20. fundur Sveitarstjórnarvettvangs EES-EFTA

Sveitarstjórnarvettvangurinn fundaði í tuttugasta sinn í Brussel 12.-13. desember 2019. Á fundinum var m.a. fjallað um stöðu lýðræðis í Evrópu, aðgerðir ESB í tengslum við hatursorðræðu gagnvart kjörnum fulltrúum og þjónustutilskipun ESB

Sveitarstjórnarvettvangurinn fundaði í tuttugasta sinn í Brussel 12.-13. desember 2019. Hann tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Íslandi og Noregi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Meðal umfjöllunarefnis vettvangsins að þessu sinni voru staða lýðræðis í Evrópu og aðgerðir ESB í tengslum við hatursorðræðu gagnvart kjörnum fulltrúum. Þá var fjallað um álitaefni í tengslum við þjónustutilskipun ESB og hugsanleg áhrif hennar á ákvörðunarvald sveitarstjórna, m.a. þegar kemur að skipulagsmálum. Loks var rætt um nýskipaða Framkvæmdastjórn ESB og hvert Evrópa muni stefna á næstu árum.

Þátttakendur á 20. fundi sveitarstjórnarvettvangs EES og EFTAStaða lýðræðis í Evrópu og aðgerðir ESB í tengslum við hatursorðræðu gagnvart kjörnum fulltrúum

Á fundinum var samþykkt ályktun í tengslum við stöðu lýðræðis í Evrópu og hatursorðræðu gagnvart kjörnum fulltrúum. Í ályktuninni er lögð áhersla á að EES EFTA ríkin og ESB vinni saman að því að tryggja framgang lýðræðis í álfunni og að gripið verði til markvissra aðgerða til þess að vinna gegn hatursorðræðu. Í ályktuninni er bent á að hatursorðræða gagnvart kjörnum fulltrúm hafi neikvæð áhrif á lýðræðið og vilja fólks til þess að taka þátt í stjórnmálastarfi. Þá er einnig bent á ábyrgð kjörinna fulltrúa í þessum efnum. Í ályktuninni er lagt til að komið sé upp kerfi sem verndi kjörna fulltrúa gegn hatursorðræðu og eru EES EFTA ríkin og ESB hvött til að aðstoða sveitarstjórnarstigið í þeirri vinnu.

Þjónustutilskipun ESB og hugsanleg áhrif hennar á ákvörðunarvald sveitarstjórna

Á fundinum var samþykkt ályktun um málið þar sem ESB er hvatt til þess að samþykkja ekki kvaðir á grundvelli þjónustutilskipunar ESB sem eru íþyngjandi fyrir sveitarstjórnir á EES svæðinu, eða sem hugsanlega hafa áhrif á ákvörðunarvald sveitarstjórna. Sem dæmi má nefna rétt sveitarfélaga til þess að ákvarða hvaða þjónusta sé til boða í miðbæjarkjörnum og hvaða þjónusta sé til boða í atvinnukjörnum. Í ályktuninni er áréttað að þó svo þjónustutilskipun ESB sé ætlað að tryggja frjálsa þjónustu þá megi það ekki ganga á ákvörðunarrétt sveitarstjórna. Þá er bent á að nú þegar séu til staðar kerfi sem taka á þessum málum, t.d. samkeppnisstofnanir og dómstólar innan EES EFTA landanna, auk Eftirlitsstofnunar EFTA. Það sé því ekki þörf á viðbótaraðgerðum af hálfu ESB hvað þetta varðar.

Fulltrúar Íslands í Sveitarstjórnarvettvangi EES-EFTA

Eggert Kjartanssonformaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi
Rakel Óskarsdóttirstjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af sambandinu
Rósa Guðbjartsdóttirformaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
Hafdís Gunnarsdóttirformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga
Þorleifur Karl Eggertssonformaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Þórdís Lóa Þórhallsdóttirstjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af Reykjavíkurborg