Fjármálaráðstefna Sambands íslenskra sveitarfélaga í skugga COVID 19

Óhætt er að segja að upphaf fjármálaráðstefnu Sambands sveitarfélaga hafi verið sérstakt þegar opnað var fyrir streymi á frá henni á netinu í morgun. Í fyrsta lagi fór ráðstefnan að þessu sinni öll fram á netinu vegna COVID faraldursins en hins vegar var greint frá þeim tíðindum strax í upphafi að gengið hefði verið frá samkomulagi við ríkið um aukinn stuðning við sveitarfélögin vegna COVID faraldursins.

Framlög ríkisins verða aukin um 3.300 milljónir króna auk þess sem veitt  hefur verið heimild til lántöku úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs um 1500 milljónir króna. Hækkun framlaga til einstakra málaflokka er sem hér segir:

  • Málefni fatlaðs fólks: 670 m.kr.
  • Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga: 720 m.kr.
  • Sveitarfélög sem standa höllum fæti: 500 m.kr.
  • Stefnumörkun um eflingu sveitarfélaga: 935 m.kr.
  • Tímabundin lækkun tryggingargjalds: 480 m.kr.

Mun einkenna reksturinn næstu misseri

Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði í opnunarávarpi sínu að leita þyrfti aftur til styrjalda og hamfara á fyrri hluta síðustu aldar til að finna samsvörun við það efnahagslega áfall sem við stæðum frammi fyrir nú þegar glímt væri við heimsfaraldur inflúensu.  Hún sagði tekjufall og aukin útgjöld einkenna núna rekstur og áætlanagerð sveitarfélaga og muni gera það áfram næstu misseri.

Rúmlega 32 milljarða lakari afkoma

Karl Björnsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði að greining á fjárhagslegum áhrifum Covid á sveitarfélögin sýni að það stefni í 33,2 milljörðum króna lakari afkomu sveitarfélaganna á árinu 2020. Þessu verður að hans sögn mætt með nýjum lántökum upp á 22,7 milljarða króna auk þess sem  gengið verður á handbært fé sem nemur 10,5 milljörðum króna. Hann sagði að lánsfjárþörf sveitarfélaganna í ár og á næsta ári verði um það bil 50 milljörðum króna meiri an fjárhagsáætlanir gerðu ráð fyrir.

Karl vísaði til samkomulags sem gert var á grundvelli laga um opinber fjármál og benti á að í  20 ár á 25 ára tímabili frá 1998-2022 hafi sveitarfélögin í landinu verið rekin og verði rekin með halla og velti upp þeirri spurningu hvort sveitarstjórnarstigið væri fjárhagslega sjálfbært.

Frekari veiking krónu líkleg

Erna Björg Sverrisdóttir aðalhagfræðingur Arionbanka fjallaði um efnahagshorfurnar 2020-2022. Þar kom fram að samdráttur í landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi varð 9% sem er minna en spáð hafði verið og gerir uppfærð spá Arionbanka miðað við rauntölur í fyrra ráð fyrir að samdráttur verði 7% á þessu ári en strax á næsta ári verði hún orðin jákvæð um 3,2%. Hún telur frekari veikingu krónunnar líklega nema til komi stefnubreyting frá Seðlabankanum og spáir því að verðbólga haldi áfram að aukast út þetta ár og geti náð 4% en hjaðni síðan hratt á  næsta ári.

Ríkissjóður ber hitann og þungann

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fór vítt yfir sviðið þegar hann ávarpaði ráðstefnuna í dag. Hann sagði að við ákvörðun um aukinn stuðning  við sveitarstjórnirnar í landinu hafi verið stuðst við úttekt sem lokið var við síðsumars og sýndi fram á að samanlögð áhrif COVID faraldursins á sveitarfélögin í landinu næmu rúmlega 33 milljörðum króna í ár eða rúmlega 91 þúsund krónum á hvern íbúa. Hann sagði að í raun hefði ríkissjóður tekið að sér að bera hitann og þungann af öllum mótvægisaðgerðum vegna faraldursins og því verði áhrifin á fjárhag ríkissjóðs mikil. Stöðu sveitarfélaganna sagði hann misjafna og að það hlyti að vera leiðarljós hins opinbera að hjálpa hinum veiku í gegnum erfiðleikana en ekki að setja þá á gjörgæslu sem væru við góða heilsu.