Dagvinnufólk

Vinnuvika dagvinnufólks er í dag 40 stundir en heimilt er með sérstöku samkomulagi meirihluta starfsfólks sveitarfélags/stofnunar/vinnustaðar að stytta vinnuvikuna, án launaskerðingar og kostnaðarauka, með því að endurskipuleggja vinnuna þannig að nýta megi tímann betur.

Styttingin getur að hámarki numið 4 stundum á viku, þ.e. farið úr 40 í allt að 36 virkar vinnustundir fyrir starfsfólk í 100% starfshlutfalli. Samhliða því verður grein 3.1 um matar- og kaffitíma í kjarasamningi óvirk. Engu að síður fær starfsfólk styttri hlé til að nærast á vinnutíma eins og við verður komið. Vinnutími starfsmanna í hlutastarfi styttist hlutfallslega. Náist ekki samkomulag um breytt skipulag vinnutíma styttist vinnutími starfsfólks sem nemur 13 mínútum á dag (65 mín. á viku) miðað við 40 stunda vinnuviku án breytinga á matar- og kaffitímum.

Stytting vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki verður útfærð á hverjum vinnustað fyrir sig. Þannig ákveða stjórnendur og starfsfólk með samtali hversu mikið eigi að stytta vinnutíma og með hvaða hætti. Áður en samtalið hefst er mikilvægt að kynna sér fræðsluefni um hvernig megi skipuleggja vinnuna betur þannig að hægt sé að stytta vinnuvikuna.