Alls bárust umsóknir frá 10 sveitarfélögum vegna íbúasamráðsverkefnis sem Samband íslenskra sveitarfélaga stendur að í samstarfi við Akureyrarbæ. Leitað var að þremur áhugasömum sveitarfélögum um þátttöku og kom því í hlut samráðshóps verkefnisins að velja þau úr hópi umsækjenda.
Alls bárust umsóknir frá 10 sveitarfélögum vegna íbúasamráðsverkefnis sem Samband íslenskra sveitarfélaga stendur að í samstarfi við Akureyrarbæ.
Leitað var að þremur áhugasömum sveitarfélögum um þátttöku og kom því í hlut samráðshóps verkefnisins að velja þau úr hópi umsækjenda.
Markmið verkefnisins er að afla reynslu af íbúasamráði sem nýst geti öðrum sveitarfélögum.
Við valið hafði samráðshópurinn til hliðsjónar fjölbreytni þátttöku sveitarfélaga hvað varðar stærð og gerð, ásamt forsendum hvers til að framkvæma verkefnið og mögulegra samráðsefna.
Samráðshópurinn, sem er skipaður þeim Önnu G. Björnsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Evu Marín Hlynsdóttur frá Háskóla Íslands, Grétari Þór Eyþórssyni frá Háskólanum á Akureyri, Sóleyju Björk Stefánsdóttur frá Akureyrarkaupstað og Stefaníu Traustadóttur frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, hefur nú lokið við að meta þær umsóknir sem bárust og komst að þeirri samhljóða niðurstöðu að velja eftirtalin sveitarfélög til þátttöku:
- Kópavogsbær
- Norðurþing
- Stykkishólmsbær
Í niðurstöðum hópsins segir m.a. að þessi sveitarfélög séu fjölbreytt að stærð og gerð. Þá feli umsóknir þeirra í sér vel ígrundaðar hugmyndir um samráðsefni og þátttöku og hafi góða tengingu við handbók sambandsins um íbúasamráð sem verkefnið mun byggjast á.
Auglýst var eftir þátttökusveitarfélögum með bréfi dags. 28. febrúar sl. Með bréfinu fylgdi umsóknarform þar sem sveitarfélögin voru beðin um að gera grein fyrir hugmyndum sínum um samráðsefni og rökstyðja umsókn sína.