Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun var undirritaður af Íslands hálfu í mars 2007. Til þess að samningurinn öðlist lagagildi á Íslandi þarf að innleiða hann samkvæmt því fyrirkomulagi sem almennt gildir um gerð alþjóðlegra mannréttindasamninga.

Næstu skref í innleiðingu samningsins hér á landi eru tvö: Annars vegar er fullgilding samningsins af Íslands hálfu, sem fram fer með því að Alþingi samþykkir með þingsályktun að veita ríkisstjórninni heimild til fullgildingar. Hins vegar er nauðsynleg aðlögun á íslenskri löggjöf sem samningurinn kallar á, en eitt af því sem felst í aðild að honum er að íslenska ríkið skuldbindur sig til þess að haga löggjöf sinni í samræmi við meginreglur samningsins.

Sérstaða samningsins

Sé efni samningsins skoðað með hliðsjón af markmiðum yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga er ljóst að þar er ágætan samhljóm að finna. Sú áhersla sem íslensk sveitarfélög hafa lengi lagt á að nærþjónustan sé öflug og svari þörfum notenda er í góðu samræmi við nálgun samningsins. Sýn samningsins á að vinna beri heildstætt og samræmt að því að virkja einstaklingsréttindin fær mikinn stuðning í því markmiði að samþætta beri þjónustuna og að mat á þörf fyrir aðstoð eigi fyrst og fremst að stýra því hvaða úrræði eru veitt.

Þá er ljóst að áhersla samningsins á aðgengismál og aukið val notenda milli úrræða mun til framtíðar kalla á aukin fjárframlög. Innleiðing samningsins hefur þó ekki sjálfkrafa kostnaðaráhrif að þessu leyti, enda er viðurkennt að réttindaákvæði samningsins eigi að fá staðbundna aðlögun í samræmi við getu stofnana og þjónustuaðila í hverju aðildarríki fyrir sig. Samningurinn mun hins vegar ljóslega hafa áhrif á forgangsröðun verkefna þegar stjórnvöld gera sínar aðgerðaráætlanir, sbr. framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014.

Hvernig á að standa að innleiðingu samningsins?

Nokkuð hefur verið rætt um það hvernig standa eigi að innleiðingu samningsins og þá einkum hvort lögfesta eigi hann í heild eða gera margvíslegar breytingar á hinum ýmsu lögum sem snerta málaflokkinn. 

Sveitarfélögin hafa ekki mótað afstöðu til slíkra spurninga en á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið skoðað hvernig mismunandi leiðir snúa að stöðu sveitarfélaganna, sem þjónustuveitenda og stjórnvalda í málaflokknum.

Niðurstaðan af þeirri skoðun var sú að það sé ekki síðri leið fyrir sveitarfélögin að samningurinn verði lögfestur í heild, fremur en en taka drjúgan tíma í að greina og framkvæma ýmsar lagabreytingar. Þetta er þó háð því að samstaða náist meðal allra hlutaðeigandi aðila um þær aðgerðaráætlanir sem ráðist verður í.