Í ræðu sinni á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í morgun sagði Karl Björnsson framkvæmdastjóri sambandsins að allar spár bæði ríkis og sveitarfélaga sem gerðar voru í upphafi ársins hafi raskast verulega vegna áhrifa af COVID 19 faraldrinum.
Þannig væri áætlað að afkoma ríkissjóðs verði 259 milljörðum króna verri en gert var ráð fyrir í fjárlögum og að talið sé að hallinn á ríkissjóði 2021 verði 264 milljarðar króna.
Karl sagði að greining á fjárhagslegum áhrifum Covid á sveitarfélögin sýni að það stefni í 33,2 milljörðum króna lakari afkomu sveitarfélaganna á árinu 2020. Þessu verður að hans sögn mætt með nýjum lántökum upp á 22,7 milljarða króna auk þess sem gengið verður á handbært fé sem nemur 10,5 milljörðum króna. Hann sagði að lánsfjárþörf sveitarfélaganna í ár og á næsta ári verði um það bil 50 milljörðum króna meiri an fjárhagsáætlanir gerðu ráð fyrir. Hann sagði að þessar tölur yrðu uppfærðar reglulega.
Aukin stuðningur ríkisins
Karl sagði stjórn sambandsins hafa sett fram ákveðnar kröfur um aukin almennan stuðning ríkisins við sveitarfélögin í þessari stöðu auk sértæks stuðnings ss vegna þjónustu við fatlað fólk og við þá allra verst settu. Í framhaldinu greindi hann frá nýrri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aukin fjárhagslegan stuðning ríkisins við sveitarfélögin. Alls hækka framlögin um rúma 3,3 milljarða króna til viðbótar 1500 milljóna króna láni úr Fasteignasjóði sem áður hefur verið greint frá og sem nýtt verður í ár og á næsta ári til að vega upp á móti lækkun almennra tekju- og útgjaldajöfnunarframlaga sjóðsins. Hækkun framlaga til einstakra málaflokka er sem hér segir:
- Málefni fatlaðs fólks: 670 m.kr.
- Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga: 720 m.kr.
- Sveitarfélög sem standa höllum fæti: 500 m.kr.
- Stefnumörkun um eflingu sveitarfélaga: 935 m.kr.
- Tímabundin lækkun tryggingagjalds: 480 m.kr.
Þá gat Karl þess að endurgreiðsla VSK muni skila sveitarfélögunum tveimur milljörðum króna á þessu og næsta ári.
Karl sagði að viðspyrnuáætlun sambandsins frá 19. mars 2020 hefði að stórum hluta náð fram að ganga en í henni voru sett fram 26 áherslumál sambandsins. Sem dæmi um verkefni sem náðst hefðu fram nefndi hann að fjármálareglur sveitarstjórnarlaga hafi verið felldar tímabundið úr gildi sem gerir þeim kleift að fjármagna halla með lántökum. Sveitarfélögin fá nú endurgreiddan vsk af vinnu á byggingarstað. Fengist hafi fjárstuðningur til fráveituframkvæmda og ekki hafi verið lagðir á nýir skattar. Sagði Karl að sveitarfélögin hafi staðið vörð um störf á þeirra vegum.
Karl vísaði til samkomulags sem gert var á grundvelli laga um opinber fjármál og benti á að í 20 ár á 25 ára tímabili frá 1998-2022 hafi sveitarfélögin í landinu verið rekin og verði rekin með halla og velti upp þeirri spurningu hvort sveitarstjórnarstigið væri fjárhagslega sjálfbært. Þetta þurfi að vinna með í framtíðar samskiptum við ríkið en þar bíði mörg knýjandi mál úrlausnar.