Stafrænt ráð sveitarfélaga

Í byrjun ágústmánaðar 2020 óskaði Samband íslenskra sveitarfélaga eftir því að við landshlutasamtök sveitarfélaga að tilnefna fulltrúa landshlutanna og Reykjavíkurborgar inn í stafrænt ráð til að styðja við stefnumótun og forgangsröðun um stafræna framþróun sveitarfélaga og að til verði samstarf sveitarfélaga á landsvísu um þau mál.

Í lok október 2020 hóf ráðið störf sín og hefur nú þegar fundað þrisvar sinnum.  Í ráðinu sitja:

 • Ásthildur Sturludóttir fyrir SSNE
 • Álfhildur Leifsdóttir fyrir SSNV
 • Sævar Freyr Þráinsson fyrir SSV
 • Óskar J. Sandholt fyrir Reykjavíkurborg
 • Aldís Stefánsdóttir fyrir SSH
 • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir fyrir SASS
 • Jónína Brynjólfsdóttir fyrir SASS
 • Valgerður Pálsdóttir fyrir SSS
 • Jón Páll Hreinsson fyrir FV
 • Ingimar Þór Friðriksson, fulltrúi faghóps um stafræna umbreytingu

Fjóla María Ágústsdóttir breytingarstjóri stafrænnar þróunar hjá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga starfar með ráðinu en á fyrsta fundi ráðsins var Sævar Freyr valinn formaður ráðsins.

Hlutverk ráðsins er að:

 • styrkja samstarf sambandsins við sveitarfélög um stafræna framþróun þeirra og styðja við vinnu sambandsins þar að lútandi.
 • skapa traustari grunn fyrir markvissa forgangsröðun samstarfsverkefna sveitarfélaga um stafræna framþróun og hagsmunagæslu sambandsins fyrir þeirra hönd, sérstaklega gagnvart ríki og hugbúnaðarfyrirtækjum.
 • stuðla að samhæfðri vinnu sveitarfélaga að stafrænni framþróun.

Helstu verkefni ráðsins eru eftirfarandi:

 • Taka þátt í undirbúningi stefnumörkunar sambandsins um stafræna framþróun sveitarfélaga og undirbúningi samstarfsverkefna sveitarfélaga.
 • Leggja mat á forgangsröðun stafrænna þróunarverkefna sveitarfélaganna og gera tillögur um forgangsröðun og stjórnunar- og fjármögnunarfyrirkomulag til stjórnar sambandsins.
 • Styðja við vinnu sambandsins er snýr að miðlægu samstarfi sveitarfélaga um stafræna þróun og vinnu þess að eftirfylgni samstarfsverkefna.
 • Vekja athygli á stafrænum málum sem ráðið telur að þarfnist úrlausnar.
 • Vera til ráðgjafar við undirbúning stærri viðburða sambandsins í sviði stafrænnar þróunar.
 • Styðja við umsagnagerð sambandsins um stefnumótun og laga- og reglugerðarsetningu ríkisins sem tengist stafrænni framþróun.

Auk þess starfar faghópur um stafræna umbreytingu innan sveitarfélaganna og er til stuðnings stafrænu ráði sveitarfélaga:

 • Í faghópnum eiga sæti faglegir fulltrúar landshlutanna og sérfræðingar sveitarfélaga í stafrænum málum. Hópurinn getur kallað til sérfræðinga í málaflokkum sveitarfélaga til að dekka ólík þekkingarsvið.
 • Meginhlutverk hópsins er að vera umræðuvettvangur um stafræna þróun sveitarfélaga og veita stafrænu ráði sveitarfélaga faglegan stuðning
 • Með tilliti til þess skulu fundir hópsins taka mið af fundum stafræna ráðsins.
 • Hópurinn aðstoðar við greiningu á stöðu stafrænna mála sveitarfélaga og hugmynda um sameiginleg verkefni sveitarfélaga. Hann skal stuðla að því að fyrir hendi sé yfirsýn yfir stafræna þróun sveitarfélaga og stafræn samstarfstækifæri.
 • Hópurinn getur sett fram tillögur að málum sem ráðið ætti að fjalla um.
 • Hópurinn aðstoðar við þekkingarmiðlun til sveitarfélaga, m.a. á stafraent.samband.is, og til stuðnings samvinnu sveitarfélaga í stafrænum málum.
 • Breytingastjóri stafrænnar framþróunar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur umsjón með starfi hópsins.