23. fundur Sveitarstjórnarvettvangs EES-EFTA

Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA kom saman í Brussel dagana 1.-2. desember 2022 í fyrsta skipti eftir Covid. Helstu mál á dagskrá voru endurskoðun fráveitutilskipunar ESB og tillögur að tilskipun er snýr að því að auka jafnrétti kynjanna með því að tryggja að sömu laun séu geidd fyrir sömu störf.

Íslendingar og Norðmenn skipta með sér formennsku í vettvanginum til eins árs í senn og var Rósa Guðbjartsdóttir, fulltrúi  Sambands íslenskra sveitarfélaga í vettvanginum og bæjarstjóri Hafnarfjarðar, kjörin formaður í lok fundar .

Umfjöllun Sveitarstjórnarvettvangsins um nýja fráveitutilskipun ESB

Sveitarstjórnarvettvangurinn samþykkti drög að ályktun um endurskoðun fráveitutilskipunar ESB. Í ályktuninni er bent á að gildandi tilskipun, sem er orðin 30 ára, hafi skilað umbótum á meðhöndlun skólps í Evrópu og haft jákvæð áhrif á umhverfi og heilsu íbúa álfunnar. Því er fagnað að nú sé stefnt að því að gera enn betur og bregðast við mengun frá örplasti og lyfjaleifum.

Í ályktuninni er þó lögð rík áhersla á að aðstæður á Íslandi og Noregi, s.s. landfræðileg staðsetning, dreifðar og fámennar byggðir, séu þannig að aðrar aðgerðir en kveðið er á um í tillögunum, s.s.aðrar tegundar hreinsunar, getið hentað betur fyrir aðstæður í löndunum tveimur. Þá er bent á að innleiðing muni fela í sér mikla fjárfestingu í innviðum og að nauðsynlegt sé að stjórnvöld EES EFTA ríkjanna tryggi fjármögnun á þeim innviðum sem innleiðing tilskipunarinnar komi til með að hafa í för með sér.

Starfsmenn norsku og íslensku sveitarfélagasambandanna munu ganga frá ályktuninni á næstu dögum í samvinnu við fulltrúa í vettvanginum og þá verður hún aðgengileg hér fyrir neðan.

Umfjöllun Sveitarstjórnarvettvangsins um tilskipun ESB sem snýr að því að sömu laun séu geidd fyrir sömu störf

Tilskipunin er hluti af aðgerðum ESB til að stuðla að auknu jafnrétti kynjanna í Evrópu. Markmiðið er að minnka þann launamun sem viðgengst í álfunni og tryggja að sömu laun séu greidd fyrir sömu vinnu. Í ályktun Sveitarstjórnarvettvangs EES EFTA er lýst yfir stuðningi við markmið tilskipunarinnar, en jafnframt bent á að töluverður munur er á því hvernig kaup og kjör eru ákvörðuð innan EES EFTA ríkjanna samanborið við mörg ríki ESB.

Þetta atriði hefur áður komið til umfjöllunar sveitarstjórnarvettvangsins, en fjallað var um tilskipun ESB um lágmarkslaun á fundi vettvangins í janúar 2021. Þeirri tilskipun er ætlað að tryggja að allir fái sanngjörn laun fyrir vinnuframlag sitt og í ályktun vettvangsins um málið var það markmið stutt, en jafnframt því var áréttað að tillögur ESB megi ekki hafa neikvæð áhrif á kjarasamningsmódel aðildarríkja.

Í ályktun vettvangsins er þessi athugasemd endurtekin. Auk þess er bent á að bæði Ísland og Noregur séu komin lengra í jafnlaunamálum en flest ríki ESB og lögbundin jafnlaunavottun á íslenskum vinnumarkaði tilgreind sem dæmi um það.

Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA

Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA tók til starfa árið 2010 og er hlutverk hans að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Íslandi og Noregi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss.

Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Fulltrúar Íslands á fundi Sveitarstjórnarvettvangs EES-EFTA 1.-2. desember 2022

  • Guðveig A. Eyglóardóttir, formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi
  • Rósa Guðbjartsdóttir, stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af sambandinu
  • Jóhanna Ösp Einarsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga
  • Friðjón Einarsson, formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum
  • Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af Reykjavíkurborg