Sveitarfélög á leiðinni í mark

Samband íslenskra sveitarfélaga framkvæmdi nýlega könnun á úrgangsstjórnun sveitarfélaga. Könnunin er gerð í ljósi þess að um áramótin komu til framkvæmda ýmis ákvæði laga nr. 103/2021 sem sett voru vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis þar sem sveitarfélög gegna lykilhlutverki.

Heilt yfir má sjá á niðurstöðum könnunarinnar að öll sveitarfélög eru að vinna að innleiðingu nýju laganna með einum eða öðrum hætti en eru komin mis langt. Könnunin var framhald af fyrri könnunum sem framkvæmdar voru haustið 2021 og sumarið 2022.

Könnunin var unnin í tengslum við átakið Samtaka um hringrásarhagkerfi sem sambandið ýtti úr vör með aðstoð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Markmið átaksins er að aðstoða sveitarfélög við að innleiða nýleg lagaákvæði. Tilgangur könnunarinnar var að fá yfirlit yfir stöðu og viðhorf til innleiðingarinnar hjá sveitarfélögum. Niðurstöður verða nýttar til að þróa næstu skref átaksins og gefa þær jafnframt vísbendingar um hverskonar stuðning sveitarfélögin vilja sjá frá sambandinu.

Upplýsingar um stöðu málaflokksins hjá sveitarfélögum liggur ljós fyrir og hefur verið könnuð með markvissum hætti á síðustu árum. Benda má á að engin sambærileg könnun hefur legið fyrir um stöðu innleiðingar ákvæða laga nr. 103/2021 hjá atvinnulífinu en við gildistöku þeirra er sett ríkari kröfur á lögaðila til flokkunar úrgangs sem til fellur frá þeirra starfsemi.

Helstu ályktanir út frá niðurstöðum

Stefnumótun og samþykktir

  • Í niðurstöðum könnunarinnar kemur í ljós að 23 sveitarfélög vinna eftir svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs sem er í gildi af þeim 57 sveitarfélögum sem svöruðu þeim hluta könnunarinnar. 20 sveitarfélög vinna að gerð nýrrar svæðisáætlunar eða hafa hana tilbúna til samþykktar sveitarstjórnar og einungis 6 sveitarfélög undirbúa gerð svæðisáætlunar eða hafa ekki hafið hana.
  • Langflest sveitarfélög, eða 29, hafa farið í vinnu við að endurskoða samþykkt um meðhöndlun úrgangs en 8 af þeim vinna nú þegar samkvæmt nýrri samþykkt.
  • Flest sveitarfélög hafa hafið undirbúning að innleiðingu breytts fyrirkomulags við innheimtu, Borgað þegar hent er, eða 30 af 57 og búast við að taka upp nýja gjaldheimtu samkvæmt kerfinu á árinu 2023 eða 2024. Þegar könnunin var send út innheimtu 8 sveitarfélög nú þegar eftir Borgað þegar hent er kerfi.

Sérstök söfnun

  • 74% sveitarfélaga segja að sveitarstjórn sé hlynnt samræmdri flokkun yfir landið allt, eða 42 af þeim 57 sem svöruðu.
  • Lífúrgangi er safnað við heimili í þéttbýli í 25 af 40 sveitarfélögum og 17 þeirra bjóða upp á slíka söfnun í dreifbýli. Sveitarfélög eru því í einhverjum tilfellum að fara aðrar leiðir í sérstakri söfnun í dreifbýli eins og lög um meðhöndlun úrgangs bjóða upp á. Einungis 15 sveitarfélög svara því til að söfnun á lífúrgangi fari fram hjá fyrirtækjum í sveitarfélaginu. Fyrirtæki bera ábyrgð á því að söfnun á lífúrgangi sem fellur til í starfsseminni eigi sér stað en sama ábyrgð hvílir á þeim og sveitarfélögum við að koma upp sérstakri söfnun heimilisúrgangs.
  • Söfnun á textíl skal samkvæmt núgildandi lögum fara fram á grenndarstöðvum. Samkvæmt könnuninni er textíl safnað á söfnunarstöðvum á 24 af 40 sveitarfélögum sem tóku þátt í könnuninni og 8 sveitarfélög safna textíl á grenndarstöðvum. Hjá 13 sveitarfélögum fer söfnun á textíl alfarið fram á vegum góðgerðarsamtaka. 

Úrvinnslusjóður

  • Frá áramótum á Úrvinnslusjóður samkvæmt lögum um úrvinnslugjald að greiða fyrir sérstaka söfnun á pappír og pappa, plasti, gleri, málmum, viði, spilliefnum og öðrum umbúðum og vörum sem bera úrvinnslugjald. Sveitarfélög hafa flest kynnt sér kostnaðarþátttöku Úrvinnslusjóðs í úrgangsstjórnun sveitarfélaga eða 35 af 40 sveitarfélögum sem svöruðu og 12 þeirra höfðu kortlagt sérstaklega kostnað vegna sérstakrar söfnunar og hvaða tekjur ættu að skila sér til sveitarfélagsins vegna hennar.
  • Úrvinnslusjóður greiðir skráðum þjónustuaðilum Úrvinnslusjóðs fyrir ráðstöfun úrgangs og flutning. Sveitarfélög geta orðið þjónustuaðilar Úrvinnslusjóðs og fengið greiðslurnar beint til sín. Í könnuninni kemur í ljós að sveitarfélög fá allajafna ekki greiðslur frá Úrvinnslusjóði beint til sín vegna ráðstöfunar og flutning úrgangs sem fellur til í viðkomandi sveitarfélagi. Einungis 5 sveitarfélög segjast fá þessar greiðslur af þeim 40 sveitarfélög sem svöruðu. Í 5 sveitarfélögum er ekki vitað hvernig þessum greiðslum er háttað. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar virðast sveitarfélög ekki upplýst um hversu háar upphæðirnar eru sem berast verktaka vegna úrgangs á ábyrgð sveitarfélagsins og erfitt getur reynst að sækja þær upplýsingar. Hjá 3 sveitarfélögum hafði verktaki ekki deilt upplýsingum um tekjur frá Úrvinnslusjóði vegna úrgangs í sveitarfélaginu þrátt fyrir að eftir því hafi verið leitað. Hjá einungis 6 sveitarfélögum voru greiðslur Úrvinnslusjóðs sérstaklega tilgreindar við útboð.  

Innviðir

  • Könnunin sýndi að mannafla skortir til að sinna málaflokknum innan sveitarfélaga. Af þeim 40 sveitarfélögum sem svöruðu könnuninni var úrgangsstjórnun í sveitarfélaginu sinnt sem hluti af stöðugildi í rúmum helmingi þeirra, eða hjá 22 sveitarfélögum. Auk þess sem enginn bar formlega ábyrgð á málaflokknum hjá 7 sveitarfélögum eða 17,5% af þeim sem svöruðu. Þetta hlutfall var 30% í könnuninni frá 2022 svo að líklega hafa sveitarfélög verið að bæta við starfsfólki til að koma til móts við aukin verkefni með tilkomu nýju laganna.  
  • Skipulag og hönnun byggðar skiptir máli þegar kemur að því að styðja við flokkun og skil á úrgangi. 25 af 40 sveitarfélögum segja að gert sé ráð fyrir flokkun á fjórum flokkum við heimili í þéttbýli við skipulag og hönnun nýrrar byggðar. Einungis 14 sveitarfélög segja að gert sé ráð fyrir nýjum grenndarstöðvum við skipulag nýrra svæða og hjá 4 sveitarfélögum er gert ráð fyrir aðkomuleiðum hirðubíla eins og neyðarbíla á skipulagsuppdráttum.

Framkvæmd könnunarinnar

Könnunin stóð yfir frá 13. mars til 5. maí síðastliðinn og var send til allra sveitarfélaga í þremur hlutum vegna umfangs hennar. Óskað var eftir einu svari við könnuninni frá hverju sveitarfélagi, þá helst frá þeim fulltrúa sveitarfélagsins sem þekkir best til úrgangsstjórnunar viðkomandi sveitarfélags.

Alls bárust svör frá 55 sveitarfélögum í einn eða fleiri hluta könnunarinnar. Svarhlutfallið var 83% í fyrsta hluta sem sneri að stefnumótun og samþykktum sveitarfélaga, 73% í öðrum hluta þar sem var m.a. könnuð innleiðing á breyttri innheimtu samkvæmt Borgað þegar hent er aðferðarfræði og 63% í þriðja og síðasta hluta þar sem sjónum var beint að sérstakri söfnun, innkaupum og kostnaðarþátttöku Úrvinnslusjóðs.

Hér má lesa niðurstöður könnunarinnar í heild sinni.