Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA kom saman í Saignelégier í Sviss dagana 11.-12. maí 2023. Að þessu sinni var stafræn umbreyting og innviðauppbygging í tengslum við hana helsta umfjöllunarefni vettvangsins.
Umfjöllun Sveitarstjórnarvettvangsins um uppbyggingu stafrænna innviða
Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA fjallaði um þá stafrænu umbreytingu sem nú á sér stað í Evrópu. Meðal annars var fjallað um uppbyggingu stafrænna innviða og þar á meðal s.k. Gigabit-tilskipun ESB.
Vettvangurinn samþykkti ályktun um Gigabit-tilskipun ESB. Þar er tekið undir markmið tilskipunarinnar, en jafnframt bent á að EES EFTA ríkin séu í fararbroddi innan Evrópu þegar kemur að uppbyggingu stafrænna inviða. Þar sem allar líkur eru á að tilskipunin verði einnig innleidd í EES EFTA ríkjunum, þá er bent á að taka þurfi tillit til þess að EES EFTA ríkin hafi nú þegar náð markmiðum tilskipunarinnar. Því sé engin þörf á að grípa til kostnaðarsamra úrræða í tilviki EES EFTA ríkjanna, þar sem umrædd úrræði séu gagngert hugsuð til þess að hraða uppbyggingu í þeim löndum ESB sem enn eiga langt í land í tengslum við stafræna innviðauppbyggingu. Þá er í ályktuninni einnig bent á mikilvægi þess að hugað sé að netöryggi í tengslum við stafræna innviðauppbyggingu, á sama tíma og að tryggt sé að almenningur fyrirtæki og stofnanir hafi greiðan aðgang að framúrskarandi stafrænum innviðum.
Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA fjallaði einnig um stöðu mála í Sviss, Noregi og á Íslandi þegar kemur að því að nútímavæða stafræna þjónustu sveitarfélaga. Stafræna teymi Sambands íslenskra sveitarfélaga tók rafrænt þátt í þeirri umræðu og gerði grein fyrir þeirri vinnu sem nú fer fram á vegum íslenskra sveitarfélaga.
Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA
Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA tók til starfa árið 2010 og er hlutverk hans að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Íslandi og Noregi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss.
Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.
Íslendingar og Norðmenn skipta með sér formennsku í vettvanginum til eins árs í senn og er Rósa Guðbjartsdóttir, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í vettvanginum og bæjarstjóri Hafnarfjarðar, núverandi formaður vettvangsins.
Fulltrúar Íslands á fundi Sveitarstjórnarvettvangs EES-EFTA 1.-2. desember 2022
Rósa Guðbjartsdóttir | stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af sambandinu |
Líf Lárusdóttir | varaformaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi |
Jóhanna Ösp Einarsdóttir | formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga |
Þór Sigurgeirsson | varaformaður Samtaka sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu |
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir | stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af Reykjavíkurborg |