Lýðræði í sveitarfélögum

Haustþing sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins 2019

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins, kemur saman tvisvar á ári að vori og hausti. Yfirskrift haustþingsins 2019 var „Bæjarstjórar standa vörð um lýðræðið“. Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi og Bjarni Jónsson fulltrúi í sveitarstjórn Skagafjarðar tóku þátt í haustþinginu, ásamt æskulýðsfulltrúanum Lilju Hrund Lúðvíksdóttur, varabæjarfulltrúa í Garðabæ, og Önnu G. Björnsdóttur ritara íslensku sendinefndarinnar. Á þinginu voru samþykktar uppfærðar leiðbeiningar um þátttöku íbúa í ákvörðunartökuferlum, sem eiga fullt erindi við íslensk sveitarfélög.

Tilefni er líka til að vekja athygli á umræðum um tvö efni, sem þingið á án efa eftir fjalla nánar um á næstu þingum, þar sem þau brenna á evrópskum sveitarfélögum, þ.e. um sífellt meira krefjandi starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og snjallborgatækifæri og -áskoranir. Þá voru á þinginu afgreiddar hefðbundnar skýrslur um framkvæmd kosninga í aðildarríkjum og stöðu sveitarstjórnarstigsins í þeim gagnvart Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Þar bar hæst skýrslu um umdeildar sveitarstjórnarkosningar í Tyrklandi og skýrslu um stöðu sveitarstjórnarstigsins í Rússlandi. Nánari upplýsingar í minnisblaði ritara og á heimasíðu þingsins.  

Norrænt um lýðræði og stjórnunarmál sveitarfélaga 2019

Tengiliðahópur norrænu sveitarfélagasambandanna um lýðræði og stjórnun hittist árlega til skiptist í löndunum til að ræða það sem efst er á baugi í lýðræðis- og stjórnunarmálum í löndunum. Þetta eru mjög gagnlegir fundir og sambandið hefur í gegnum árin fengið ómetanlegar upplýsingar og tengiliði í gegnum þá, t.d. um íbúalýðræðismál, nám fyrir kjörna fulltrúa og margt fleira.

2019 fundurinn var haldinn í Drammen, Noregi 15.-16. maí sl. Drammen var valið sem fundarstaður þar sem sveitarfélagið hefur fengið margar alþjóðlegar viðurkenningar fyrir endurreisnarstarf sitt en því tókst á nokkrum árum að breyta Drammen úr mengaðri iðnaðarborg í borg sem býður íbúum sínum upp á aðlaðandi og umhverfisvænt umhverfi þar sem áður stóðu mengandi pappírsverksmiðjur. Í samantekt um fundinn er nánari kynning á því endurreisnastarfi, svo og hvernig unnið er að sameiningu Drammen við tvö nágrannasveitarfélög í samræmi við sameiningarátak norsku ríkisstjórnarinnar. Á fundinum var fjallað um stöðu staðbundins lýðræðis í löndunum, kynnt var á ný samanburðarskýrsla á sjáfsforræði norræna sveitarfélaga, fjallað var um kosningaþátttöku og – herferðir til að fá fleiri til að kjósa, árangursmælitæki fyrir sveitarfélög og umbótaverkefni á sveitarstjórnarstigi sem unnið hefur verið að í öllum norrænu ríkjunum, nema Íslandi á undanförnu árum.

Málþing um íbúasamráð og þátttöku íbúa – lykilþættir og reynsla

Samband íslenskra sveitarfélaga stóð fyrir málþingi í samvinnu við Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins[1] og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Markmið þess var að miðla þekkingu og reynslu til sveitarfélaga um hvernig sé hægt að stunda markvisst og árangursríkt íbúasamráð og virkja íbúa til jákvæðrar þátttöku. Jafnframt hafði sambandið væntingar um að málþingið gæti orðið grundvöllur að því að til yrði samráðsvettvangur sveitarfélaga um þessi málefni.

Evrópska lýðræðisvikan 10 ára

Á vorfundi Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins 2017 fögnuðu þingfulltrúar tíu ára afmæli Evrópsku lýðræðisvikunnar (ELDW) sem hleypt var af stokkunum til að hvetja sveitarfélög til að standa fyrir íbúalýðræðisviðburðum í þeirri viku í október sem Sveitarstjórnarsáttmálinn tók gildi. Yfir þúsund bæir, borgir og svæði hafa tekið þátt í verkefninu og skipulagt fjölbreyttar aðgerðir.

GunnarAxelGunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og einn þriggja fulltrúa í íslensku sendinefndinni ávarpaði þingið og sagði frá þróun íbúalýðræðis hjá íslenskum sveitarfélögum frá efnahagshruninu 2008 og verkefnum sem íslensk sveitarfélög og sambandið hafa unnið að á þessu sviði síðustu ár, m.a. handbók um íbúalýðræði fyrir sveitarfélög sem verður væntanlega gefið út í haust í tengslum við málþing fyrir sveitarfélög um íbúalýðræði. Á málþinginu er einnig ætlunin að kynna Evrópsku lýðræðisvikunni í samstarfi við Sveitarstjórnarþingið.


Námsferð fyrir sveitarstjórnarmenn í ágúst 2016

Sambandið stóð, með aðstoð sænska sveitarfélagasambandsins, fyrir hópferð sveitarstjórnarmanna til Svíþjóðar í lok ágúst 2016 til að kynna sér íbúasamráð í sænskum sveitarfélögum.  Sænska sambandið hefur undanfarin ár, á grundvelli stefnumótandi áherslu landsþings þess, unnið að því að aðstoða sænsk sveitarfélög við að byggja upp kunnáttu og reynslu í íbúasamráði. Áherslan er á að samþætta íbúasamráð inn í ákvörðunarferla og á aðferðarfræði til að ná til rétts hóps íbúa út frá þeim álitaefnum sem eru til umfjöllunar hverju sinni.  Þrjú sveitarfélög af mismunandi stærð voru heimsótt og hópurinn fékk heils dags kynningu hjá sérfræðingum sænska sveitarfélagasambandsins í Stokkhólmi.  Var mikil ánægja með ferðina og hér er skýrsla þar sem er gerð grein fyrir þeim kynningum sem hópurinn fékk.


Norrænt um lýðræði og stjórnun frá 2012

Árlega halda starfsmenn norrænu sveitarfélagasambandanna, sem sinna verkefnum um lýðræði og stjórnun, samráðsfund til skiptis í hinum norrænu ríkjum. Á fundinum, sem að þessu sinni var haldinn á Álandseyjum í júní 2012, kom margt fram sem áhugavert er fyrir íslenska sveitarstjórnarmenn og starfsmenn sveitarfélaga, m.a. hvernig Finnar eru að vinna að sameiningum sveitarfélaga, hvað samböndin eru að gera til að efla íbúalýðræði, um endurskoðun sveitarstjórnarlaga, hvernig áhersla er á að fólk geti valið þjónustuveitendur innan velferðarþjónustunnar, hversu mismunandi þjónustan geti verið á milli sveitarfélaga, nýjar stjórnunaraðferðir til að ná meiri hagræðingu og árangri, nám fyrir kjörna og ráðna stjórnendur sveitarfélaga o.fl. Hér að neðan má finna samantekt sviðsstjóra þróunar- og alþjóðasviðs eftir fundinn.

  1. Hvernig er unnið að íbúalýðræði í norrænum grannríkjum

  2. Breytingar á sveitarfélagaskipaninni í norrænum grannríkjum

  3. Nýmæli í stjórnun sveitarfélaga í norrænum grannríkjum, þróunarverkefni og námstilboð


Námskeið um lýðræði í sveitarfélögum frá 2010

Samband íslenskra sveitarfélaga stóð fyrir námskeiði um lýðræði í sveitarfélögum 6. september 2010. Leiðbeinendur voru tveir danskir sérfræðingar sem hafa mikla reynslu af ráðgjöf í lýðræðismálum fyrir dönsk sveitarfélög. Þau eru Søren Frilander ráðgjafi hjá danska sveitarfélagasambandinu, KL,  og Anne Torzen, blaðamaður og ráðgjafi en hún stýrir einnig Miðstöð um íbúasamráð, sjá www.centerforborgerdialog.dk.

Í Danmörku hefur lýðræði á sveitarstjórnarstigi verið í brennidepli eftir veigamiklar breytingar á sveitarstjórnarstiginu, sem fólu í sér sameiningar sveitarfélaga og flutning verkefna til þeirra.  KL hleypti í kjörfarið af stað lýðræðisverkefni sem beinist af því að uppfræða sveitarfélög um lýðræðismál og skapa umræður og farvega fyrir nýsköpun í lýðræðismálum.

Á námskeiðinu var sjónum beint að þróun lýðræðisins með sérstakri áherslu á íbúalýðræði. Farið var yfir ávinninga, hvað beri að varast og hvaða leiðir komi til greina. Sagt var frá reynsludæmum frá Danmörku.

Á námskeiðinu kynnti Garðabær lýðræðisstefnu sína en það er eina íslenska sveitarfélagið sem vitað er til að hafi samþykkt slíka stefnu.

Námskeiðið var í tvennu lagi. Annars vegar fyrir embættismenn og hins vegar fyrir pólítíska fulltrúa. Mikil ánægja var með námskeiðið og finna má hljóðupptökur, í tvennu lagi, af fyrirlestrunum og p.p.kynningar.  Allt þetta efni ásamt ýmsum tenglum um lýðræðismál má nálgast á síðu námskeiðsins.


Málþing um lýðræði í sveitarfélögum haustið 2009

Lýðræðishópur sambandsins stóð í samvinnu við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ, fyrir málþingi um lýðræðismál í sveitarfélögum þann 19. ágúst 2009 sem ætlað var að vera inngangur og grunnur að umræðum um lýðræðismál í sveitarfélögum.

Erindi frá málþinginu:

  • Dagur B. Eggertsson kynnir hugmyndir og tillögur lýðræðishóps sambandsins, m.a. um siðareglur á sveitarstjórnarstigi og miðlæga siðanefnd.
  • Gunnar Helgi Kristinsson prófessor fjallar um það áfall sem fulltrúalýðræðið varð fyrir í efnahagshruninu, hlutverk sveitarfélaga í að endurbyggja traust á lýðræðiskerfinu og mismunandi leiðir til að styrkja lýðræðið í sveitarfélögum.
  • Magnús Karel Hannesson, sviðsstjóri rekstrar- og útgáfusviðs sambandsins, kynnir markmið og áhrif tillagna um persónukosningar til sveitarstjórna í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna sem lagt hefur verið fram á Alþingi.
  • Samantekt um tillögur um persónukosningar til sveitarstjóra, siðareglur og siðanefnd sveitarfélaga.
  • Minnisblað Gunnars Helga Kristinssonar prófessors um lýðræðismál.


Evrópsk lýðræðisvika

Evrópuráðið hvetur sveitarfélög í aðildarríkjum sínum til skipuleggja lýðræðisviku í kringum 15. okt. en þann dag árið 1985 var Evrópusáttmáli um sjálfstjórn sveitarfélaga opnaður til undirritunar. Markmiðið með slíkri lýðræðisviku er að auka vitund íbúa og annarra um mikilvægi  hins staðbundna lýðræðis í sveitarfélögum og þátttöku íbúa í því. Á heimasíðu átaksins er upplýsingar og hugmyndir um skipulag viðburða. Það gæti verið áhugavert fyrir íslensk sveitarfélög að nýta þessa umgjörð Evrópuráðsins fyrir samræður við íbúa um lýðræðismál í ljósi aðstæðna á Íslandi í dag.