Leiðbeinandi viðmið fyrir laun kjörinna fulltrúa

Eftirfarandi viðmiðunartafla er unnin á grundvelli stefnumörkunar sambandsins 2014–2018, en þar var sambandinu falið verkefni er varðar laun og starfsumhverfi kjörinna fulltrúa. Markmiðið var nr. 3.1.4 í stefnumörkuninni og hljóðaði svo:

„Sambandið skal hlutast til um að gerð verði úttekt á kjörum og starfsumhverfi kjörinna fulltrúa og ástæðum mikillar endurnýjunar í þeirra röðum. Á grundvelli hennar verði lagðar fram tillögur til úrbóta og að leiðbeinandi viðmiðum.“

Úttektin var unnin 2015-2016 og þann 24. júní 2016 samþykkti stjórn sambandsins eftirfarandi viðmið og hafa þessi viðmið verið í gildi frá þeim tíma.

% af þingfararkaupi% af þingfararkaupi
ÍbúafjöldiNeðri mörkEfri mörkKlst. til viðm.
0-2002,24%6,73%5-15 klst.
201-5005,39%9,88%12-22 klst.
501-1.5008,53%13,02%19-29 klst.
1.501-3.00011,67%16,16%26-36 klst.
3.001-5.00014,82%19,31%33-43 klst.
5.001-10.00017,96%22,45%40-50 klst.
10.001-15.00021,10%25,59%47-57 klst.
15.001-50.00024,24%28,73%54-64 klst.

Viðmiðunarlaunataflan byggir á hlutfalli af þingfararkaupi. Þingfarakaup frá 1. janúar 2024 er 1.459.841 kr. en hægt er að nálgast upplýsingar um þingfarararkaup á vef Alþingis. Skv. lögum um þingfararkaup.

Ætla má að vinnuframlag sveitarstjórnarmanna aukist í samræmi við íbúafjölda og því sé eðlilegt að raða sveitarfélögunum eftir stærð í viðmiðunarlaunatöfluna. Vissulega geta fleiri þættir haft áhrif og þurfa sveitarstjórnir því að meta slíkt, þegar þær ákveða röðun viðkomandi sveitarfélags í töflunni. Þá getur verið hentugt að horfa á tímafjöldann sem liggur að baki þessum viðmiðum.

Áréttað er að viðmiðunarlaunataflan miðast við laun fyrir setu í sveitarstjórn án alls álags vegna oddvitastöðu í sveitarstjórn eða setu í nefndum sveitarfélagsins.

Það er algjörlega á hendi hverrar og einnar sveitarstjórnar hvort hún nýtir sér töfluna eða ekki.

Vel má sjá fyrir sér að sveitarstjórnir geti jafnframt notað viðmiðunarlaunatöfluna við ákvörðun á launum fyrir setu í nefndum sveitarfélaganna, eins og t.d. fyrir setu í bæjarráði, fræðsluráði og skipulags- og umhverfisráði. Þá þarf að meta vinnuframlagið inn í töfluna í hverju tilviki fyrir sig.