Persónuvernd – skref fyrir skref

Í leiðbeiningum um nýjar persónuverndarreglur sem sambandið birti á heimasíðu sinni í júlí 2017 og í endurbættu formi í nóvember sama ár, var mælt með að vinna sveitarfélaga við undirbúning hæfist sem fyrst væri hún ekki þegar komin af stað. Mælt var með því að hvert sveitarfélag setti saman teymi sem stýrði umræddu verkefni en einnig gætu sveitarfélög unnið saman að verkefninu. Í nóvember útgáfu af leiðbeiningum var vinna sveitarfélaga greind niður í fyrstu, næstu og lokaskref sem eru hér að neðan ásamt tímaramma sem sambandið telur hægt að vinna eftir miðað við áætlaða gildistöku nýrra laga 25. maí 2018.

Í leiðbeiningum er gert ráð fyrir að skipun persónuverndarfulltrúa sé í lokaskrefum og á eftir þarfagreiningu en einhver sveitarfélög kunna þó að vilja að skipa hann strax á fyrstu stigum. Sé það gert bendir sambandið á að rétt sé að viðkomandi hafi teymi sér til að aðstoðar við ferli og að tryggð séu skilyrði til að sinna þeirri vinnu sem krafin er af persónuverndarfulltrúa sbr. umfjöllun síðar.

Rétt er að geta þess að í kjölfar persónuverndardags sambandsins, sem haldinn var 1. desember 2017, hafa verið skipaðir tveir sérfræðingarhópar til að aðstoða sveitarfélög við undirbúning undir nýja persónuverndarlöggjöf. Annars vegar lögfræðingahópur undir forystu Bryndísar Gunnlaugsdóttur, lögfræðings hjá sambandinu, og hins vegar UT sérfræðinga hópur undir forystu Völu Drafnar Hauksdóttur, deildarstjóra tölvudeildar Garðabæjar. Geta sveitarfélög leitað til þessara hópa við undirbúning sinn.