkum og fleiri þáttum sem skipta máli fyrir úrgangsstjórnun og meðhöndlun úrgangs,
  2. tækifæri til að taka þátt í vinnusmiðju um svæðisáætlanir þar sem fram fer fræðsla og samtal um úrgangsstjórnun og hringrásarhagkerfið,
  3. stutta greinargerð um stöðu, markmið og aðgerðir á svæðinu og
  4. möguleika á þátttöku í reglulegum fundum sem sambandið mun standa fyrir um úrgangsstjórnun sveitarfélaga og hringrásarhagkerfið.

Helstu vörður verkefnisins eru tilgreindar í mynd 1.

Mynd 1. Helstu vörður verkefnisins.

Vinnusmiðjur um svæðisáætlanir

Vinnusmiðjur verða í boði fyrir hvert svæði eða sveitarfélag á tímabilinu apríl og fram á haust. Vinnusmiðjurnar eru ætlaðar bæði kjörnum fulltrúum og lykilstarfsfólki sveitarfélaga en einnig ráðgjöfum sem sveitarfélögin hafa á sínum vegum. Hver vinnusmiðja stendur í um 3-4 klst. og getur verið hvort sem er á staðfundi eða fjarfundi, eftir því sem best hentar hverju sinni. Auk fræðslunnar verður kynnt lágmarksstöðumat á viðkomandi svæði (sbr. tölulið 1 hér að framan).

Vinnustofan endar með stýrðu samtali um stöðu, markmið og mögulegar aðgerðir sem þarf að ráðast í til að tryggja að markmiðum í málaflokknum verði náð og til að skapa og viðhalda hagkvæmri og góðri þjónustu við íbúa og atvinnulíf á svæðinu með sem mestum umhverfislegum ávinningi. Að vinnusmiðju lokinni fær hvert sveitarfélag sem tók þátt, greinargerð um helstu niðurstöður samtalsins og næstu skref í svæðisáætlunarvinnunni.

Þrískipt verkefni

Samhliða verkefninu „Svæðisáætlanir sveitarfélaga sem verkfæri í ákvarðanatöku“ hefur sambandið umsjón með tveimur öðrum verkefnum um úrgangsstjórnun sveitarfélaga, sem sveitarfélögum verður boðin þátttaka í. Annað er „Kaup í anda hringrásarhagkerfisins - innkaup í úrgangsstjórnun sveitarfélaga“ og hitt „Borgað þegar hent er kerfi heim í hérað“.