Tímabundin endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu manna

Alþingi samþykkti fyrr í vetur í aðgerðapakka 1 og 2 tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu sem innt er af hendi á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts nær til eftirfarandi vinnu sem:

 1. Byggjendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað.
 2. Eigendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við endurbætur eða viðhald þess.
 3. Byggjendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess.
 4. Eigendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess.
 5. Eigendur eða leigjendur, þar á meðal húsfélög, hafa greitt af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis.
 6. Sveitarfélög eða stofnanir og félög sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, endurbætur eða viðhald á öðru húsnæði sem alfarið er í eigu þeirra, enda sé húsnæðið skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Þann 19. júlí var undirrituð reglugerð nr. 690/2020 um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna þar sem finna má nánari leiðbeiningar. Þar er meðal annars að finna skilgreiningu á hugtakinu „öðru húsnæði“ sbr. 6. lið hér að ofan en sú skilgreining hefur mikil áhrif á endurgreiðslumöguleika sveitarfélaga. Annað húsnæði er skilgreint sem: Húsnæði í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitar­félaga, annað en íbúðar- og frístundahúsnæði. Um er að ræða hús, þ.e. byggingu með veggjum og þaki, eða hluta húss, sem er varanlega skeytt við land, er skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og ætlað til nota í starfsemi aðila skv. 1. málsl., t.d. íþróttahús, áhaldahús eða vörugeymsla. Hér undir falla því ekki önnur mannvirki, s.s. skýli, umferðar- og göngubrýr, dreifi- og flutningskerfi veitu­fyrirtækja, útisvæði sundlauga og annarra íþróttamannvirkja, sem ekki teljast til húsnæðis.

Kemur síðan fram að virðisaukaskattur fæst ekki endurgreiddur af eftirtöldu:

 1. Vinnu veitufyrirtækja við lagnir að og frá íbúðar- og frístundahúsnæði eða mannvirki.
 2. Vinnu við sameiginlegar framkvæmdir á skipulögðu svæði fyrir frístundabyggð, s.s. vega­framkvæmdir, lagningu girðingar umhverfis frístundabyggð o.fl. hliðstæðar framkvæmdir.
 3. Vinnu stjórnenda skráningarskyldra ökutækja, stjórnenda farandvinnuvéla og vinnuvéla, sem skráningarskyldar eru í vinnuvélaskrá, á byggingarstað.
 4. Vinnu sem unnin er á verkstæði, þó ekki vinnu á verkstæði skv. f-lið 1. mgr. 1. gr.
 5. Vinnu sem unnin er með vélum sem settar eru upp á byggingarstað til aðvinnslu á vöru eða efni til byggingar, viðhalds eða endurbóta á íbúðar- og frístundahúsnæði eða mannvirki ef þessi vinna er að jafnaði unnin á verkstæði eða í verksmiðju.
 6. Reglulegri umhirðu fólksbifreiðar eða minniháttar viðhaldi hennar, s.s. ábyrgðarskoðun, tjónamati, ástandsskoðun, hjólbarðaviðgerðum, hjólbarðaskiptum, smurþjónustu, þrifum og bóni.
 7. Ástandsskoðun fasteigna, matsgerðum og gerð útboðsgagna.
 8. Gerð deiliskipulags.

Nánari upplýsingar má finna í samantekt sambandsins á stöðu aðgerða í aðgerðarpökkum 1 og 2 vegna COVID-19 sem varða sveitarfélögin.