Vinnusmiðjur verða í boði fyrir hvert svæði eða sveitarfélag á tímabilinu mars til júní 2022. Vinnusmiðjurnar eru ætlaðar bæði kjörnum fulltrúum og lykilstarfsfólki sveitarfélaganna en einnig ráðgjöfum sem sveitarfélögin hafa á sínum vegum. Hver vinnusmiðja stendur í um 3-4 klst. og getur verið hvort sem er á staðfundi eða fjarfundi, eftir því sem best hentar hverju sinni. Á henni fer m.a. fram fræðsla um þær umfangsmiklu breytingar sem urðu í júní 2021 á ýmsum lögum sem tengjast úrgangsmálum og koma flestar til framkvæmda 1. janúar 2023.
Breytingunum er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs. Auk fræðslunnar verður kynnt lágmarksstöðumat á viðkomandi svæði (sbr. tölulið 1 hér að framan) á magni úrgangs í einstökum flokkum, fyrirkomulagi söfnunar, afdrifum úrgangs, gjaldtöku o.fl. sem máli skiptir í úrgangsmálum svæðisins.
Vinnustofan endar með stýrðu samtali um stöðu, markmið og mögulegar aðgerðir sem þarf að ráðast í til að tryggja að markmiðum í málaflokknum verði náð og til að skapa og viðhalda hagkvæmri og góðri þjónustu við íbúa og atvinnulíf á svæðinu með sem mestum umhverfislegum ávinningi. Að vinnusmiðju lokinni fær hvert sveitarfélag sem tók þátt, greinargerð um helstu niðurstöður samtalsins og næstu skref í svæðisáætlunarvinnunni.
(Á þessari síðu má finna:)
- Fundargerðir
- Upptökur
- Auglýsingar
- Tilkynningar