Þetta er ekki búið

Erna Björg Sverrisdóttir aðalhagfræðingur Arionbanka fjallaði um efnahagshorfurnar 2020-2022 í erindi sem hún nefndi „Þetta er ekki búið“. Þar kom fram að samdráttur landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi var talsvert minni en spáð hafði verið eða 9% en bæði spár Seðlabankans í maí og Arionbanka í júní gerðu ráð fyrir 15% samdrætti á öðrum ársfjórðungi.

Þessa þróun sagði Erna Björg að mætti að stórum hluta rekja til kraftmeiri einkaneyslu en búist var við. Nefndi hún að meiri úttekt séreignasparnaðar, hrein ný útlán til heimila, og minna atvinnuleysi vegna hlutabótarleiðar væru meðal þátta sem stutt hefðu við innlenda eftirspurn þá hefði kaupmáttur launa aukist umtalsvert. Hins vegar væru blikur á lofti og efnahagsbati brothættur.

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arionbanka. (Ljósm: Ingibjörg Hinriksdóttir)

Uppfærð spá Arionbanka miðað við rauntölur á öðrum ársfjórðungi í fyrra gerir ráð fyrir að samdráttur í landsframleiðslu verði um 7 prósent á þessu ári en strax á næsta ári verði landsframleiðsla orðin jákvæð um 3,2% og verði jákvæð um 3,7% árið 2022.

Erna telur frekari veikingu krónunnar líklega nema að til komi stefnubreyting frá Seðlabankanum og spáir því að verðbólga haldi áfram að aukast út þetta ár og geti náð 4% en hjaðni síðan hratt á næsta ári.  Hún segir hins vegar talsverða óvissu um húsnæðisverðið sem hefur hækkað um 5% að nafnverði á þessu ári þvert á spár sem gera ráð fyrir að húsnæðisverð fari lækkandi á næsta ári en byrji aftur að hækka 2022.

Erna Björg sagði ferðaþjónustuna hafa mest að segja um útflutningssamdrátt ársins og hratt stígandi atvinnuleysi enda stærsta útflutningsgrein landsins og verulega vinnuaflsfrek. Spá Arionbanka gerir ráð fyrir að erlendir gestir sem fóru um Keflavíkurflugvöll og sem voru 2 milljónir í fyrra fari úr 500 þúsund í ár í tæpa eina milljón á næsta ári og í 1400 þúsund árið 2022. Þeir sem verða fyrir atvinnumissi eru þeir sem finna fyrst og fremst fyrir þessu höggi. Aðrir sem halda vinnu hafa það flestir nokkuð gott, sagði Erna Björg.

Samkvæmt spá Arionbanka verður afgangur af viðskiptum við útlönd á þessu ári og er reiknað með að vegna ferðatakmarkana og sóttvarnaraðgerða muni hluti þeirra fjármuna sem Íslendingar eyddu áður í ferðalög erlendis halda áfram að leita í innlenda neyslu. Þar sem útlit er fyrir að innflutningur dragist verulega saman í ár heldur viðskiptaafgangurinn líklega velli þó hann minnki milli ára. Hefðbundin utanríkisverslun gæti hins vegar orðið neikvæð.

Tvískiptur lánamarkaður

Vaxtalækkanir Seðlabankans virðast hafa skilað sér nokkuð vel til heimilanna ef marka má nýjar útlánatölur bankanna. Þannig hafa heimilin sótt í óverðtryggða breytilega vexti og náðu útlán bankakerfisins til heimila nýjum hæðum í júlí sl. Útlán banka til fyrirtækja drógust hins vegar saman á sama tíma.

Erna Björg sagði það mjög sérstakt og sýna hvað hagkerfið hefur breyst mikið að húsnæðisverð skuli vera að hækka þrátt fyrir þær efnahagsþrengingar sem við erum að ganga í gegnum.