Reynsluverkefni um íbúasamráð 2019-2020

Sambandið og Akureyrarbær fengu í lok árs 2018 styrk frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að fara í reynsluverkefni um íbúasamráð. Markmið verkefnisins var að byggja upp þekkingu í sveitarfélögum á því hvernig hægt sé að beita samráðsaðferðum sem kynntar eru í handbók sambandsins um íbúasamráð frá 2017. Til viðbótar við Akureyrarbæ, voru Kópavogsbær, Norðurþing og Stykkishólmsbær valin til þátttöku á grundvelli umsókna. Sveitarfélögin völdu sér samráðsefni og fengu stuðning frá ráðgjöfum Alta og sérfræðingum frá sænska sveitarfélagasambandinu til beita þeim samráðsaðferðum sem lýst er í handbókinni í raunverulegum aðstæðum. Akureyrarbær valdi samráð við börn og ungmenni um breytingu á leiðakerfi Strætó til að auka notkun þeirra og bæta þjónustuna. Kópavogsbær valdi samráð við börn og ungmenni um hvernig þau geti komið meira að málefnum sveitarfélagsins með skírskotun til 12. gr. barnasáttmálans. Stykkishólmsbær valdi samráð um uppbyggingu á leiksvæðum bæjarins og Norðurþing samráð um uppbyggingu á íþróttastarfsemi í sveitarfélaginu.

Haldnar voru þrjár vinnustofur þar sem sænsku sérfræðingarnir, sem hafa komið að hliðstæðum verkefnum með sænskum sveitarfélögum, voru með kynningar og veittu leiðsögn. Á milli vinnustofanna voru sérfræðingar Alta sveitarfélögum til halds og trausts, s.s. varðandi mótun markmiða fyrir samráðið, afmörkun samráðsspurninga, greiningu á hagsmunaaðilum, gerð samráðs- og upplýsingaáætlana, skipulagningu samráðsviðburða og endurgjöf til þátttakenda.

Í megindráttum er mikil ánægja með verkefnið og sveitarfélögin telja sig hafa lært mikið af því. Ef draga á saman lærdóminn í tvö orð þá eru þau að góður undirbúningur og upplýsingamiðlun er lykillinn að árangursríku íbúasamráði.

Hér á síðunni eru ýmsar upplýsingar sem tengjast þessu reynsluverkefni, m.a. lokaskýrslur sveitarfélaganna um samráðsverkefni sín, excelskjal um lærdóma sveitarfélaganna, gátlisti fyrir íbúasamráð sem varð til í verkefninu og skýrsla Gabrielu Mariu Skibinska um framkvæmdina. Hún fylgdist með verkefnunum í mastersnámi sínu opinberri stjórnsýslu, gerði kannanir meðal þátttakenda í gegnum allan ferillinn og skrifaði mastersritgerð um það.