Innkaup sveitarfélaga í anda hringrásarhagkerfis

Sniðmát af útboðslýsingu, innkaupasamningi og tilboðshefti fyrir sérstaka söfnun og þjónustu grenndarstöðva er nú aðgengilegt öllum sveitarfélögum og ráðgjöfum þeirra.

Sniðmát af útboðslýsingu, innkaupasamningi og tilboðshefti fyrir sérstaka söfnun og þjónustu grenndarstöðva er nú aðgengilegt öllum sveitarfélögum og ráðgjöfum þeirra. Gögnin eru afurð innkaupahluta átaksins Samtaka um hringrásarhagkerfi sem Samband íslenskra sveitarfélaga setti á fót í mars með aðstoð umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins. Átakið snýst um að aðstoða sveitarfélög við að innleiða ýmsar breytingar á úrgangsstjórnun á þeirra ábyrgð vegna nýrra krafna sem voru innleiddar í íslenskt regluverk í júní 2021 vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis og koma til framkvæmda 1. janúar 2023. 

Sniðmátin er að finna á vefsíðu átaksins Samtaka um hringrásarhagkerfi á vef sambandsins.

Ráðgjafafyrirtækið VSÓ vann gögnin með aðstoð fyrirtækisins Consensa auk þess sem ráðgjafafyrirtækið EFLA og Innkaupaskrifstofa Reykjavíkurborgar las yfir gögnin. Til hliðsjónar við vinnuna var m.a. unnið út frá umræðum á þeim fjölmörgu fundum sem hafa verið á vegum átaksins, þar á meðal sérstakrar vinnustofu á vegum sambandsins um innkaupamál 31. maí. Einnig var horft til sambærilegra vinnu í nágrannalöndunum, þá sérstaklega leiðbeiningar og sniðmát sem býðst sænskum sveitarfélögum. Vinna að sniðmátum fyrir meðhöndlun endurvinnsluefna og rekstur móttöku-  og söfnunarstöðva stendur enn yfir.

Sveitarfélög taka ákvörðun um hvort þau sinna sjálf eða útvista verkefnum á þeirra vegum, þ.m.t. í hirðu og annarri meðhöndlun úrgangs. Framkvæmd innkaupa, útboða og samninga um verkefnin eru mikilvægir hlekkir í því að ná markmiðum og tryggja að rekstur og þjónusta sé eins og sveitarfélag ákveður. Útboðsgögn og samninga þarf að vinna í takt við áherslur viðkomandi sveitarfélags og þá ábyrgð sem það ber samkvæmt lögum. Ólíkt er á milli sveitarfélaga hvaða þættir eru á hendi sveitarfélagsins og hvað er boðið út en ábyrgð sveitarfélaga á meðhöndlun úrgangs fellur ekki niður þó að hluta þjónustunnar sé útvistað og sinnt af þjónustuaðilum. Í niðurstöðum könnunar sambandsins á meðal sveitarfélaga frá því í sumar kom fram að 42 af 43 sveitarfélögum sem svöruðu könnuninni buðu út hriðu úrgangs við heimili.

Innkaupahluti átaksins Samtaka um hringrásarhagkerfi snýr að innkaupum sveitarfélaga á þjónustu, vörum og framkvæmdum í úrgangsmálum og var sveitarfélögum í byrjun árs boðið að taka þátt. Lögð hefur verið áhersla á að styðja sveitarfélög í upplýstri ákvarðanatöku í tengslum við innkaup fyrir meðhöndlun úrgangs þannig að innkaup á þeirra vegum miði að því að sveitarfélög nái að uppfylla skyldur sínar og nái markmiðum um meðhöndlun úrgangs. Einnig var áhersla á aukið samstarf sveitarfélaga í innkaupamálum auk hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og eflingar nýsköpunar og þróunar við innkaup sveitarfélaga í úrgangsmálum.