Niðurstöður könnunar benda til skorts á yfirsýn í úrgangs- og loftslagsmálum

Samband íslenskra sveitarfélaga framkvæmdi nýlega könnun á ýmsum þáttum tengdum tveimur af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Annars vegar heimsmarkmið 12 er fjallar um neyslu og úrgang og hins vegar markmið 13 um loftslagsmál.

Heilt yfir má lesa út úr niðurstöðum könnunarinnar að sveitarstjórnir vilja gera vel í úrgangs- og loftslagsmálum og hafa gert það. Þar er þó ekki öll sagan sögð því í ljós kom að víða skortir á yfirsýn í úrgangs og l0ftslagsmálum.

Helstu ályktanir út frá niðurstöðum

Svo virðist hins vegar að í sumum tilfellum vanti meiri yfirsýn, stuðning og fræðslu um þá ábyrgð sem á þeim hvílir og þekkingu um þær bjargir sem til staðar eru til að ná markmiðum og uppfylla lagakröfur.

Það vekur sérstaka athygli hversu víða virðist vanta yfirsýn yfir stöðu áætlanagerðar, þ.e. gerð svæðisáætlana fyrir meðhöndun úrgangs og brunavarnaráætlana. Báðar þessar áætlanir er skylt að vinna skv. lögum og eiga þær að liggja til grundvallar í allri vinnu í málaflokkunum. Miklar brotalamir eru samt á að þessar áætlanir séu gerðar og uppfærðar og leiðir könnunin í ljós ákveðið ofmat meðal svarenda varðandi það að þessar áætlanir séu til og í gildi.

Tækifæri eru til að vinna markvisst að úrbótum, auka hagkvæmni og ná betri árangri í úrgangs- og loftslagsmálum í gegnum slíkar áætlanir. Ljóst er að lítill tími er til stefnu til að ná nýlegum lagakröfum m.a. um sérsöfnun úrgangs og gerð loftslagsstefna í rekstri sveitarfélaga og almenningur kallar eftir auknum aðgerðum og samræmingu hvað varðar bæði úrgangs- og loftslagsmál. Þörf er á markvissari fræðslu og stuðningi í þessum málaflokkum ef þeim á að takast vel upp. 

Framkvæmd

Könnunin stóð yfir frá 22. september til 21. október síðastliðinn og var send til allra sveitarfélaga, framkvæmdarstjóra sveitarfélaga og tengiliða Samstarfsvettvangs sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmiðin. Óskað var eftir einu svari við könnuninni frá hverju sveitarfélagi og þá helst frá þeim fulltrúa sveitarfélagsins sem þekkir best til viðkomandi málaflokka. Alls svöruðu 48 sveitarfélög og var svarhlutfallið því um 70%.

Tilgangur

Könnunin var unnin í tengslum við fyrrnefndan samstarfsvettvang sveitarfélaga og mun gagnast í áframhaldandi vinnu við að þróun mælikvarða fyrir viðkomandi heimsmarkmið. Hún var jafnframt gerð í ljósi þeirra breytinga sem framundan eru vegna nýlegra lagabreytinga í bæði loftslags- og úrgangsmálum.

Þær helstu eru að í júní árið 2019 var sveitarstjórnum gert skylt að móta og samþykkja loftslagsstefnu fyrir sinn rekstur samkvæmt breytingu á lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál. Miðað er við að þeirri vinnu sé lokið í lok árs 2021. Einnig tóku gildi í júní í ár lög nr. 103/2021 sem fela í sér innleiðingu Evróputilskipana sem er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis. Lögin eru viðamikil og leggja auknar skyldur á sveitarfélög um úrgangsstjórnun og meðhöndlun úrgangs sem flestar eiga að vera komnar til framkvæmda fyrir 1. janúar 2023. Mikilvægt er því að fyrir liggi upplýsingar um stöðuna í málaflokknum hjá sveitarfélögum.

 • Flest sveitarfélög hafa gripið til ráðstafana til að lágmarka matarsóun en færri hafa innleitt vistvæna innkaupastefnu eða notað vistvæn innkaupaviðmið í innkaupum á þeirra vegum.
 • Í heildina telja 26 sveitarfélög sig hafa í gildi svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs en skv. upplýsingum Umhverfisstofnunar er einungis ein svæðisáætlun í gildi sem nær yfir 18 sveitarfélög.
 • Alls höfðu átta sveitarfélög ekki sett sér samþykkt um meðhöndlun úrgangs.
 • 77% þeirra sveitarfélaga sem svara telja að tekjur af gjöldum vegna meðhöndlunar úrgangs (sorphirðugjald) standi ekki að fullu undir kostnaði vegna meðhöndlunar úrgangs í sveitarfélaginu eins og lagt er upp með í lögum.
 • Rúmur helmingur svarenda (56%) telur kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélagsins hafa nokkuð mikla eða mjög mikla yfirsýn yfir magn og endurvinnsluhlutfall þess úrgangs sem til fellur í sveitarfélaginu.
 • Einungis átta sveitarfélög telja sig hafa innleitt Borgaðu-þegar-þú-hendir aðferðina við innheimtu sem nýleg lagabreyting gerir ráð fyrir að öll sveitarfélög verði búin að gera fyrir 1. janúar 2023.
 • 26 sveitarfélög segjast hafa hafið sérsöfnun úrgangs skv. núgildandi lögum en 28 sveitarfélög telja nokkuð líklegt eða mjög líklegt að þau þurfi að breyta fyrirkomulagi sérsöfnunar vegna nýju laganna.
 • Langflest sveitarfélög eru sammála eða mjög sammála því að þörf sé á að koma upp hátækni brennslustöð á Íslandi á næstu árum, til að tryggja farveg fyrir brennanlegan úrgang, eða 37 þeirra sem svöruðu. Einungis eitt sveitarfélag telur svo ekki vera.
 • Tæpur helmingur þeirra sem svöruðu, 22 sveitarfélög, hafa hafið innleiðingu samræmdra merkinga FENÚR fyrir flokkun og skil á úrgangi.

 • Ellefu af þeim sem svara hafa lagt mat á losun gróðurhúsalofttegunda í sveitarfélaginu, þ.e. unnið losunarbókhald og fjögur hafa unnið annars konar mat á losun. Flestir af þessum aðilum hafa lagt mat á losun frá eigin rekstri eða þrettán sveitarfélög.
 • Einungis fjögur af þeim sveitarfélögum sem svara telja sig hafa uppfyllt lagakröfur um gerð stefnu og aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum fyrir sinn rekstur og tvö sveitarfélög hafa unnið slíkt fyrir samfélagslega losun á sínu svæði.
 • Fjögur sveitarfélög hafa samþykkt og innleitt stefnu og aðgerðir til aðlögunar loftslagsbreytingum og tíu sveitarfélög svara því játandi að það liggi fyrir áhættumat gagnvart náttúruvá vegna loftslagsbreytinga.
 • Tvö sveitarfélög eru aðilar að Evrópsku samtökunum Covenant of Mayors for Climate and Energy.
 • Í aðalskipulagsáætlunum 18 sveitarfélaga sem svöruðu könnuninni er að finna umfjöllun um kolefnisbindingu og í 26 þeirra umfjöllun um loftslagsvænar samgöngur.
 • Langflest sveitarfélög sem svöruðu könnuninni telja sig vera aðilar að brunavarnaráætlun eða 38 af þeim 48 sem svöruðu. Rétt er að benda á að skv. skýrslu starfshóps um brunamál frá 2020 kemur fram að af þeim 39 aðilum sem ber að skila brunavarnaráætlunum hafa einungis 15 gilda áætlun.