Ríkissjóður ber hitann og þungann af öllum mótvægisaðgerðum vegna COVID 19

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fór vítt yfir sviðið þegar hann ávarpaði fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í dag. Stefnumótun fyrir sveitarstjórnarstigið, samgönguáætlun, fjarskiptainnviðir, loftbrú og endurskoðun byggðaáætlunar voru allt málaflokkar sem ráðherra fjallaði um, en eðli málsins samkvæmt voru fjármálin í brennidepli.

Fyrr í morgun voru þátttakendur ráðstefnunnar upplýstir um yfirlýsingu ríkisstjórnar frá í gær um aukin stuðning við sveitarstjórnirnar vegna COVID en hún var gefin út í tengslum við undirritun samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál. Sigurður Ingi fór yfir forsendur þeirrar ákvörðunar að auka framlög ríkissjóðs til sveitarfélaganna um samtal 3.305 milljónir króna auk heimildar til 1500 milljóna króna láns úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Sagði hann að niðurstaðan byggði á skýrslu starfshóps sem falið var að greina áhrif COVID faraldursins á fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna en henni var skilað í ágúst.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Misjöfn staða sveitarfélaga

Ráðherra sagði að mikilvægt hefði verið að fá heildstæða greiningu á fjárhagslegri stöðu einstakra sveitarfélaga sem hægt væri að byggja tillögugerð og ákvarðanatöku á. Ljóst væri að staða þeirra væri misjöfn og því brýnt að fá fram eins raunsanna mynd og unnt væri. Hann sagði skýrslu starfshópsins draga vel fram áætluð áhrif efnahagsþróunarinnar í kjölfar Covid-19 á fjármál sveitarfélaga og skapa traustan grundvöll fyrir frekari umræður um fjárhagsleg málefni sveitarfélaganna. Ráðherra vísaði til þess sem fram kemur í skýrslunni að samanlögð rekstrarniðurstaða sveitarfélaganna allra verði 26,6 milljörðum lakari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlunum ársins 2020 og að búast megi við að auknar fjárfestingar sveitarfélaga nemi rúmlega 6,5 milljörðum króna. Samanlagt væru áhrifin í ár því rúmlega 33 milljarðar króna eða rúmlega 91 þúsund krónur á hvern íbúa. Því stefni í að sveitarfélögin verði fyrir töluverðum áhrifum en þetta eru um 9% af heildarútgjöldum þeirra miðað við árið 2019 eða um 1,1% af vergri landsframleiðslu.  Ráðherra sagði að veltufé frá rekstri benti hins vegar til þess að meirihluti sveitarfélaganna væri þrátt fyrir áföll ársins enn með jákvætt veltufé sem væri vísbending um að grunnþjónustan væri varin þó erfiðara kunni að verða með afborganir langtímalána.

Jákvætt samstarf

Ráðherra sagði að allt frá fyrstu dögum faraldursins hefðu stjórnvöld átt í nánu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga um aðkomu þeirra og allan viðbúnað.  Samstarfið hafi m.a. falist í að hvetja sveitarfélögin til að grípa til sambærilegra aðgerða og ríkið varðandi frestun gjalda, lækkun eða niðurfellingu þeirra eftir atvikum, auknar fjárfestingar og viðhaldsframkvæmdir. Margt jákvætt hafi komið út úr því og til dæmis hafi sambandið skorað á sveitarfélögin að hrinda í framkvæmd hugmyndum og ábendingum þess um aðgerðir til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf.

Sendum ekki á gjörgæslu þá sem eru við góða heilsu

Hann sagði að stjórnvöld hefðu líka fengið sendar margvíslegar ályktanir og kröfur um beinan fjárhagslegan og almennan stuðning ríkisins við sveitarfélögin. Sumt hafi verið málefnalegt en annað síður. „Mín afstaða er sú að það hlýtur að vera leiðarljós hjá hinu opinbera að hjálpa hinum veiku í gegnum erfiðleikana en ekki setja þá á gjörgæslu sem eru við góða heilsu,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann bætti því við að í raun hefði ríkissjóður tekið að sér að bera hitann og þungann af öllum mótvægisaðgerðum vegna faraldursins og því verði áhrifin á fjárhag ríkissjóðs mikil. Ráðherra sagði að ríkisstjórnin myndi standa að baki sveitarfélögunum eins og frekast er unnt svo að starfsemi þeirra raskist ekki og að líta beri á yfirlýsingu stjórnarinnar sem mikilvægt skref á þeirri vegferð.

Frumvarp um lágmarksíbúafjölda kynnt í ríkisstjórn

Í máli ráðherra kom jafnframt fram að hann telur að forsenda fyrir raunverulegum umbótum á sveitarstjórnarstigi felist í tillögu um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. Upplýsti hann að frumvarp sem innleiðir vilja Alþingis, ríkisstjórnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga í þessu efni sé nú tilbúið í ráðuneytinu og verði kynnt í ríkisstjórn innan fárra daga. Verði það að lögum felur það í sér að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verður 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022, en 1.000 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2026. Áætlað er að heildarávinningur af aðgerðinni geti numið á bilinu 3,5 til 5 milljarðar króna, sem eru fjármunir sem ráðherra segir um muni nýtast til að bæta þjónustu við íbúa, lækka skuldir eða byggja upp trausta innviði.