Samkomulag við ríkið um aukin framlög

Í setningarávarpi Aldísar Hafsteinsdóttur formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga við upphaf Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í dag kom fram að sambandið hefur náð samningi við ríkið um aukin fjárstuðning við sveitarfélögin í landinu vegna áhrifa COVID-19 ástandsins á fjárhag sveitarfélaganna.

Fjármálaráðstefnan var haldin við óvenjulegar aðstæður að þessu sinni,  því vegna Covid ástandsins fór hún fram á netinu.

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, flytur hér setningarávarp sitt á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2020. (Ljósm.: Ingibjörg Hinriksdóttir)

Aldís sagði að fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga hefðu að undanförnu unnið að samkomulagi við ríkisstjórnina í tengslum við fjármálaáætlun ríkisins.  Af hálfu sambandsins hafi verið lögð áhersla á að ríkið styðji sveitarfélögin bæði með almennum og sértækum hætti, vegna mikils tekjufalls og útgjaldaauka sem COVID-19 hefur leitt af sér í starfsemi sveitarfélaga.

„Ég mun seint segja að að þessi vinna hafi verið einföld eða auðveld.  Það þurfti marga fundi og mörg símtöl áður en við náðum niðurstöðu sem allir gátu fellt sig við.  Fellt sig við … er kannski einmitt rétta orðalagið.  Auðvitað voru ekki allir sælir,“ sagði Aldís. 

Lengra varð ekki komist

Hún sagði að fulltrúar Sambandsins hefðu gjarnan viljað fá meiri og stærri framlög frá ríkinu en þau hefðu metið það svo að lengra yrði ekki komist og að þær yfirlýsingar sem gefnar voru af hendi ríkisstjórnar hafi verið nægilega mikils virði til að samkomulagið tókst.  Hún sagði að þeir fjármunir sem samið hefði verið um myndu bæta að nokkru starfsumhverfi sveitarfélaganna en einnig væri mikilvægt að muna að margar þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefði gripið til svo sem hlutabótaleiðin, tekjutengdar atvinnuleysisbætur, Allir vinna verkefnið og nú síðast lækkun tryggingagjaldsins muni allar bæta rekstrarumhverfi sveitarfélaganna. 

Hún sagði að samþykkt hafi verið að vinna sameiginlega að ýmsum mikilvægum verkefnum og nefndi sem dæmi viðræður um tekjustofna sveitarfélaga, um endurskoðun á jöfnunarkerfinu, greiningu á rekstri hjúkrunarheimila og tillögur um úrbætur þar á. Þá hefði verið samþykkt að gerð verði samantekt um kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk og sérstakt mat lagt á kostnaðaráhrif laga- og reglugerðarbreytinga og stjórnvaldsfyrirmæla í þessum málaflokki undanfarin ár. Að fengnum þessum niðurstöðum verði teknar upp viðræður um hvernig bregðast megi við þessari þróun og hvernig best verði staðið að fjármögnun þessa mikilvæga málaflokks.

Vilji til að afla frekari fjárheimilda

Aldís sagði að samhliða samkomulaginu hefði ríkisstjórnin lagt fram yfirlýsingu þar sem forsætisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fjármála- og efnahagsmálaráðherra lýstu yfir vilja til að afla fjárheimilda á Alþingi fyrir fjölda aðgerða sem miða að því að veita sveitarfélögunum fjárhagslega viðspyrnu og til að verja lögbundna grunnþjónustu. Þá hefði ríkisstjórnin lýst því yfir að áfram verði fylgst með þróun í fjármálum sveitarfélaga í góðri samvinnu við þau og hún myndi standa að baki sveitarfélögum eins og frekast er unnt svo starfsemi þeirra raskist ekki um of á komandi mánuðum og misserum.

Aldís gerði einnig grein fyrir bókun sem stjórn sambandsins gerði um viljayfirlýsingu ráðherranna en þar segir meðal annars að sá stuðningur sem ríkisstjórnin hafi kynnt sé að mestu sértækur og muni nýtast í tilteknum málaflokkum en sé fjarri því að leysa þann vanda sem flest sveitarfélög standi frammi fyrir. Sú staða sem komin sé upp í fjármálum sveitarfélaganna krefjist endurmats á forsendum útgjalda og tekjuöflunar vegna þeirra auknu skuldsetningar sem framundan er en hætta sé á að draga þurfi úr þjónustu á vegum þeirra.

Aldís sagði það tilfinningu sína að sú vinna sem hér átti sér stað hafi treyst samstarfið við ríkið þannig að í framtíðinni muni ríkja enn betri skilningur en áður á málefnum sveitarfélaga.

Skatturinn treystir ekki sveitarfélögunum

Hún gerði sérstaka athugasemd við sveitarfélögunum skuli meinaður aðgangur að upplýsingum frá Skattinum um launagreriðslur í einstökum sveitarfélögum og greiningu á þeim. Sagði hún að Skatturinn hefði einhliða ákveðið einhliða að útsvarsálagning feli í sér viðkvæmar persónuupplýsingar sem sveitarstjórnum sé ekki treystandi fyrir. Hún undraðist þetta og sagði harla ólíklegt að skattskil verði betri hjá landanum þegar ekki fáist aðgangur að upplýsingum um skil hvers einstaklings.  Betri skattskil ættu að vera kappsmál bæði fyrir ríki og sveitarfélög og reyndar alla landsmenn því með því myndu byrðar af kostnaði við rekstur þjónustu dreifast réttlátar en er í dag.