Námsgagnasjóður var stofnaður á grundvelli laga um námsgögn nr. 71/2007 og hefur það hlutverk að leggja grunnskólum til fé til námsgagnakaupa. Með tilkomu sjóðsins er grunnskólum tryggt aukið svigrúm til námsgagnakaupa til viðbótar við úrval Menntamálastofnunar. Námsgögnin skulu samrýmast markmiðum aðalnámskrár grunnskóla og er óheimilt að verja fjármunum úr Námsgagnasjóði til búnaðar- og tækjakaupa. Úthlutun úr sjóðnum fór fyrst fram í nóvember 2007.
Stjórn Námsgagnasjóðs skipa:
- Sonja Dögg Pálsdóttir án tilnefningar, formaður
- Hlöðver Ingi Gunnarsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
- Anna Guðrún Jóhannesdóttir, tilnefnd af Kennarasambandi Íslands
Starfsmenn sjóðsins eru Anna Ingadóttir og Valgerður Freyja Ágústsdóttir
Námsgagnasjóður starfar skv. úthlutunarreglum Námsgagnasjóðs nr. 899/2016 og samþykktar voru 31. október 2016.
Samkomulag um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga var undirritað 5. október 2011. Eitt af þeim verkefnum sem samkvæmt samkomulaginu færðust frá ríki til sveitarfélaga var rekstur Námsgagnasjóðs. Umsýsla sjóðsins, sem frá stofnun sjóðsins hafði verið hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, færðist við undirritun samkomulagsins til Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Fjármunum sem eru til ráðstöfunar á ári hverju, að frátöldum umsýslukostnaði, er úthlutað til grunnskóla til námsgagnakaupa. Hlutdeild hvers grunnskóla ræðst af nemendafjölda á grundvelli nýjustu upplýsinga frá Hagstofu Íslands um fjölda skráðra nemenda í hverjum grunnskóla. Grunnskólar með 150 nemendur eða færri fá reiknað álag á hvern nemenda.
Rekstraraðilar grunnskóla bera ábyrgð á eftirfylgd með ráðstöfun fjármagns úr sjóðnum og er þeim ætlað að fylgjast með því að grunnskólar nýti fjármagnið samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins. Námsgagnasjóður getur kallað eftir gögnum um ráðstöfun úthlutunarfjár frá rekstraraðilum grunnskóla. Komi í ljós við eftirlit að grunnskóli hafi ráðstafað fjármunum úr Námsgagnasjóði til annars en heimilað er í úthlutunarreglum sjóðsins getur stjórn sjóðsins krafist endurgreiðslu.
Mennta- og menningarmálaráðherra skipar stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn. Einn stjórnarmaður er tilnefndur af Kennarasambandi Íslands og einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Einn stjórnarmaður er skipaður án tilnefningar af ráðherra og skal hann vera formaður.