Danska fræðikonan og ráðgjafinn Anne Tortzen gaf nýlega út bók um nýsköpun í lýðræðismálum,
"Fornyelse af demokratiet". Tilefnið eru áskoranir í lýðræðismálum, uppgangur popúlismahreyfinga, veikari staða stjórnmálaflokka og óvirkir en líka óánægðir íbúar. Hún skoðaði fjórar borgir sem hafa gert tilraunir með nýsköpun í íbúaþátttöku, þ. á m. Reykjavík og Barcelona, sem gengu í gegnum svipaða lýðræðiskrísu eftir efnahagshrunið fyrir 10 árum síðan. Barcelona hefur reyndar gengið enn lengra í lýðræðisnýsköpun en Reykjavík. Hinar tvær borgirnar eru Amsterdam og Glasgow. Hér er tengill á viðtal við hana um bókina
Þar sem það er auðveldara fyrir marga að lesa dönsku en skilja talað mál þá er hér líka tengill á hvernig Anne Tortzen kynnir nýju bókina sína skriflega og fer yfir hvað einkennir lýðræðistilraunirnar í borgunum fjórum, m.a. að áherslan í Reykjavík hafi verið á rafræna þátttöku. Hún dregur fram þann veikleika að lýðræðistilraunir hafa mikið falist í einstökum uppákomum en þróunin hafi sýnt fram á mátt íbúa þegar þeim er nóg boðið og þeir taka til sinna ráða. Tækifærin liggja í því að gefa þeim svigrúm til athafna og sköpunar.
Anne er okkur að góðu kunn því sambandið hefur tvisvar fengið hana til að halda námskeið um íbúaþátttöku, síðast sumarið 2019 um samsköpun (cocreation) sem nýja leið til að þróa velferðarþjónustu með þátttöku íbúa og notenda, sjá hér á vef sambandsins.
Anne rekur Miðstöð um íbúasamráð og gefur reglulega út fréttabréf sem hægt er að gerast áskrifandi að, https://centerforborgerdialog.dk/. Það eru sveitarfélögin sem hún beinir sínum augum að og hún hefur gefið út nokkrar bækur um íbúaþátttöku, auk þessarar nýju bókar.