Sú þjónusta sem ríkið hefur veitt fötluðu fólki flutti frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 en heildarsamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk var undirritað þann 23. nóvember 2010. Frá þeim tíma sem sveitarfélög og þjónustusvæði á þeirra vegum yfirtóku þjónustuna hafa þau borið ábyrgð á framkvæmd og fjármögnun þjónustunnar, óháð því hvort hún hefur verið veitt af ríki, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum eða öðrum aðilum, með þeim réttindum og skyldum sem henni tengjast.
Samfara gildistöku laga nr. 38/2018 um þjónustu við fólk með langvarandi stuðningsþarfir annars vegar og hins vegar laga nr. 37/2018 um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga með síðari breytingum, standa sveitarfélög frammi fyrir nýjum áskorunum í þjónustu við fatlað fólk.
Til að auðvelda fólki að glöggva sig á þeim breytingum, sem þessi endurskoðun á lögum hefur í för með sér fyrir sveitarfélög og þjónustunotendur, hafa helstu spurningar og svör verið tekin saman (sjá hér neðar á síðunni). Öll kurl eru þó enn ekki komin til grafar. Einstök svör geta því tekið breytingum og spurningar jafnvel bæst við eftir því sem líður á innleiðingu laganna. Þegar svo ber undir, verða slíkar uppfærslur gerðar notendum síðunnar sýnilegar.
Gefnar hafa verið út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um framkvæmd þjónustunnar sem finna má hér.
Frá því að málaflokkurinn flutti yfir til sveitarfélaga hafa verið gerðar úttektir á stöðu málaflokksins. Fyrst er að nefna skýrslu um heildarskoðun á málefnum fatlaðs fólks og þá skýrslu starfshóps um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga.