XXXV. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga fór fram í dag og var það í fyrsta sinn sem landþing fór fram í fjarfundi. Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins, setti landsþingið og sendi hún hlýjar kveðjur til íbúa austur á landi er takast á við afleiðingar náttúruafla.
Í ávarpi hennar við þingsetningu fór hún yfir mikilvægi sveitarstjórnarstigsins og nauðsyn eflingar þess.
Ráðherra sveitarstjórnarmála ávarpaði landsþingið og svaraði spurningum landsþingsfulltrúa ásamt fjármála- og efnahagsráðherra. Áherslur sveitarstjórnarmanna voru sérstaklega á frumvarp sveitarstjórnarráðherra um breytingu á sveitarstjórnarlögum þar sem meðal annars er kveðið á um lágmarksíbúafjölda og um mikilvægi þess að tryggja sveitarfélögum fjármagn til að halda úti lögbundinni þjónustu þar tekjur sveitarfélaga hafa skerst verulega í kjörfar covid-19.
Í almennum umræðum var eitt mál á dagskrá en það var tillaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins og hvort rétt sé að lögfesta ákvæði um lágmarksíbúafjölda í sveitarstjórnarlög. Á landsþingi sambandsins í september 2019 var samþykkt að mæla með samþykkt þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaráætlun fyrir árin 2019-2023 en þar kom fram að lögfesta ætti ákvæði um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum.
Greitt var atkvæði um eina tillögu og var hún svohljóðandi:
„Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga haldið 18. desember 2020, hvetur til eflingar sveitarstjórnarstigsins með sameiningum og stækkun sveitarfélaga. Þingið ítrekar stuðning við flest meginatriði stefnumótandi áætlunar um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem Alþingi hefur samþykkt. Landsþing minnir á mikilvæga liði í aðgerðaáætlun sem ekki er farið að vinna að, svo sem um styrkingu tekjustofna sveitarfélaga, tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og fleiri mikilvæg atriði tillögunnar. Landsþing hafnar þó lögfestingu íbúalágmarks. Sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga og lýðræðislegan rétt íbúa sveitarfélaga ber að virða, óháð stærð þeirra.“
Niðurstaða atkvæðagreiðslu var að tillagan var felld með 67 atkvæðum gegn 54 og því stendur enn fyrri samþykkt landsþings frá 2019 um stuðning við þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033.
Að lokum tók Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins, til máls og ítrekaði að frumvarp til styrkingar sveitarstjórnarstigsins hafi verið lagt fram á Alþingi og er það því nú í höndum alþingismanna að taka ákvörðun um framhaldið.