Fulltrúar í ungmennaráðum skulu vera yngri en 18 ára

Samkvæmt 11. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007, skulu sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð, en markmiðið er að gefa ungmennum kost á því að vera virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi.

Umboðsmaður barna hefur sent Sambandi íslenskra sveitarfélaga bréf þar sem áréttað er að fulltrúar í ungmennaráðum sveitarfélaga skuli vera undir 18 ára að aldri þannig að tryggt sé að sjónarmið barna fái vægi í töku ákvarðana og mótun stefnu í málefnum sem varða þau.

Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Þá ber sveitarstjórnum að setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 70/2007 er fjallað um mikilvægi aðkomu ungmenna að ákvarðanatöku og að hvetja eigi ungmenni til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Segir þar jafnframt að með þátttöku í ungmennaráðum hafa ungmenni möguleika á því að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri við kjörna fulltrúa sveitarfélaga. Þó svo að ekki séu sett fram aldursviðmið fyrir ungmennaráð í æskulýðslögum kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að meðal starfandi ungmennaráða sé oft miðað við aldurshópinn 13-17 ára enda séu átján ára ungmenni komin með kosningarétt og geta þá með atkvæði sínu haft áhrif á val kjörinna fulltrúa.

Hugtakið ungmenni er skilgreint með mismunandi hætti í æskulýðsstarfi og eru dæmi um að efri aldursmörk ungmennasamtaka séu jafnvel 35 ár. Hins vegar ber til þess að líta að samkvæmt 1. gr. Barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, eru það eingöngu einstaklingar sem ekki hafa náð átján ára aldri sem skilgreina á sem börn. Markmiðið með starfi ungmennaráða sveitarfélaga, er að gefa börnum sem ekki hafa kosningarétt og geta ekki gefið kost á sér til framboðs í sveitarstjórnarkosningum, tækifæri til þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku í eigin nærsamfélagi og þar með eigið líf, umhverfi og framtíð.

Samkvæmt nýlegri rannsókn eru 44 af 51 ungmennaráðum í sveitarfélögum landsins skipuð, að hluta til eða jafnvel að öllu leyti, ungu fólki sem er orðið 18 ára[1]. Að mati umboðsmanns barna er mikilvægt að ungmenni og ungt fólk eigi með sér samtal og samvinnu á vettvangi félagsstarfs enda ljóst að í mörgum tilvikum fara hagsmunir þeirra saman. Um ungmennaráð sveitarfélaga gilda þó önnur lögmál enda er tilgangur þeirra fyrst og fremst að tryggja áhrif ungmenna sem ekki hafa kosningarétt. Þá er ljóst að í ungmennaráðum með breiðri aldurssamsetningu er ákveðin hætta á því að hagsmunir yngri hópsins fái minna vægi enda getur það reynst börnum erfitt að láta til sín taka í félagsstarfi með fullorðnu fólki þar sem til staðar er augljós aðstöðumunur sem felst í auknum þroska og lífsreynslu þeirra fullorðnu.

Með hliðsjón af framangreindu vill umboðsmaður barna beina þeim tilmælum til sveitarfélaga að líta til markmiðs æskulýðslaga um hlutverk og tilgang ungmennaráða og tryggja að í ungmennaráðum eigi eingöngu sæti fulltrúar ungmenna í sveitarfélaginu undir 18 ára aldri þannig að tryggt sé að sjónarmið barna fái vægi í töku ákvarðana og mótun stefnu í málefnum sem varða þau.


[1] https://skemman.is/handle/1946/35211