Fyrsta áfangaskýrsla starfshóps um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk er komin út.
Í skýrslunni kemur fram að þær áskoranir sem þjónusta við fatlað fólk stendur frammi fyrir eru mjög umfangsmiklar, að bregðast þurfi skjótt við og með markvissum hætti. Innan tveggja til þriggja ára horfi ríki og sveitarfélög fram á mikinn fjárhagslegan vanda sem verður illviðráðanlegur verði ekkert að gert. Því þurfa ríki og sveitarfélög að taka saman höndum og horfa til framtíðar um lausn þeirra verkefna sem fjallað er um í skýrslunni, og hefur hópur skipaður fulltrúum beggja aðila þegar verið settur á laggirnar til að skoða þau mál.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, skipaði starfshópinn í júlí árið 2022 og var honum falið að vinna að mótun tillagna um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Í hópnum eru bæði fulltrúar ríkis og sveitarfélaga og taka verkefni hópsins mið af þeim vilja ríkis og sveitarfélaga að nú sé tíminn til að finna lausnir á ýmsum þeim verkefnum og álitamálum sem áður hafa komið upp í samskiptum þeirra og hinna miklu áskorana sem þjónusta við fatlað fólk stendur frammi fyrir til framtíðar litið. Í vinnu starfshópsins var gert ráð fyrir að sérstaklega yrði horft til ýmissa þeirra álitamála sem komið hafa upp í samskiptum ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk.
Frá því að yfirfærsla á þjónustu við fatlað fólk átti sér stað frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 hefur orðið mikil framþróun í málefnum fatlaðs fólks, ásamt því að gerðar hafa verið lagabreytingar um aukna þjónustu. Ríki og sveitarfélög undirrituðu í desember 2023 samkomulag um breytingu á fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Samkomulagið felur í sér að útsvarsprósenta sveitarfélaga hækkar um 0,23% með samsvarandi lækkun tekjuskattsprósentu ríkisins. Hækkunin nemur um sex milljörðum króna miðað við árið 2024. Í kjölfar samkomulags frá í desember 2022 fluttust 5,7 milljarðar króna frá ríki til sveitarfélaganna miðað við árið 2024 og er heildarhækkun því tæplega 12 milljarðar króna. Niðurstaða skýrslunnar sýnir hins vegar að mikilvægt er að ríki og sveitarfélög vinni saman að því að þróa þjónustuna áfram og tryggja fjármögnun til framtíðar, í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks.