Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA

Við gerð EES-samningsins gerðu menn sér ekki grein fyrir því hversu mikil áhrif hann myndi hafa á sveitarfélög í EES-EFTA löndunum. Ein skýringin er sú að Svæðanefnd ESB, sem er pólitískur vettvangur sveitarstjórnarstigsins í ESB aðildarlöndum, hafði þá ekki tekið til starfa. Sveitarstjórnarstiginu var því ekki tryggð nein aðkoma að EES-samstarfinu. Síðar kom í ljós að stór hluti af evrópskri löggjöf sem innleidd er í gegnum EES-samninginn hefur áhrif  á sveitarfélög, allt að 70% að því er talið er, auk þess sem samningurinn tryggir sveitarfélögum aðgang að fjölmörgum evrópskum samstarfsáætlunum. Sveitarstjórnarstigið hefur því mikilla hagsmuna að gæta í EES-samstarfinu og íslenska og norska sveitarfélagasambandið börðust í nokkur ár fyrir viðurkenningu á því.

Til að koma á samráði við sveitarfélög, samþykktu ráðherrar EFTA, á fundi sínum í Lugano í júní 2008, að setja á laggirnar vettvang fyrir kjörna fulltrúa á sveitarstjórnarstigi og Fastanefnd EFTA afgreiddi svo málið á fundi sínum í desember 2009. Hér er að finna ákvörðun fastanefndar EFTA um stofnun vettvangsins. Fyrsti fundur vettvangsins fór fram í Reykjavík 22.-23. júní 2010.

Meginmarkmiðið með vettvanginum er að tryggja þátttöku sveitarstjórnarmanna í EES-samstarfinu og koma á tengslum við Svæðanefnd ESB en í henni sitja kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá ESB ríkjunum sem hafa það hlutverk að fjalla um tillögur að evrópskri löggjöf sem varða sveitarstjórnarstigið.

Í vettvanginum eiga sæti 6 íslenskir og 6 norskir sveitarstjórnarmenn og því til viðbótar eru 2 svissneskir sveitarstjórnarmenn með áheyrnaraðild að vettvanginum.

Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg eru með fasta fulltrúa í vettvanginum á meðan landshlutasamtök sveitarfélaga skipta með sér 4 sætum í vettvanginum.

Aðalmenn af hálfu Íslands 2022-2024 eru:

  • Guðveig A. Eyglóardóttir, formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi
  • Jóhanna Ösp Einarsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga
  • Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
  • Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
  • Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri og stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af sambandinu
  • Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi, tilnefnd af Reykjavíkurborg

 

EES EFTA Sveitarstjórnarvettvangurinn var settur á stofn eftir að Evrópusambandið setti upp Svæðanefnd Evrópusambandsins, (European Committee of the Regions – CoR. Svæðanefndinni var komið á fót með Maastricht-sáttmálanum árið 1994 í þeim tilgangi að efla aðkomu sveitarstjórna og annarra svæðisbundinna yfirvalda í aðildarríkjunum að ákvarðanatökuferli sambandsins. Svæðanefndin gegnir ráðgefandi hlutverki gagnvart Evrópuþinginu, framkvæmdastjórninni og ráðinu. Markmið svæðanefndarinnar er að skapa fulltrúum minni stjórnsýslueininga vettvang til að taka virkan þátt í mótun nýrrar ESB-löggjafar, en um það bil þrír fjórðu hlutar ESB-löggjafar koma til framkvæmdar hjá sveitarfélögum eða svæðisbundnum yfirvöldum aðildarríkjanna. Svæðanefndinni er því ætlað að efla aðkomu sveitar- og héraðsstjórna að ákvarðanatökuferli sambandsins og veita þeim tækifæri til að móta löggjöf ESB á þeim sviðum sem snerta hagsmuni svæðiseininga.

Með Lissabon-sáttmálanum var hlutverk svæðanefndarinnar eflt og ber Evrópuþinginu, framkvæmdastjórninni og ráðinu nú að hafa samráð við nefndina við setningu laga í fjölmörgum málaflokkum, t.d. hvað varðar efnahagslega og félagslega samheldni, umhverfismál, heilbrigðismál, menntun og menningarmál, atvinnumál, félagsmál, samgöngumál, almannavarnir, loftslagsbreytingar og orkumál.

Í svæðanefndinni eiga sæti fulltrúar svæðis- og staðaryfirvalda sem hafa annaðhvort verið kosnir til starfa fyrir viðkomandi yfirvöld eða bera pólitíska ábyrgð gagnvart kjörnu þingi

Vefsíða: https://cor.europa.eu/en