Sveitarfélög standa frammi fyrir miklum áskorunum í uppbyggingarmálum í tengslum við húsnæði. Fjallað var um þessar áskoranir á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í morgun.
Í erindi Haraldar Sverrissonar, fyrrverandi bæjarstjóra Mosfellsbæjar, sem bar yfirskriftina Áskoranir í uppbyggingarmálum – Reynsla Mosfellsbæjar fjallaði hann um kostnað sem fylgir uppbyggingu innviða í nýjum hverfum. Almennt væri það svo að ekki borgaði sig fyrir sveitarfélög að byggja upp ný hverfi því uppbyggingin væri ekki sjálfbær ef ekki kæmu greiðslur umfram gatnagerðargjöld.
Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga sem gerir ráð fyrir 35 þúsund nýjum íbúðum á næsta áratugi kallaði á skoðun nýrra lausna þegar kemur að úthlutun lóða til að tryggja fjármögnun við uppbyggingu innviða í nýjum hverfum á borð við leikskóla, skóla, íþróttamannvirkja.
Þær leiðir sem sveitarfélög gætu farið væri að:
- Draga úr þjónustu og þar með rekstrarkostnaði til að auka framlegð sveitarfélaga
- Uppbyggingarsamningar eða byggingarréttargjöld til að auka tekjur sveitarfélaga af lóðasölu
- Lagabreytingar sem tryggja sveitarfélögum rétt til að innheimta innviðagjöld
Leið Mosfellsbæjar hafi verið að gera uppbyggingarsamninga sem tryggi fjármuni umfram gatnagerðargjöld til að standa undir uppbyggingu innviða nýrra hverfa. Nefndi Haraldur að í samningi sem gerður var vegna uppbyggingu Blikastaðalands í Mosfellsbæ í vor við eiganda landsins væri gert ráð fyrir 3500 nýjum íbúðum á allt að 20 ára framkvæmdatíma.
Í samningnum væri horft til:
- Byggingarréttargjalds sem næmi sem milljörðum króna.
- Framlagi til byggingar íþróttamannvirkja fyrir enn milljarð króna.
- Lóðaréttindi sem falla til Mosfellsbæjar að verðmæti þriggja milljarða króna
Samtals færu því um 10 milljarðar til Mosfellsbæjar, eða um 2,8 milljónir króna fyrir hverja íbúðareiningu. Allar lóðir yrðu svo eign Mosfellsbæjar og bærinn myndi innheimta lóðaleigu. Með þessum samningi væri hægt að tryggja örugga uppbyggingu bæjarins næstu áratugina.
Hægt er að fylgjast með beinu streymi frá fjámálaráðstefnu á vef ráðstefnunnar og upptökur verða aðgengilegar um leið og ráðstefnunni lýkur.