Málefni innflytjenda og flóttamanna

Samband íslenskra sveitarfélaga sinnir hagsmunagæslu fyrir sveitarfélög gagnvart Alþingi, ráðuneytum og ríkisstofnunum sem fara með málefni innflytjenda og flóttamanna. Það vinnur að sameiginlegum framfaramálum sveitarfélaga í málefnum innflytjenda og flóttamanna, fylgist með þróun þessara mála hjá sveitarfélögum utan Íslands og miðlar upplýsingum til íslenskra sveitarfélaga. Sambandið stendur fyrir samráðsfundum sveitarstjórnarmanna og starfsmanna sveitarfélaga um málefni innflytjenda og flóttamanna. Það hefur sett á laggirnar lokaða fésbókarsíðu fyrir starfsmenn sveitarfélaga sem vinna að innflytjenda- og flóttamannamálum til samráðs og upplýsingamiðlunar.

Tengill á vef félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins um móttöku flóttafólks.

Á tiltölulega stuttum tíma hefur orðið gríðarleg fjölgun á innflytjendum og flóttamönnum sem koma hingað til lands. Þjónusta sveitarfélaga við þessa hópa er þess vegna ennþá í þróun og uppbyggingu. Sambandið hóf starf sitt að málefnum innflytjenda með stefnumótun sem gerð var í víðtæku samstarfi við sveitarfélög og stjórn sambandsins samþykkti í janúar 2009. Hún felur í sér grundvallarleiðsögn um samþættingu á þjónustu við innflytjendur sem á ennþá við

Fyrstu lögin um málefni innflytjenda voru sett með lögum, nr. 116/2012. Markmið laganna er að hagsmunir innflytjenda séu samþættir allri stefnumótun, stjórnsýslu og þjónustu hins opinbera, að stuðla að víðtæku samstarfi og samþættingu á milli allra sem koma að málefnum innflytjenda og efla fræðslu, upplýsingamiðlun, rannsóknir og þróunarverkefni í málefnum innflytjenda.

Samkvæmt lögunum skal ráðherra skipa innflytjendaráð sér til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málefnum innflytjenda og til eftirlits með henni. Sambandið á fulltrúa í innflytjendaráði. Hlutverk ráðsins er einnig að stuðla að samhæfingu og samráði innan stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Innflytjendaráð kemur að gerð framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda sem ráðherra skal gera tillögu um til Alþingis á fjögurra ára fresti. Innflytjendaráð gerir einnig tillögur til ráðherra um árlegar úthlutanir úr þróunarsjóði innflytjenda. Sveitarfélög geta sótt um styrki úr sjóðnum til þróunarverkefni eftir því sem árlegar áherslur sjóðsins kveða á um

Sambandið átti fulltrúa í starfshópi mennta- og menningarmálaráðuneytisins  sem skilaði skýrslu í maí 2020, Drög að stefnu um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála-  og menningarbakgrunn.

Í skýrslunni eru settar fram tillögur og hugmyndir um aðgerðir sem lagt er til að ráðist verði í til úrbóta fyrir þennan hóp barna.

Rammi um þjónustusamning um samræmda móttöku flóttafólks

Á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldin kynningafundur, þann 25. ágúst sl., til að kynna ramma að þjónustusamning um samræmda móttöku flóttafólks.

Markmið samningsins er að samræma móttöku flóttafólks þannig að ríki og sveitarfélög tryggi flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur. Með samræmdu móttökukerfi flóttafólks er stefnt að því markmiði að tryggja flóttafólki nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að það fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, hvort sem það er á vinnumarkaði, vegna menntunar eða á öðrum sviðum. ​Fleiri en eitt sveitarfélag geta unnið saman að gerð þjónustusamnings.

Flóttafólk, líkt og aðrir íbúar sveitarfélaga, eiga rétt á allri grunnþjónustu sveitarfélaga. Markmið þjónustusamningsins er að standa undir þeirri viðbótarþjónustu sem starfsfólk félagsþjónustu veitir  vegna flóttafólks. Sveitarfélög eiga einnig rétt á endurgreiðslu á útlögðum kostnaði samkvæmt 15. gr. félagsþjónustulaga.

Með þjónustusamningnum fylgir ítarleg kröfulýsing þar sem farið er yfir ábyrgð sveitarfélaga er taka þátt í verkefninu um samræmda móttöku flóttafólks. Einnig fylgir með ítarlegt kostnaðarlíkan þar sem áætlaður er tímafjöldi í umrædda þjónustu. Ráðuneytið hefur einnig útbúið mjög gott uppgjörs og yfirlitsblað. Það skjal nýtist sveitarfélögum til að reikna út það fjármagn sem ætla má að sveitarfélagið fái greitt eftir því hversu mörgu flóttafólki það tekur á móti ásamt því að áætla stöðugildi er þarf til að veita umrædda þjónustu. Þó þarf ávallt að hafa í huga að greiðslur munu taka breytingum eftir því hvernig hópurinn er þiggur þjónustu er samsettur, t.d. eftir fjölda einstaklinga, hjóna og barna.

Sambandið hvetur áhugasöm sveitarfélög til að kynna sér þessi skjöl vel. Sveitarfélög geta síðan haft samband við Ástu Margréti Sigurðardóttur (asta.sigurdardottir@frn.is) en hún er tengiliður verkefnisins hjá ráðuneytinu.

Hér má finna ramma að þjónustusamningi, fylgiskjöl hans ásamt upptöku frá kynningafundinum.

Glærur frá kynningafundi

Upptaka frá kynningafundi

Þeim sveitarfélögum fer fjölgandi sem ráða fjölmenningarfulltrúa til að hafa yfirsýn yfir málefni innflytjenda í sveitarfélögum og veita fjölmenningarlegan stuðning þvert á starfsemina. Fjölmenningarsetur stóð fyrir fundi þeirra 3. september sl. til að efla tengsl á milli þeirra og miðla þekkingu og upplýsingum á milli þeirra. Í fundinum tóku þátt fulltrúar frá níu sveitarfélögum af fjölbreyttri gerð og stærð, allt frá Reykjavíkurborgar til Vesturbyggðar.

Fjölmenningarverkefni sveitarfélaganna

 • Akureyrarbær stendur fyrir ýmsum verkefnum í málefnum innflytjenda. Samkvæmt fjölmenningarfulltrúa þeirra eru þau að meginstefnu af þrennum toga: Verkefni sem unnin eru út frá niðurstöðum rannsókna Háskóla Akureyrar, verkefni sem unnin eru skv. tillögum innflytjendaráðs Akureyrarbæjar og að lokum verkefni á grundvelli 17 markmiða sem samþykkt hafa verið í fjölmenningarstefnu bæjarins. Sem dæmi þá er verið að vinna að því að gera heimasíðu bæjarins aðgengilegri fyrir íbúa af erlendum uppruna.
 • Hafnarfjarðarbær hefur að undanförnu lagt á áherslu á að heimasíða bæjarins sé aðgengileg fyrir íbúa af erlendum uppruna og er með virka fésbókarsíðu á ensku.
 • Kópavogsbær hefur lagt áherslu á stuðning við börn af erlendum upprauna, bæði í skólum, frístundum og gagnvart íþróttafélögum, sjá https://fjolmenning.kopavogur.is/. Meðal annars er reynt að tengja saman börn af íslenskum og erlendum uppruna, t.d. þannig að íslensk börn kynni frístundatilboð fyrir þeim erlendu.
 • Norðurþing hefur gefið út bæklinga sem sendir eru á alla íbúa sem flytja í bæjarfélagið erlendis frá. Einnig leitast bæjarfélagið við að tengjast betur íbúum af erlendum uppruna með því að fjölmenningarfulltrúi taki þátt í móttökuviðtölum grunnskóla. Unnið hefur verið að því að tengja þessa íbúa betur við þá viðburði sem haldnir eru á vegum sveitarfélagsins.
 • Reykjanesbær er að vinna að metnaðarfullu verkefni til að bæta þjónustu og upplýsingagjöf til íbúa með sérstakri áherslu á íbúa af erlendum uppruna undir heitinu: Sterk framlína í krafti fjölbreytileikans.
 • Reykjavíkurborg er með ýmis verkefni til að styðja við starfsfólk af erlendum uppruna, s.s. með því að vera með íslenskukennslu á starfsdögum og leyfa fólki að sækja íslenskunám á vinnutíma. Í undirbúningi er bæklingur um réttindi og skyldur starfsmanna á ýmsum tungumálum og jafnlaunastefna sem og að skilgreina mismunandi íslenskukröfur eftir störfum.
 • Sveitarfélagið Hornafjörður Sveitarfélagið í samvinnu við Alþjóðasetur stóð fyrir túlkanámskeiði svo hægt væri að bjóða upp á staðtúlkun á Hornafirði.
  Nýjar verklagsreglur Sveitarfélagsins Hornafjarðar um túlka- og þýðingarþjónustu tilbúnar og samþykktar í apríl 2021.
  Samþykkt bæjarstjórnar fyrir myndun fjölmenningarráðs íbúa af erlendum uppruna sem hefur m.a. það verkefni að vinna að fjölmenningarstefnu í samráði við starfsmann og önnur svið sveitarfélagsins.
  Tungumálakaffi sem haldin hafa verið síðan 2019 í samvinnu við Rauða krossinn og Fræðslunetið.
  Bæklingar með praktískum upplýsingum á ensku og pólsku sem sendir eru á heimiliföng nýrra íbúa af erlendum uppruna í hverjum mánuði. Til viðbótar við bæklinginn var gerð samntekt á félagsstarfi í sveitarfélaginu og er sú samantekt einnig send til nýrra.
  Ýmis samstarfsverkefni verkefnastjóra fjölmenningarmála og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar.
 • Vestmannaeyjabær gerði podcast sem heitir Af hverju Ísland?, en þar eru tekin viðtöl við íbúa af erlendum uppruna. Einnig hefur bærinn staðið fyrir rannsókn á meðal innflytjenda í Vestamannaeyjum, þar sem m.a. er könnuð upplifun þeirra af því að flytja til bæjarins og hvort upplýsingar frá sveitarfélagi séu almennt að skila sér til þeirra.

Kynningar

Á fundinum fengu fjölmenningarfulltrúarnir kynningar frá bæði Fjölmenningarsetri og Ráðgajafarstofu fyrir innflytjendur. Var þar m.a.  kynnt fyrir þeim starfsemi og þjónusta Ráðgjafastofu og verkefni um samræmda móttöku flóttafólks sem Fjölmenningarsetur heldur utanum. Að lokum voru kynntar leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um móttöku nýrra íbúa af erlendum uppruna, sem eru í vinnslu á vegum Fjölmenningarseturs.

Námskeið fyrir starfsmenn sveitarfélaga

Tilefni er líka til að kynna námskeið sem fjölmenningarfulltrúarnir tóku þátt í daginn fyrir fundinn. Námskeiðið heitir Fjölbreytnin auðgar. Samtal um góða þjónustu í samfélagi margbreytileikans og var þróað af Guðrúnu Pétursdóttur fyrir Fjölmenningarsetur, sjá nánar þessa frétt. Er ástæða til að hvetja sveitarfélög til að leita eftir samstarfi við símenntunarmiðstövðar á sínum svæðum um að bjóða upp á þessi námskeið fyrir starfsfólk sitt.

Innflytjendahópur sveitarfélaga

Að lokum er minnt á fésbókarsíðu sambandsins fyrir starfsfólk sveitarfélaga sem starfar að fjölmenningarmálum. Þeir sem hafa áhuga á að gerast meðlimir geta sent póst á anna@samband.is.