22. fundur Sveitarstjórnarvettvangs EES EFTA

Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA fundaði í tuttugasta og annað sinn 28.-29. janúar 2021. Á fundinum, sem fór fram á Teams, var fjallað um hagsmunagæslu vettvangsins á næstu misserum gagnvart Grænum sáttmála ESB (European Green Deal). Þá var fjallað um tillögur framkvæmdastjórnar ESB um setningu tilskipunar um lágmarkslaun í Evrópu.

Hagsmunir sveitarfélaga og svæða á Íslandi, í Noregi og Sviss gagnvart Græna sáttmálanum

Grænn sáttmáli fyrir Evrópu er eitt fyrirferðamesta málið á dagskrá framkvæmdastjórnar ESB þessi misserin. Sáttmálanum er ætlað að tryggja kolefnislausa Evrópu árið 2050 og í tengslum við það verður gripið til margvíslegra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda auk þess að aðlaga samfélög og efnahagskerfi Evrópu að áhrifum loftslagsbreytinga.

En Græni sáttmálinn fjallar um annað og meira en loftslag og umhverfi. Honum er einnig ætlað að vera vaxtarsproti fyrir evrópskt efnahagslíf. Nýsköpun og nútímavæðing hagkerfa og iðnaðar Evrópu er því grundvallaratriði í sáttmálanum, þar sem sköpun nýrra starfa og aukin samkeppnishæfni Evrópu eru lykilatriði.

Ljóst er að Græni sáttmálinn mun hafa mikil áhrif á borgir, bæi og sveitarfélög í Evrópu þar sem hann fjallar um málaflokka sem svæðis- og staðbundin stjórnvöld fara með að stórum hluta eða að öllu leyti.

Á fundinum var ákveðið að vettvangurinn muni fjalla frekar um málefni sem varða Græna sáttmálann. Hér er einkum horft til Hringrásarhagkerfisins og með hvaða hætti megi tryggja að loftslagsaðgerðir stjórnvalda hafi ekki neikvæð áhrif á viðkvæma samfélagshópa og dreifðar byggðir.

Það er ljóst að samfélög okkar þurfa að taka stakkaskiptum á næstu árum. Því þarf að tryggja að öll sveitarfélög, stór og smá, séu í stakk búin að takast á við þau verkefni sem loftslagsmálin krefjast. Sjálfbær þróun er lykilatriði í þessu samhengi, en þá þarf einnig að hafa í huga að sjálfbærni kostar og hún getur reynst smærri byggðum, sérstaklega í dreifbýli, hlutfallslega kostnaðarsamri en þeim sem stærri eru. Nauðsynlegt er að taka tillit til þessara sjónarmiða og árétta að innan ESB er rætt um s.k. „just transition“ eða réttláta framþróun sem algjöra grunnforsendu fyrir Græna sáttmálanum.

Umfjöllun vettvangsins um lágmarkslaun

Tillögur framkvæmdastjórnar ESB um tilskipun um lágmarkslaun í Evrópu er ætlað að tryggja að allir fái sanngjörn laun fyrir vinnuframlag sitt. Vettvangurinn styður þau markmið, en bendir jafnframt á að tillögur ESB megi ekki hafa neikvæð áhrif á þau kjarasamningsmódel sem fyrir eru og virka vel. Það erum einkum Norðurlandaþjóðir ESB sem deila þessum áhyggjum með vettvanginum.

Vettvangurinn samþykkti drög að ályktun um málið sem flutningsmaður málsins mun ganga frá á næstu dögum. Þar er lögð áhersla á ofangreind atriði og þá er einnig mælst til þess að aðgerðir ESB verði ekki í formi tilskipunar (EU Directive) heldur verði frekar um leiðbeinandi tilmæli (EU Council Recommendations) að ræða.

Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA

Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA fjallar um málefni sem varða Evrópusambandið og EES-samninginn. Í honum eiga sæti sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Íslandi og Noregi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Fulltrúar Íslands í Sveitarstjórnarvettvangi EES-EFTA

Einar Már SigurðarsonFormaður Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi
Rakel ÓskarsdóttirStjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af sambandinu og varaformaður vettvangsins
Hilda Jana GísladóttirFormaður Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra
Jóhann Friðrik FriðrikssonFormaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum
Ásgerður Kristín GylfadóttirFormaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga
Þórdís Lóa ÞórhallsdóttirStjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af Reykjavíkurborg