Helstu mál á vettvangi ESB árið 2022

Hér er að finna yfirlit yfir helstu mál á vettvangi ESB árið 2022 sem varða íslensk sveitarfélög.

Í fyrsta lagi er að finna kynningu á starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir árið 2022, en yfirskrift hennar er að þessu sinni „Making Europe stronger together“. Starfsáætlunin byggir á sex forgangsmálum sem skilgreind voru í fimm ára stefnumörkun Ursula von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB:

 1. Grænn sáttmáli fyrir Evrópu
 2. Stafræn framtíð Evrópu
 3. Efnahagskerfi sem sinnir þörfum almennings
 4. Evrópsk gildi
 5. Lýðræði í Evrópu
 6. Áhrif Evrópu á heimsvísu

Þá verður að þessu sinni lögð sérstök áhersla á málefni ungs fólks í starfsáætlun ESB þar sem árið 2022 er tileinkað ungu fólk í Evrópu: European Year of Youth.

Í öðru lagi er fjallað um samstarfsáætlanir ESB.

Í þriðja lagi er fjallað um málefni sveitarfélaga sem tengjast EES EFTA samstarfinu.

Hér að neðan má finna einstaka kafla yfir helstu mál á vettvangi ESB árið 2022 og hér má einnig nálgast ritið Helstu mál á vettvangi ESB árið 2022 í heild sinni sem pdf skjal.

1. Starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB árið 2022

Grænn sáttmáli fyrir Evrópu er áfram eitt fyrirferðamesta málið á dagskrá framkvæmdastjórnar ESB. Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, hefur lýst því yfir að um sé að ræða mikilvægasta verkefni okkar tíma og að áframhaldandi hagsæld Evrópu byggi á því að vistkerfi jarðarinnar séu heilbrigð og nýting náttúruauðlinda sjálfbær. Hér er m.a. vísað til þess að loftslagsbreytingar , ofnýting á náttúruauðlindum, útrýming tegunda, auk skógarelda, flóða og annarra náttúruhamfara sem loftslagsbreytingar auka enn á, grafi undan öryggi og hagsæld Evrópu.

Grænn sáttmáli fyrir Evrópu er svar ESB við þessu. Sáttmálanum er ætlað að tryggja kolefnishlutlausa Evrópu árið 2050 og því verði gripið til markvissra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda auk þess að aðlaga samfélög og efnahagskerfi Evrópu að áhrifum loftslagsbreytinga. Sáttmálanum er auk þess ætlað að vernda náttúruauðlindir og líffræðilegan fjölbreytileika Evrópu og þá skipar vernd hafsins einnig stóran sess í sáttmálanum.

En Græni sáttmálinn fjallar um annað og meira en loftslag og umhverfi. Honum er einnig ætlað að vera vaxtarsproti fyrir evrópskt efnahagslíf. Nýsköpun og nútímavæðing hagkerfa og iðnaðar Evrópu er því grundvallaratriði í samningnum, þar sem sköpun nýrra starfa og aukin samkeppnishæfni Evrópu eru lykilhugtök. Hringrásarhagkerfið er af þeim sökum einnig stór hluti af græna samningnum og þá er „stafrænu byltingunni“ einnig ætlað stórt hlutverk þegar kemur að grænum og sjálfbærum lausnum.

Ljóst er að Græni sáttmálinn mun hafa mikil áhrif á borgir, bæi og sveitarfélög í Evrópu þar sem hann fjallar um málaflokka sem svæðisbundin stjórnvöld fara með að stórum hluta eða að öllu leyti.

i) Loftslagsstefna ESB

Loftslagsstefna ESB er ein af meginstoðum Græna sáttmálans. Samkvæmt henni á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu um 55% fyrir árið 2030 og gera Evrópu að fyrstu kolefnishlutlausu heimsálfunni fyrir árið 2050. Ljóst er að þessi markmið munu kalla á verulega fjárfestingu á öllum sviðum samfélagsins og í þessu tilliti vísar ESB til aðgerða- og löggjafarpakka sem gengur undir nafninu „Fit-for-55“. Þá setja fjölmörg evrópsk sveitarfélög markið jafnvel enn hærra og stefna á kolefnishlutleysi eigi síðar en 2030. Þar sem Ísland er aðili að loftslagsmarkmiðum ESB má fastlega búast við að markmið og aðgerðir ESB muni einnig eiga við á Íslandi að einhverju leyti.

Listi yfir helstu mál sem ESB vinnur að og snerta sveitarfélög:

 • Reglugerðir sem varða vottun á bindingu kolefnis (Certification of carbon removals). Fyrir Ísland er binding kolefnis mikilvægt mál og markmið um kolefnishlutlaust Ísland byggir að stórum hluta á bindingu kolefnis með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Því er mikilvægt að fylgst sé náið með áformum ESB sem varða reglur um vottun á bindingu kolefnis.
 • Endurskoðun á losunarstuðlum fyrir þungaflutninga og almennur lagarammi fyrir þungaflutninga innan álfunnar með það að markmiði að Evrópa búi við kolefnishlutlausar samgöngur (Review of the CO2 emission standards for heavy-duty vehicles).
 • Endurskoðun á reglum sem varða flúoraðar gróðurhúsalofttegundir með það að markmiði að minnka enn frekar losun þeirra t.d. í tengslum við iðnaðarferli. Þar má m.a. nefna áliðnaðinn, en perflúorkolefni eru efni sem myndast við framleiðslu áls. Því er mikilvægt að Ísland fylgist grant með áformum ESB hvað þetta varðar. (Review of EU rules on fluorinated greenhouse gases).

ii) Loftslagsvæn orka

Aðildarríki ESB vinna eftir s.k. landsáætlunum á sviði orku- og loftslagsmála og orkuskipta. Aukinn hlutur endurnýjanlegrar orku og orkuskipti er stórt og flókið mál fyrir aðildarríki ESB og er stigminnkandi notkun á jarðefnaeldsneyti í iðnaði og til húshitunar grundvallaratriði fyrir mörg aðildarríki ESB. Á sama tíma þarf að tryggja orkuöryggi og viðráðanlegt verðlag á orku í álfunni og innrás Rússland í Úkraínu hefur enn frekar dregið fram milivægi þessara mála fyrir Evrópu. Þá eru áætlanir framkvæmdastjórnar ESB um sjálfbærar samgöngur og vistvæna innviðauppbyggingu nátengdar aðgerðum í orku- og loftslagsmálum.

Listi yfir helstu mál sem ESB vinnur að og snerta sveitarfélög:

 • Tilskipun sem varða markmið um sjálfbæra orku (Renewable energy directive).
 • Tilskipun sem varðar markmið um aukna orkunýtni (Energy efficiency directive).

Báðar þessar tilskipanir hafa verið teknar inn í EES samninginn og því má fastlega reikna með að það sama komi til með að eiga við um endurskoðaðar útgáfur af þessum tilskipunum.

Evrópsk hagsmunasamtök sveitarfélaga, CEMR, sendi framkvæmdastjórn ESB umsögn um báðar þessar tilskipanir. Þar er m.a. bent á að evrópsk sveitarfélög búi við mjög mismunandi aðstæður og möguleika þegar kemur að sjálfbærri orku og betri orkunýtingu. Því sé mikilvægt að sveitarfélög séu höfð með í ráðum á öllum stigum þessarar vinnu. Þá benti CEMR á mikilvægi þess að litið sé á s.k. „Waste-to-Energy“ (umbreytingu á úrgangi í orku) sem sjálfbæra orku, þó svo að megináherslan verði eftir sem áður að draga úr úrgangi. Þessi punktur kom inn í umsögn CEMR að tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga og úrgangssérfræðings þess.

iii) Samgöngupakki ESB

ESB hefur undanfarin ár unnið að framtíðarfyrirkomulagi í samgöngum í álfunni í gegnum s.k. samgöngupakka (Mobility package). Vistvænar samgöngur er mikilvægur hluti af loftslagsmarkmiðum ESB, auk þess að stuðla að auknum loftgæðum í borgum og bæjum og almennri vellíðan íbúa. Samgöngupakkinn er viðamikill og ljóst er að einungis hluti pakkans fjallar um mál sem snerta sveitarfélög, en þar má t.d. nefna orkuskipti í samgöngum, eflingu almenningssamgagna, breyttar ferðavenjur, skipulag borga og bæja, notkun stafrænna lausna, o.s.frv.

ESB hefur nú þegar unnið að fjölda tillagna, aðgerða og reglugerða sem tengjast samgöngupakkanum með einum eða öðrum hætti. Þessa dagana vinnur ESB m.a. að því að uppfæra tilskipun sem snýr að uppbyggingu í tengslum við orkuskipti í samgöngum. Í tengslum við þá vinnu hefur verið bent á að bindandi reglur um t.d. þéttni vistvænna hleðslustöðva geti verið veruega íþyngjandi fyrir fámenn en landfræðilega stór sveitafélög. Þá er unnið að tilskipun um notkun stafrænnar tækni í tengslum við umferðastjórnun og vegtolla.

Listi yfir helstu mál sem ESB vinnur að og snerta sveitarfélög:

 • Endurskoðun á tilskipun varðandi uppbyggingu á inviðum í tengslum við orkuskipti í samgöngum (Revision of the Directive on deployment of alternative fuels infrastructure).
 • Tilskipun um notkun stafrænnar tækni í tengslum við umferðastjórnun og vegtolla (Directive on intelligent transport systems).

iv) Sjálfbærar byggingar

Framkvæmdastjórn ESB leggur mikla áherslu á að ráðist verði í aðgerðir sem snúa að sjálfbærni bygginga Á síðasta ári lauk samráði við hlutaðeigandi aðila um hversu langt eigi að ganga í þeim efnum, hversu hratt, hvað skili mestum árangri þegar horft er til loftslagsaðgerða, o.s.frv. Um er að ræða uppfærslu á tilskipun sem varðar orkunýtni bygginga. Hér er um að ræða gríðarlega mikilvægt mál fyrir sveitarfélög þar sem mikill fjöldi gamalla bygginga heyra undir þau og því ljóst að kvaðir um sjálfbærni bygginga getur haft í för með sér mikinn kostnað fyrir sveitarfélög. Evrópsk hagsmunasamtök sveitarfélaga, CEMR, sendi framkvæmdastjórn ESB umsögn um málið. Þar er m.a. bent á þessa staðreynd og það ítrekað að sveitarfélög séu höfð með í ráðum á öllum stigum málsins. Þá er bent á að jafnvægi þurfi að ríkja á milli loftslagsmarkmiða og félagslegra markmiða ESB og mikilvægi þess að sveitarfélögum standi til boða fjármagn úr sjóðum ESB til að fjármagna aðgerðir sem þessar. Hvað Ísland varðar þá er staðan allt önnur hér á landi þar sem t.d. bæði raforka og húshitun er loftslagsvæn. Einnig er líklegt að fjárstuðningur ESB verði í gegnum byggðasjóði ESB og standi því íslenskum aðilum ekki til boða. Því er mikilvægt að íslensk stjórnvöld fylgist vel með þessum málum og að tryggt sé að Ísland taki ekki á sig skuldbindingar sem eru ekki í samræmi við þær aðstæður sem hér ríkja.

Listi yfir helstu mál sem ESB vinnur að og snerta sveitarfélög:

 • Endurskoðun á tilskipun sem varðar orkunýtni bygginga (Revision of the energy performance of Buildings Directive).

v) Hringrásarhagkerfið

Hringrásarhagkerfið, úrgangsmál, fráveitumál og neysla eru allt málaflokkar sem snerta íslensk sveitarfélög með beinum hætti. Mikið af löggjöf ESB um hringrásarhagkerfið fellur undir EES samninginn og því er mikilvægt að fylgst sé með vinnu ESB sem snýr að þessum víðtæka málafokki. Samband íslenskra sveitarfélaga er aðili að Municipal Waste Europe og veitir sú aðild greiðan aðgang að ESB málum sem varða hringrásarhagkerfið.

Listi yfir helstu mál sem ESB vinnur að og snerta sveitarfélög:

 • Stefnumörkun í tengslum við sjálfbæra framleiðslu (Sustainable products policy initiative).
 • Endurskoðun á reglugerð varðandi flokkun, merkingar og pakkningar (Regulation on classification, labelling and packaging).
 • Endurskoðun á tilskipun varðandi frárennslismál (Urban water treatment Directive). Meðal þess sem vænta má eru auknar kröfur varðandi hreinsun á lyfjaleifum og örplasti í fráveitum.
 • Stefnumótun varðandi lífbrjótanlegt og niðurbrjótanlegt plast (Policy framework for bio-based, biodegradable and compostable plastics).
 • Takmarkanir á notkun á örplasti (Restriction on microplastics).
 • Endurskoðun á tilskipun varðandi úrgang (Revision of the Waste Framework Directive) sem er í samráði við hagsmunaaðila um þessar mundir

vi) Líffræðilegur fjölbreytileiki

Framkvæmdastjórn ESB vinnur um þessar mundir að nýjum lagaramma um endurheimt líffræðilegs fjölbreytileika. Hlutverk sveitarfélaga þykir frekar óskýrt þegar kemur að áætlunum og markmiðssetningu í tengslum við líffræðilegan fjölbreytileika og hafa evrópsk hagsmunasamtök sveitarfélaga, CEMR, lagt til að þessu verði gerð betri skil í þeirri vinnu sem nú fer fram hjá framkvæmdastjórn ESB.

Í tengslum við líffræðilegan fjölbreytileika er einnig vert að nefna að ESB stefnir á að uppfæra reglugerðir sem varða vottun á bindingu kolefnis (Certification of carbon removals), eins og minnst var á hér að ofan. Í loftslagsstefnu Íslands er að finna markmið um aukna bindingu gróðurhúsalofttegunda vegna breyttrar landnotkunar, t.d. með skógrækt og landgræðslu. Þá eru einnig uppi áform um að stöðva losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda með endurheimt á votlendi. Því er mikilvægt að vel sé fylgst með hvaða reglur ESB setur í tengslum við losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda vegna breyttrar landnotkunar og að þær séu í samræmi við þær aðstæður sem ríkja á Íslandi. Þetta er ekki einungis mikilvægt í tengslum við málefni tengd EES samningnum heldur geta áform ESB í þessum efnum einnig haft veruleg áhrif á gang mála hjá Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna.

Listi yfir helstu mál sem ESB vinnur að og snerta sveitarfélög:

 • Nýr lagarammi í tengslum við endurheimt líffræðilegs fjölbreytileika (New legal framework on the restoration of healthy ecosystems).

vii) Umhverfisvernd

Vinna framkvæmdastjórnar ESB byggir á áttundu umhverfisáætlun ESB en henni er ætlað að leiða starf og markmiðasetningu aðildarríkja ESB þegar kemur að umhverfisvernd. Þessu tengdu má nefna að framkvæmdastjórn ESB vinnur einnig að stefnumótun sem kölluð er „frá býli til gaffals“ og er henni ætlað að tryggja sjálfbær fæðukerfi fyrir íbúa Evrópu. Þá hefur framkvæmdastjórn ESB einnig samþykkt s.k. „zero-pollution“ áætlun, en með henni er stefnt að því að evrópskt umhverfi verði mengunarlaust.

Listi yfir helstu mál sem ESB vinnur að og snerta sveitarfélög:

 • Stjórn vatnsgæða og endurskoðun á lista um mengunarvalda í yfirborðs- og grunnvatni (Integrated water management – revised lists of surface and groundwater pollutants).
 • Endurskoðun á löggjöf um loftgæði (Revision of EU ambient air quality legislation).
 • Enduskoðun á reglum um sjálfbæra norkun skordýraeiturs (Sustainable use of pesticides, revision of the EU rules).

Brussel-skrifstofa mun fylgjast með framvindu Græna sáttmálans og stefnumótun og löggjöf sem honum fylgir og gæta hagsmuna íslenskra sveitarfélaga gagnvart honum.

Stafræn framtíð Evrópu er áfram ofarlega á dagskrá framkvæmdastjórnar ESB. Umhverfi okkar tekur örum breytingum þessi misserin vegna stafrænnar þróunar, sem hefur á stuttum tíma gerbreytt hvernig við störfum og hegðum okkur. Þá er ljóst að áhrif Covid-19 faraldursins hafa þrýst enn frekar á þörfina fyrir stafrænar lausnir. Í breytingum sem þessum felast tækifæri en einnig áskoranir fyrir sveitarfélög. Stafræn framtíð býr yfir miklum drifkrafti breytinga hvort sem horft er til viðskiptalífs eða samfélagsgerðar og tækifærin felast m.a. í nýjum samskiptaleiðum, bættri þjónustu og hvernig verslun og viðskiptum verður háttað í framtíðinni. Áskoranirnar snúa hins vegar einnig að siðferðilegum álitefnum í tengslum við notkun á gervigreind við úrvinnslu persónulegra gagna.

Stafræn framtíð Evrópu er sýn ESB á það með hvaða hætti Evrópa geti orðið leiðandi á sviði stafrænnar tækni, bæði sem brautryðjandi við þróun tækninnar og ekki síður þegar kemur að því að nýta sér hana. Á sama tíma leggur ESB áherslu á mikilvægi þess að Evrópa haldi fast í þau grunngildi sem íbúar álfunnar búa við, sem snúa m.a. að siðferðilegum spurningum í tengslum við notkun á gervigreind við greiningu og miðlun upplýsinga.

Aðgerðir í tengslum við stafræna framtíð Evrópu sem ESB hefur sett fram:

Í fyrsta lagi er um að ræða grunnreglur um meðferð upplýsinga (Data Act) sem er ætlað að tryggja örygi gagna, en stuðla jafnframt að því að Evrópa geti nýtt sér sem best hið gríðarlega magn af upplýsingum sem ný tækni gerir bæði aðgengilegar og hugsanlega mjög gagnlegar á mörgum sviðum.

Í öðru lagi vinnur ESB að stefnumótun og löggjöf sem tengist hagnýtingu á tækni sem byggir á gervigreind. Þessi vinna byggir á Hvítbók sem kom út árið 2020, en hún markaði upphafið að stefnumótun og framtíðar löggjöf innan ESB hvað þessi mál varðar.

Sveitarstjórnarvettvangur EES-EFTA fjallaði um leiðbeinandi siðareglur ESB um ábyrga hagnýtingu á gervigreind á fundi sínum í desember 2019. Í ályktun sem samþykkt var á fundinum eru sveitarfélög hvött til þess að fylgist grannt með þróun gervigreindar og áréttað að aðkoma sveitarfélaga verði tryggð við stefnumótun og reglusetningu stjórnvalda varðandi þessi mál. Ljóst er að í þessari tækni felast tækifæri fyrir sveitarfélög, m.a. í tengslum við bætta þjónustu við almenning. Í ályktuninni er hins vegar áréttað að huga þarf vel að mannréttindum í tengslum við notkun á gervigreind, t.d. hvað varðar heilsufarslegar upplýsingar og aðrar viðkvæmar persónuupplýsingar. Framkvæmdastjórn ESB hefur nú kynnt til sögunnar drög að reglugerð varðandi notkun á gervigreind (Regulation laying down harmonised rules on artificial intelligence).

Í þriðja lagi vinnur ESB að gerðum um stafræna þjónustu (Digital Service Act) og stafræna markaði (Digital Markets Act). Markmiðið er m.a. að skilgreina betur lagalegan grunn ESB fyrir stafræna þjónustu og markaði, þá einkum með tilliti til smærri fyrirtækja. Þá þarf einnig að huga að rétti neytenda. Evrópuþingið samþykkti tillögur framkvæmdastjórnar ESB varðandi Digital Services Act í janúar á þessu ári og þá má fastlega má gera ráð fyrir að ráðherrar aðildarríkja ESB samþykki gerðina seinna á þessu ári. Gerðin er hluti af þjónustutilskipun ESB frá 2006 sem var innleidd á Íslandi árið 2011 og því má leiða líkum að því að gerðin falli undir EES samninginn og verði þar af leiðandi innleidd hér á landi.

Stafræn framtíð Evrópu og öryggismál:

Stafræn tækni og öryggismál eru samofin og framkvæmdastjórn ESB hóf árið 2020 endurskoðum á tilskipun frá 2016 sem snýr að netöryggi. Tilskipunin sem um ræðir tók gildi á Íslandi með lögum, nr. 78/2019, um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða. Því er ljóst að endurskoðuð tilskipun mun að öllum líkindum einnig verða innleidd á Íslandi. Lögin eru þau fyrstu sem snúa að netöryggi á Íslandi og markmið þeirra er að auka öryggi net- og upplýsingakerfa sem tengjast rekstri mikilvægra efnahags- og samfélagslegra innviða. Þá er þeim einnig ætlað að bæta viðnámsþrótt þessara innviða komi til netárása og samræma viðbrögð við slíkum atvikum. Lögin ná til margskonar starfsemi og þar á meðal starfsemi sem fellur undir starfsvið sveitarfélaga, m.a. rekstur heilbrigðisþjónustu, rafmagns-, hita- og vatnsveitna.

Stafræn framtíð Evrópu er eitt af áherslumálum evrópskra hagsmunasamtaka sveitarfélaga, CEMR. Í ályktun sem CEMR sendi framkvæmdastjórn ESB í janúar á þessu ári er lögð áhersla á mikilvægi sveitarstjórnarstigsins þegar kemur að innleiðingu stafrænnar tækni og þjónustu í Evrópu. Því sé mikilvægt að sveitarstjórnarstigið sé haft með í ráðum í allri stefnumótun og lagagerð sem snýr að stafrænni framtíð álfunnar.

Listi yfir helstu mál sem ESB vinnur að og snerta sveitarfélög:

 • Tilskipun sem varðar gögn og gagnaöryggi (Data Act).
 • Reglugerð um notkun á tækni sem byggir á gervigreind (Regulation laying down harmonised rules on artificial intelligence).
 • Stafræn þjónusta (Digital Service Act).
 • Stafrænir markaðir (Digital Markets Act).
 • Stafrænt evrópskt nafnskírteini.

Brussel-skrifstofa mun fylgjast með framvindu þessara mála og miðla upplýsingum um þau.

Tillögur framkvæmdastjórnar ESB varðandi lágmarkslaun í Evrópu (Directive on adequate minimum wages) hafa vakið mikla umræðu. Markmiðið er að tryggja að allir íbúar Evrópu fái sanngjörn laun fyrir vinnuframlag sitt. Þessi áform ESB eru góðra gjalda verð en þau hafa valdið töluverðum áhyggjum, einkum meðal Norðurlandaþjóðanna. Þau óttast að lagasetning ESB um lágmarkslaun kunni að hafa neikvæð áhrif á norræna kjarasamningsmódelið. Evrópsk hagsmunasamtök sveitarfélaga, CEMR, hafa fjallað um málið og á fundi sérfræðinganefndar CEMR með framkvæmdastjórn ESB lögðu sérfræðingar framkvæmdastjórnar ESB áherslu á að það sé ekki ætlun ESB að velta norræna kjarasamningsmódelinu úr sessi eða lögfesta almenn lágmarkslaun í Evrópu. Þá liggur ekki enn þá fyrir hvort aðgerðir ESB í málinu verða í formi tilskipunar eða hvort einungis verði um leiðbeinandi tillögur að ræða, en ljóst er að málið er gríðarlega mikilvægt fyrir Norræna atvinnurekendur, og þ.m.t. sveitarfélög. Málið hefur þvælst nokkuð fyrir bæði þingmönnum Evrópuþingsins og ráðherrum aðildarríkja ESB, en vonast er til að lausn finnist á þessu ári.

Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA ályktaði um málið á fundi sínum í febrúar 2021. Í ályktuninni er tekið undir markmið framkvæmdastjórnar ESB varðandi lágmarkslaun, en jafnframt lögð áhersla á að tillögur framkvæmdastjórnar ESB megi ekki hafa neikvæð áhrif á þau kjarasamningsmódel sem fyrir eru í Evrópu og virka vel.

Meðal annarra tengdra mála sem ESB vinnur að um þessar mundir má nefna tilskipun um gegnsæi í launagreiðslum (Pay transparency directive) sem er ætlað að styðja við markmið ESB um að starfsfólk fái greidd sömu laun fyrir sömu vinnu. Hér er sérstaklega horft til þess að kyn starfsfólks hafi ekki áhrif á launakjör þeirra. Þá heldur áfram vinna ESB í tengslum við aðgerðaáætlun (Action plan on the European Pillar of Social Rights) sem er ætlað að tryggja félagslegan jöfnuð í álfunni og að aðgerðir ESB í loftslagmálum og að stafrænni umbreytingu, auk aðgerða er varða COVID-19, taki tillit til þess að samfélagshópar standa misjafnlega vel að vígi gagnvart þessum breytingum.

Listi yfir helstu mál sem ESB vinnur að og snerta sveitarfélög:

Brussel-skrifstofa mun fylgjast með framvindu þessara mála, gæta hagsmuna íslenskra sveitarfélaga og miðla upplýsingum.

Evrópsk gildi, lýðræði og aukið samráð við borgara álfunnar er meðal þess sem ESB hefur sett á oddinn í starfsáætlun sinni. Sú neikvæða lýðræðisþróun sem nú á sér stað innan nokkurra aðildarríkja ESB er ein helsta ástæða þess að ESB vill beita öllum tiltækum ráðum til að tryggja að aðildarríki ESB virði grundvallarlög og reglur sambandsins um lýðræði og mannréttindi.

Þá hefur stríður straumur flóttamanna til Evrópu valdið þó nokkrum núningi innan ESB og því er talið brýnt að aðildarríki ESB nái samstöðu um aðgerðir til að stemma stigu við ólögmætum fólksflutningum og mansali í Evrópu og réttlátari ábyrgðarskiptingu á milli aðildarríkjanna. Ljóst er að innrás Rússlands í Úkraínu eykur enn frekar vandann.

„Málefni flóttamanna eru flókin og núverandi kerfi virkar ekki“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í stefnuræðu sinni í september 2020. Við sama tækifæri kynnti hún áform ESB um breytingar á innflytjenda- og hælisleitendakerfi Evrópu. Þetta kallar einnig á breytingar á hinni umdeildu Dyflinnar-reglugerð sem Ísland er aðili að. Þá er ljóst að innrás Rússland í Úkraínu mun enn frekar reyna á

Tillaga framkvæmdastjórnar ESB felur í sér þrjú meginatriði. Í fyrsta lagi að um sé að ræða sameiginlegt kerfi fyrir öll aðildarríki ESB. Í öðru lagi þarf kerfið að vera mun hraðvirkara og skilvirkara. Í þriðja lagi þarf að tryggja að ríki ESB beri jafnari ábyrgð þegar kemur að málsmeðferð í málum hælisleitenda. Þetta kallar á breytingar á Dyflinnar-reglugerðinni, en hún ákvarðar hvaða Schengen ríki beri ábyrgð á meðferð hælisumsóknar. Samkvæmt reglugerðinni er ríkjum heimilað að senda hælisleitenda aftur til þess Schengen ríkis sem hann kom fyrst til. Dyflinnar-reglugerðin hefur lengi verið umdeild og hún hefur leitt til ójafnar ábyrgðar og álags meðal ríkja ESB þar sem meginþorri flóttamanna koma til Evrópu í gegnum Grikkland, Ítalíu og Spán. Ísland er hluti af Schengen og Dyflinnar reglugerðin á við um hælisleitendur hér á landi. Því er ljóst að fyrirhugaðar breytingar á innflytjenda- og hælisleitendakerfi ESB munu að öllum líkindum hafa áhrif á meðferð þessar mála á Íslandi.

Málefni flóttamanna eru meðal þeirra mála sem evrópsk hagsmunasamtök sveitarfélaga, CEMR, fjalla um. Í ályktun sem CEMR sendi frá sér í janúar á þessu ári er lögð áhersla á að ESB móti heildstæða stefnu varðandi málefni flóttamanna og að byrði landa innan Schengen samstarfsins verði jöfnuð.

Velferð íbúa Evrópu fellur einnig undir þennan kafla og þar má m.a. nefna að á síðasta ári setti framkvæmdastjórn ESB fram áætlun um grundvallarréttindi barna (EU strategy on the rights of the child). Þá er hafin vinna innan ESB sem varðar aðgerðir til að stemma stigu við kynbundnu ofbeldi (Proposal to prevent and combat specific forms of gender-based violence).

Listi yfir helstu mál sem ESB vinnur að og snerta sveitarfélög:

 • Áætlun um framtíðarskipulag Schengen samstarfsins (Strategy towards a fully functioning and resilient Schengen area).
 • Dyflinnar-reglugerðin (Revision of the Dublin regulation).
 • Aðgerðir til að stemma stigu við kynbundnu ofbeldi (Proposal to prevent and combat specific forms of gender-based violence).
 • Áætlun varðandi réttindi fatlaðra einstaklinga (Strategy on the rights of persons with disabilities).

Brussel-skrifstofa mun fylgjast með framvindu þessara mála og miðla upplýsingum um þau.

2. Evrópskar samstarfsáætlanir

Á vegum ESB eru reknar viðamiklar samstarfsáætlanir sem miða að því að auka félagslegan og efnahagslegan jöfnuð innan aðildarríkja ESB og styðja við framþróun og hagvöxt. Samstarfsáætlanirnar styrkja opinbera aðila, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga.

Í síðasta ári hófst nýtt styrkjatímabil og nær það frá 2021 til 2027. Að þessu sinni verður lögð aukin áhersla á verkefni sem tengjast loftslagsmarkmiðum ESB. Stefnt er að sem mestri samþættingu samtarfsáætlananna við loftslagsmarkmið ESB og a.m.k. 25% fjármagnsins verður eyrnamerkt verkefnum á sviði loftslagsmála.

Búið er að ákveða hvaða samstarfsáætlanir Ísland kemur til með að taka þátt í. Ísland mun að mestu leyti halda áfram að taka þátt í þeim samstarfsáætlunum sem við höfum áður átt aðild að. Það sem er hins vegar nýtt af nálinni er að Ísland mun nú í fyrsta sinn taka þátt í LIFE, umhverfis- og loftslagsáætlun ESB og Digital Europe, samstarfsáætlun ESB um stafræna þróun. Báðar þessar áætlanir fela í sér tækifæri fyrir íslensk sveitarfélög, þar sem umhverfismál, loftslagsmál og stafræn þróun eru allt málaflokkar sem eru mikilvæg fyrir sveitarfélög.

 • Horizon Europe: Áætlunin er framhald af Horizon 2020 og henni er ætlað að styðja við rannsóknir og nýsköpun á öllum sviðum vísinda og fræða með það að markmiði að auka samkeppnishæfni Evrópu, skapa störf og stuðla að því að góðar hugmyndir komist á markað. Horizon Europe mun einnig veita fjármagni til nýsköpunar í rekstri og þjónustu opinberra aðila, þ.m.t. sveitarfélaga.
 • Erasmus+: Mennta-, æskulýðs-, og alþjóðaáætlanir ESB voru á síðasta tímabili sameinaðar í þessa einu áætlun. Reikna má með að leik- og grunnskólar geti t.d. áfram sótt um styrki til náms starfsmanna og starfsþjálfunar og til samstarfsverkefna með öðrum skólum á EES-svæðinu. Áhersla er lögð á að fjárfesta í fólki til ávinnings bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. Markmiðið er m.a. að auka færni fólks sem og virkja einstaklinga til þátttöku í samfélaginu, að nútímavæða menntakerfið með aukinni áherslu á starfsmenntun og auka hreyfanleika bæði nemanda og kennara.
 • Digital Europe: Áætluninni er ætlað að bregðast við áskorunum og tækifærum í tengslum við „stafrænu byltinguna“ og auka færni borgara til þess að nýta nýja tækni sér og samfélaginu til hagsbóta. Ísland tekur nú í fyrsta sinn þátt í þessari áætlun og því vert fyrir íslenskt sveitarfélög að kynna sér þau tækifæri sem því fylgja.
 • LIFE Programme for Environment and Climate Action: LIFE, styrkjaáætlun ESB fyrir umhverfis- og loftslagsmál. Ísland tekur nú í fyrsta sinn þátt í þessari áætlun og nú þegar er töluverð umsóknarvinna í gangi hjá íslenskum sveitarfélögum. Þar má m.a. geta þess að sveitarfélög og aðilar á Norðurlandi Eystra og Vestfjörðum sendu fyrr á þessu ári inn LIFE umsókn varðandi orkuskipti í samgöngum.
 • Creative Europe: Felur m.a. í sér samstarf menningarstofnana. Reikna má með að áfram verði í boði styrkir til að skipuleggja millilandaheimsóknir fyrir evrópska listamenn, til þjálfunar og styrkingar tengslaneta fyrir fagfólk og til að koma listamönnum og verkum þeirra á framfæri á nýjum mörkuðum.
 • Connecting Europe Facility: Áætlun sem ætlað er að auka hagvöxt, atvinnu og samkeppnishæfni með markvissum fjárfestingum í innviðum. Á síðasta tímabili tók Ísland þátt í verkefni á sviði upplýsinga og samskiptatækni (ICT) innan Connecting Europe Facility áætlunarinnar.

Á Íslandi hefur Rannís umsjón með þeim samstarfsáætlunum ESB sem Ísland tekur þátt í og auk þess gegnir Rannís stuðningshlutverki varðandi gerð umsókna, leit að samstarfsaðilum, o.s.frv.

Brussel-skrifstofa mun fylgjast með málinu og leitast við að afla upplýsinga um samstarfstækifæri og vinna að þátttöku íslenskra sveitarfélaga í evrópskum samstarfsáætlunum.

3. EES EFTA samstarfið

Sveitarstjórnarstigið hefur mikilla hagsmuna að gæta í EES samstarfinu og því var sveitarstjórnar-vettvangur EES EFTA settur á fót árið 2010. Þar eiga sæti tólf kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Íslandi og Noregi, auk tveggja áheyrnarfulltrúa frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Meginmarkmiðið með vettvanginum er að tryggja þátttöku sveitarstjórnarmanna í EES samstarfinu og koma á tengslum við Svæðanefnd ESB* en hún er einnig skipuð kjörnum fulltrúum á sveitarstjórnarstigi frá aðildarríkjum ESB. Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA hefur fest sig í sessi, fundir eru haldnir tvisvar á ári og vettvangurinn hefur samþykkt tæplega 50 ályktanir um hagsmunamál sveitarfélaga gagnvart ESB og EES samningnum. Þessum ályktunum er komið á framfæri við stofnanir EFTA og EES stjórnvöld í heimalöndunum. Viðfangsefnin eru af ýmsum toga; fjallað hefur verið um COVID-19 faraldurinn, Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, evrópskar samstarfsáætlanir, deilihagkerfið, gervigreind, gagnavernd, orkunýtni, opinber innkaup, úrgangsmál, mat á umhverfisáhrifum, ríkisaðstoðarmál, samstarf við Svæðanefnd Evrópusambandsins og fleira.

COVID-19 faraldurinn hefur sett strik í starfsemi vettvangsins að undanförnu þar sem höft á ferðalög og samkomutakmarkanir hafa hamlað fundasókn. Því fór tuttugasti og annar fundur vettvangsins fram með fjarfundabúnaði dagana 28.-29. janúar 2021. Aðalmál fundarins var Grænn sáttmáli ESB og áform ESB varðandi lágmarkslaun. Stefnt er að því að næsti fundur vettvangsins geti farið fram með eðlilegum hætti í Brussel í haust. Meðal þess sem verður til umræðu á þeim fundi eru áform ESB í tengslum við Hringrásarhagkerfið og hvernig þau áform koma til með að snerta sveitarfélög.

Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga eru nánari upplýsingar um vettvanginn og allar ályktanir vettvangsins er að finna á vefsíðu EFTA.

*Svæðanefnd ESB er skipuð kjörnum fulltrúum sveitar- og svæðastjórna. Nefndinni er ætlað að tryggja aðkomu svæða og sveitarfélaga að ákvörðunartöku ESB allt frá fyrstu stigum löggjafarvinnunnar og þar til gerðir eru samþykktar af ráðherraráði ESB og Evrópuþingi. Framkvæmdastjórn ESB, ráðherraráði og Evrópuþinginu er skylt að hafa samráð við nefndina um stefnumótun ESB og löggjafartillögur sem varða málefni sveitarfélaga og svæða., s.s. tillögur á sviði umhverfismála, menntamála, byggðamála og samgöngumála. Nefndin getur einnig tekið upp mál að eigin frumkvæði. Svæðanefndin hittist fullskipuð (353 fulltrúar) fimm til sex sinnum á ári en auk þess starfa sex fastar undirnefndir sem heyra undir Svæðanefndina.

Brussel-skrifstofa mun skipuleggja fundi sveitarstjórnarvettvangsins í samráði við norska sveitarfélagasambandið og EFTA-skrifstofuna, auk þess að vinna að nánari tengslum við Svæðanefnd ESB.

Ráðgjafarnefnd EFTA er samráðsvettvangur heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins í EFTA-ríkjunum; Íslandi, Liechtenstein Noregi og Sviss. Nefndinni er ætla að vera EFTA ríkjunum og stofnunum EFTA til ráðgjafar um vinnumarkaðsmálefni. Ísland á fjóra fulltrúa í nefndinni; frá ASÍ og BSRB annars vegar og Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins hins vegar, en Samband íslenskra sveitarfélaga hefur áheyrnaraðild að nefndinni og situr forstöðumaður Brussel-skrifstofu fundi hennar í Brussel. Nefndin vinnur annars vegar að gerð sameiginlegra álitsgerða með fulltrúum frá ESB á vettvangi Ráðgjafarnefndar EES og hins vegar að sjálfstæðum álitsgerðum sem kynntar eru fastanefnd EFTA í Brussel og ráðherrum EFTA-ríkjanna.

Ráðgjafarnefnd EES er samráðsvettvangur ESB og EFTA sem samanstendur af Ráðgjafarnefnd EFTA og Efnahags- og félagsmálanefnd ESB.

Í starfsáætlun nefndarinnar fyrir árið 2022 verða á dagskrá málefni tengd Græna sáttmálanum, m.a. svo kallaðri „Fit for 55“ áætlun ESB. Þá verða málefni tengd Stafrænni framtíð Evrópu á dagskrá og má þar m.a. nefna „Digital Services Act“, „Digital Markets Act“ og álitamál í tengslum við notkun á tækni sem notar gervigreind. Þá mun nefndin áfram fylgjast með framvindu mála í tengslum við áform ESB varðandi lágmarkslaun.

Brussel-skrifstofa mun sitja fundi nefndarinnar í Brussel, koma sjónarmiðum íslenskra sveitarfélaga á framfæri og miðla upplýsingum til sambandsins og íslenskra sveitarfélaga.

Markmið Uppbyggingarsjóðs EES er að draga úr félags- og efnahagslegu misræmi innan evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EES EFTA ríkjanna og viðtökuríkjanna fimmtán:

Búlgaría, Eistland, Grikkland, Króatía, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland.

Sjóðurinn er fjármagnaður með greiðslum EES EFTA ríkjanna, þ. á m. Íslands. Því er lögð áhersla á að skapa tækifæri fyrir íslenskar stofnanir, sveitarfélög, fyrirtæki og frjáls félagasamtök til samstarfs við aðila í viðtökuríkjunum með tilstyrk sjóðsins.

Áherslusvið Uppbyggingarsjóðs EES

Samningur um nýtt starfstímabil Uppbyggingarsjóðs EES 2014-2021, með framkvæmdatíma til 2024, var undirritaður 3. maí 2016. Samningurinn kveður á um að heildarframlag EES EFTA ríkjanna fyrir tímabilið skuli nema 1.6 milljörðum evra.

Viðtökuríkin gera sjálf tillögur um hvaða málaflokkum þau vilja starfa að í samstarfi við EES EFTA-ríkin, en áherslusvið sjóðsins eru eftirfarandi:

 • Nýsköpun, rannsóknir, menntun og samkeppnishæfni
 • Félagsleg samheldni, vinnumál ungs fólks og minnkun fátæktar
 • Umhverfi, orka og loftslagsmál
 • Menning, borgaralegt samfélag, góðir stjórnarhættir, grunnréttindi og frelsi
 • Réttlæti og innanríkismál

Innan þessara áherslusviða er síðan að finna 23 styrkjaáætlanir. Ein þessara áætlana fellur með beinum hætti undir verksvið sveitarfélaga: Svæðisbundin þróun og aðgerðir til að minnka fátækt. Áætluninni er ætlað að styrkja verkefni á vegum sveitarfélaga og svæða sem glíma við félags- og efnahagslegar áskoranir, s.s. fátækt, félagslega einangrun, atvinnuleysi, skort á atvinnuuppbyggingu, nýsköpun og samfélagslegum endurbótum.

Þessu til viðbótar má nefna styrkjaáætlanir á sviði Nýsköpunar, Menntunar og menningar, Orku- og umhverfismála, Samfélagslegra umbóta og Málefni flóttamanna. Allt eru þetta áætlanir sem falla að stórum hluta undir verksvið sveitarfélaga. Því er einnig vert að kanna mögulega þátttöku íslenskra sveitarfélaga í verkefnum sem falla undir þessar áætlanir.

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur fjallað um Uppbyggingarsjóð EES og m.a. lagt til að sambandið vinni að því að auka þátttöku íslenskra sveitarfélaga í verkefnum á vegum sjóðsins. Skrifstofa sambandsins í Brussel vinnur að þessu í samstarfi við Rannís, skrifstofu sjóðsins og Samband norska sveitarfélaga.

Nánari upplýsingar um sjóðinn má nálgast hjá forstöðumanni skrifstofu sambandsins í Brussel og á vefsíðu Uppbyggingarsjóðs EES þar sem m.a. er hægt að fylgjast með auglýsingum eftir umsóknum um þátttöku í verkefnum.

Brussel-skrifstofa mun fylgjast með málinu og leitast við að afla upplýsinga um samstarfstækifæri og vinna að þátttöku íslenskra sveitarfélaga í verkefnum Uppbyggingarsjóðs EES.