Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Markmiðin, sem gilda á tímabilinu 2016-2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs. Aðalsmerki heimsmarkmiðanna er að þau eru algild og því hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra.
Sveitarfélögin hafa metnað til að stíga stóru skrefin í að vinna að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og uppfylla Parísarsamninginn um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, auk þess að aðlaga íslenskt samfélag að þeim breytingum sem þegar hafa átt sér stað og fyrirséðar eru vegna loftslagsbreytinga.
Til þess að vinna að framgangi þessara mála var samstarfsvettvangur sveitarfélaga um loftslagsmál og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun settur á laggirnar þann 19. júní 2019. Samstarfsvettvangnum er ætlað að efla og styrkja sveitarfélögin til samstöðu og samtals um þessa málaflokka.
Verkfærakista um innleiðingu sveitarfélaga á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er nú aðgengileg öllum sveitarfélögum. Henni er ætlað að vera sveitarfélögum til leiðbeiningar um hvernig þau geta lagt sitt af mörkum til að vinna að heimsmarkmiðunum.
Verkfærakistan var unnin fyrir hönd verkefnastjórnar stjórnvalda um heimsmarkmiðin í nánu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og samstarfssvettvang ríkis og sveitarfélaga um heimsmarkmiðin.
Verkfærakistan setur fram fimm skref sem er ætlað að leiðbeina sveitarfélögum við að vinna markvisst að innleiðingu heimsmarkmiðanna. Kistan byggist á erlendum fyrirmyndum auk dæma frá Íslandi. Listinn yfir aðgerðir við innleiðingu heimsmarkmiðanna í sveitarfélögum er ekki tæmandi, heldur er tilgangurinn að leggja til leiðir og gefa hugmyndir að hagnýtum aðferðum við að nálgast markmiðin, tengja við markmiðsetningu sveitarfélaga og efla um leið sjálfbæra þróun í daglegri starfsemi.
Þá er að finna á vef Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á Íslandi yfirlit yfir verkefni tengd innleiðingu heimsmarkmiðana hér á landi. Sveitarfélög eru hvött til að skrá sín markmið um sjálfbæra þróun og aðgerðir tengdum heimsmarkmiðunum.
Árið 2021 fékk sambandið styrk úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að fara í 6 mánaða verkefni til að fylgja verkfærakistunni eftir. Öll sveitarfélög áttu þess kost að taka þátt í verkefninu og tæplega helmingur þeirra var með í því. Um 20 sveitarfélög, sem voru á byrjunarreit gagnvart markmiðunum, fengu grunnfræðslu um innleiðingu og ráðgjafarstuðning. Þau 10 sveitarfélög sem voru komin lengra á veg miðluðu þekkingu og reynslu sín á milli og til byrjendanna.
Listi yfir sveitarfélög sem tóku þátt
Hópur 1 – grunnstuðningur | Hópur 2 – lengra komin |
Reykjavíkurborg | Kópavogsbær |
Sveitarfélagið Kjósarhreppur | Garðabær |
Akraneskaupstaður | Mosfellsbær |
Borgarbyggð | Hafnarfjarðarkaupstaður |
Vesturbyggð | Fjarðabyggð |
Blönduósbær | Sveitarfélagið Hornafjörður |
Húnavatnshreppur | Flóahreppur |
Húnaþing vestra | Reykjanesbær |
Sveitarfélagið Skagafjörður | Skútustaðahreppur |
Fjallabyggð | Skaftárhreppur |
Grýtubakkahreppur | |
Múlaþing | |
Skeiða- og Gnúpverjahreppur | |
Bláskógabyggð | |
Hraunmannahreppur | |
Grímsnes- og Grafningshreppur | |
Hveragerði | |
Suðurnesjabær |
Mikilvægt er fyrir sveitarfélög að þau geti metið hvort áætlanir og stefnumörkun hafi skilað tilætluðum árangri. Með innleiðingu mælikvarða fyrir heimsmarkmiðin er hægt að meta hvort þær aðgerðir sem gripið er til skili þeim árangri sem til er ætlast.
Á vefsíðu Hagstofu Íslands er að finna tölulegar upplýsingar sem gefa til kynna hvernig Íslandi miðar við innleiðingu heimsmarkmiðanna. Til þess að tölulegar upplýsingar sem þessar geti nýst sveitarfélögum við stefnumótun og áætlanagerð í tengslum við innleiðingu heimsmarkmiðanna er nauðsynlegt að til séu tölulegar upplýsingar sem skipt er niður á sveitarfélög og/eða landssvæði. Um þessar mundir fer fram vinna við að greina hvort og þá hvaða tölulegar upplýsingar Hagstofu Íslands er hægt að skipta niður á sveitarfélög og/eða landssvæði og hvort hægt sé að búa til grunn-mælikvarðasett fyrir sveitarfélög í tengslum við innleiðingu heimsmarkmiðanna. Þessi vinna er unnin af Hagstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kópavogsbæ, í nánu samstarfi við samstarfssvettvang ríkis og sveitarfélaga um heimsmarkmiðin.
Loftslagsmálin skipa stóran sess í innleiðingu heimsmarkmiðanna. Kolefnisbókhald sveitarfélaga er forsenda þess að sveitarfélög geti skoðað hverjar helstu losunaruppsprettur gróðurhúsalofttegunda eru og einbeitt sér að þeim stærstu. Einnig geta þau fylgst með árangri þeirra aðgerða sem þau ráðast í. Kolefnisbókhald er forsenda þess að sveitarfélög geti útbúið markvissar loftslagsáætlanir. Sveitarstjórnir skulu samþykkja loftslagsstefnu fyrir lok árs 2021 samkvæmt breytingu á lögum um loftslagsmál 14. júní 2019. Samstarfsvettvangnum er meðal annars ætlað að aðstoða við gerð loftslagsáætlana sveitarfélaga.