Viðmiðunarreglur vegna leikskóladvalar utan lögheimilissveitarfélags

Samþykktar af stjórn sambandsins 27. janúar 2012

1.    gr.

Reglur þessar eiga eingöngu við þegar börn eru vistuð í leikskóla í öðru sveitarfélagi en lögheimilissveitarfélagi. Sveitarfélögum er í sjálfsvald sett hvort þau kjósa að nýta þessar viðmiðanir eða hafa þær til hliðsjónar við samninga sín á milli um tímabundna dvöl barns í leikskóla utan lögheimilissveitarfélags.

Ef sveitarfélag tekur að sér með reglubundnum hætti að vista börn annars sveitarfélags eða ef börn annarra sveitarfélaga eru vistuð með reglubundnum hætti í tilteknum leikskóla skal sérstaklega samið um greiðslur vegna þess á milli sveitarfélaganna.

Gera má ráð fyrir að ósk um leikskóladvöl fyrir barn utan lögheimilissveitarfélags stafi einkum af eftirfarandi ástæðum:

  1. barn flytur í annað sveitarfélag en foreldri [1] óskar eftir því að barnið sæki tímabundið leikskóla í sveitarfélagi þar sem það átti lögheimili fyrir flutning. 
  2. barn, sem vegna náms eða þingmennsku foreldra fjarri lögheimili, þarf á leikskóladvöl í öðru sveitarfélagi að halda. [2] 
  3. barni er ráðstafað tímabundið á fósturheimili samkvæmt ákvörðun barnaverndarnefndar.

2. gr.

Leikskólabörn skulu að jafnaði sækja leikskóla í því sveitarfélagi þar sem þau eiga lögheimili, hér eftir nefnt lögheimilissveitarfélag. Ef foreldri barns óskar eftir tímabundinni leikskóladvöl fyrir barnið í öðru sveitarfélagi, hér eftir nefnt viðtökusveitarfélag, skal send inn umsókn þess efnis og tilgreindar ástæður umsóknarinnar.

Hljóti umsóknin jákvæða afgreiðslu ber foreldri að óska eftir samþykki lögheimilissveitarfélags fyrir kostnaðarþátttöku vegna leikskóladvalar.

Sé umsókn synjað skal umsækjanda svarað sem fyrst og ástæður synjunar tilteknar.

3. gr.

Þegar heimild er veitt, skv. 2. grein, til tímabundinnar leikskóladvalar utan lögheimilissveitarfélags, skal semja um  greiðslur vegna hennar. Samband íslenskra sveitarfélaga ákveður sérstaka viðmiðunargjaldskrá [3] sem endurskoðuð er árlega og fylgir hún reglum þessum. Greiðslur vegna leikskólakostnaðar skulu inntar af hendi mánaðarlega fyrirfram fyrir hvern mánuð eða hluta úr mánuði sem barn er í leikskóla nema sveitarfélög semji sérstaklega um að hafa annan hátt á.

4. gr.

Í samskiptum sveitarfélaga vegna umsókna sbr. 1. gr. skal það vera meginregla að skoða beiðni um  leikskólavist frá öðru sveitarfélagi með sömu fyrirvörum og eiga almennt við um íbúa með lögheimili í sveitarfélaginu.

5. gr.

Komi upp ágreiningur um leikskóladvöl barns, þ.m.t. greiðslur vegna leikskóladvalar,  sem sveitarfélög geta ekki leyst sín á milli, er hægt að vísa ágreiningi til sérstakrar þriggja manna nefndar. Skilyrði þess að nefndin taki mál til umfjöllunar er að báðir deiluaðilar verði sammála um að vísa því til hennar til umsagnar.

Í nefndinni eiga sæti einn fulltrúi tilnefndur af hvoru sveitarfélagi og einn fulltrúi tilnefndur af sambandinu. Skólamálafulltrúi sambandsins er starfsmaður nefndarinnar.

Þegar nefndin fær mál til umfjöllunar aflar starfsmaður nefndarinnar nauðsynlegra gagna og kannar afstöðu viðkomandi sveitarfélaga til ágreiningsefnisins þ.á.m. hvort grundvöllur sé til sátta milli þeirra. Lýsi bæði sveitarfélögin því yfir að sættir hafi náðst eða samkomulag sé í augsýn getur nefndin lokið meðferð máls á þeim grundvelli. Það kemur þó ekki í veg fyrir að sama ágreiningsefni verði lagt fyrir nefndina á ný ef úrlausn þess gengur ekki eftir.

Sé sáttagrundvöllur ekki fyrir hendi gerir nefndin tillögu til úrlausnar ágreiningsefnisins. Tillagan skal rökstudd og sett fram með skýrum hætti. Tillaga nefndarinnar er ekki bindandi fyrir hlutaðeigandi sveitarfélög.

Um hæfi nefndarmanna fer skv. 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Heimildir


[1] Foreldri er hér notað yfir þá sem fara með forsjá barns skv. lögum
[2] sbr. 1 og 4. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990
[3] Sjá fylgiskjal með reglum þessum

Stjórn sambandsins samþykkti á fundi sínum þann 27. janúar 2012 nýjar viðmiðunarreglur vegna barna á leikskólum utan lögheimilissveitarfélags.

Meðalkostnaður á landinu við hvert leikskólapláss, m.v. átta tíma vistun með fæði, er lagður til grundvallar gjaldskránni (miðað við 11 mánuði). Sú fjárhæð fæst með því að vinna út frá heildarkostnaði við leikskóla sveitarfélaga eins og hann birtist í Árbók sveitarfélaga ár hvert. Inni í heildarkostnaði er beinn kostnaður við hvern leikskóla og þeir sameiginlegu liðir sem eru innan leikskólasviðs hvers sveitarfélags.  Sameiginlegum liðum innan fræðslusviðs er skipt niður í hlutfalli við heildarútgjöld hvers skólastigs. Hlutdeild leikskólans, í sameiginlegum liðum fræðslumála, er svo lögð við heildarkostnaðinn.  Inni í þessum tölum eru ekki einkareknir leikskólar.

Þá er heildarkostnaði (beinn kostnaður, sameiginlegir liðir leikskóla, hlutfall af sameiginlegum liðum fræðslusviðs) deilt með heilsdagsígildum í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Upplýsingar um lengd dvalar barna í leikskóla eru fengnar hjá Hagstofu Íslands og á þeim grundvelli eru reiknuð út heilsdagsígildi leikskólabarna. Meðalfjárhæð er miðuð við 8 klst. dvöl á dag með fæði. Fjárhæðin er uppreiknuð miðað við launavísitölu að 2/3 og vísitölu neysluverðs að 1/3.

Inni í þessum útreikningi er kostnaður vegna sérfræðiþjónustu.  Greiðslur vegna sérfræðiþjónustu eru hins vegar innheimtar sérstaklega og því dragast 7,53% frá. Það hlutfall er fengið úr gögnum frá Reykjavíkurborg. Þegar kostnaður vegna sérfræðiþjónustu hefur verið dreginn frá stendur eftir meðalkostnaður við átta tíma vistun með fæði.

Til að aldursskipta gjaldskránni er notast við upplýsingar frá Reykjavíkurborg um breytilegan (61,6%) og fastan (38,4%)  kostnað og upplýsingar frá Hagstofunni um meðalaldur leikskólabarna.

Gjaldskráin sýnir brúttótölur og frá þeim dragast leikskólagjöld sem sveitarfélög innheimta af foreldrum.

Viðmiðunargjaldskrá sem gildir 15. sept. 2023 til 15. sept. 2024

Mánaðarlegt viðmiðunargjald eftir aldri leikskólabarna.

Ný viðmiðunargjaldskrá er birt í fyrsta lagi 15. september ár hvert.

4 tímar
5 tímar
6 tímar
7 tímar
8 tímar
9 tímar
Stuðull
1 árs 293.152 334.487 375.823 417.159 458.495 499.831 2
2 ára 260.083 293.152 326.220 359.289 392.358 425.426 1.6
3 ára 235.281 262.150 289.018 315.886 342.755 369.623 1.3
4 ára 210.480 231.148 251.816 272.484 293.152 313.820 1
5 ára 193.946 210.480 227.014 243.549 260.083 276.617 0.8

Viðmiðunargjaldskrá sem gildir 15. sept. 2022 til 15. sept. 2023

Mánaðarlegt viðmiðunargjald eftir aldri leikskólabarna.

Ný viðmiðunargjaldskrá er birt í fyrsta lagi 15. september ár hvert.

4 tímar
5 tímar
6 tímar
7 tímar
8 tímar
9 tímar
Stuðull
1 árs 275.083 313.871 352.660 391.448 430.236 469.024 2
2 ára 244.053 275.083 306.114 337.144 368.175 399.205 1.6
3 ára 220.780 245.992 271.205 296.417 321.629 346.841 1.3
4 ára 197.507 216.901 236.295 255.689 275.083 294.477 1
5 ára 181.992 197.507 213.022 228.538 244.053 259.568 0.8