Spurt og svarað um félagsþjónustu sveitarfélaga

Lög um félagsþjónustu tóku gildi 1. október 2018. Hér að neðan eru helstu spurningar sem löggjöfin vekur og svörin við þeim.

Lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir

Breytist gildissviðið með því að rætt er um langvarandi stuðningsþarfir í stað mikilla stuðningsþarfa?

Í nefndaráliti sínu lagði velferðarnefnd áherslu á að umrædd tillaga fæli ekki í sér efnislega breytingu á frumvarpinu. Með vísan til þess verður að ganga út frá því að afmörkun gildissviðs verði að meginstefnu sú sama og gengið var út frá þegar upphafleg útgáfa frumvarpsins var samin.

Þýðir gildistaka nýrra laga að framlög verði veitt úr Jöfnunarsjóði vegna fleiri notenda en verið hefur?

Við samningu frumvarpsins var gengið út frá því að skipulag þjónustu skv. nýjum lögum myndi ná til álíka stórs hóps og Jöfnunarsjóður veitir nú framlög vegna, þó þannig að ný og fyllri ákvæði um þjónustu við börn kunni að leiða til einhverrar fjölgunar í þeim notendahópi.

Fær Jöfnunarsjóður auknar fjárveitingar samhliða gildistöku nýrra laga?

Ekki verður breyting á tekjugrunni Jöfnunarsjóðs samhliða gildistöku frumvarpsins. Á fjárlögum 2018 og í drögum að fjármálaáætlun 2019-2023 er hins vegar reiknað með sérstökum fjárveitingum úr ríkissjóði vegna búsetuúrræða og tengdrar þjónustu fyrir fötluð börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir. Rætt hefur verið um að fela Jöfnunarsjóði að móta reglur um úthlutun framlaga til þessa verkefnis.

Munu nýjar skilgreiningar á stuðningsþörfum ekki hafa áhrif á jöfnunarkerfið?

Til framtíðar mun þróun í mannfjölda, stuðningsþörfum og fleiri slíkum atriðum hafa áhrif á samsetningu þess hóps notenda sem Jöfnunarsjóður veitir framlög vegna. Þessi atriði voru til staðar við yfirfærslu þjónustunnar frá ríki til sveitarfélaga í ársbyrjun 2011 og mótuðu m.a. fyrirkomulag fjármögnunar. Rétt er að hafa í huga að á tímabilinu 2011-2018 hefur fjármagn sem jöfnunarsjóður ráðstafar til þjónustunnar vaxið um 70%.

Hvernig verða skilin milli nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk og þeirrar aðstoðar sem sveitarfélög veita skv. breytingum á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga?

Niðurstaða löggjafans er að skilin ráðist af því almenna viðmiði að aðstoð (þ.e. grunnþjónusta skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga) geti numið allt að 15 stundum á viku. Um aukna þjónustuþörf fer samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og þeirri meginreglu að ávallt skuli veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði félagsþjónustu, húsnæðismála, menntunar, vinnumarkaðar, öldrunarþjónustu og heilbrigðisþjónustu.

Hvað þýðir það að ný lög um þjónustu við fatlað fólk séu kölluð „plúslög“?

Hugtakið „plúslög“ er sótt í norrænan rétt og lýsir því að tiltekin velferðarþjónusta komi að magni eða gæðum til viðbótar annarri þjónustu, en ekki í stað hennar. Réttur til þjónustu skv. plúslögum verður fyrst virkur þegar réttur til annarra þjónustu hefur verið tæmdur og fyrir liggur, skv. mati, að almenn þjónusta mætir ekki skilgreindum stuðningsþörfum viðkomandi.

Munu þessi endurskoðuðu skil á milli laga hafa áhrif á jöfnunarkerfið?

Jöfnunarkerfið byggir á þeirri forsendu að minni stuðningsþörfum fatlaðs fólks sé mætt með þeirri grunnþjónustu sem sveitarfélög veita. Við kostnaðargreiningu hefur Jöfnunarsjóður gengið út frá því að þessi skil liggi almennt á bilinu 4-5 m.kr. á ársgrundvelli á hvern notanda. Fjárhæðin samrýmist vel því almenna viðmiði skv. breyttum lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga að aðstoð (grunnþjónusta) geti numið allt að 15 stundum á viku. Af þeirri ástæðu er ekki við því að búast að ný viðmið um skil á milli grunnþjónustu og viðbótarþjónustu muni hafa áhrif á jöfnunarkerfið. 

Hvaða þýðingu hefur það að lágmarksstærð þjónustusvæða er felld úr lögum?

Í nefndaráliti sínu mælti velferðarnefnd þingsins með því að að samvinna sveitarfélaga og stærð þjónustusvæða verði eitt af því sem verði metið við endurskoðun laganna, sbr. ákvæði til bráðabirgða I með lögunum.

Hafa einstök sveitarfélög þá frjálsar hendur um skipulagið?

Nei, sveitarfélög þurfa að ná samkomulagi sín á milli um breytingar á núverandi skipan þjónustusvæða. Án slíks samkomulags nær breyting ekki fram að ganga.

Hvað eiga sveitarfélög að gera sem vilja breyta skipan þjónustusvæðis?

Sveitarfélög sem í dag mynda þjónustusvæði þurfa að koma sér saman um tillögu að breyttri skipan. Ef breyting felur í sér að fleiri en eitt þjónustusvæði sé samhliða klofið upp þurfa öll hlutaðeigandi sveitarfélög að ná saman um tillöguna.

Tillöguna ber að útfæra í samningi sem gerður er skv. IX. kafla sveitarstjórnarlaga.

Hvert á senda samning um breytta skipan þjónustusvæðis?

Samkvæmt niðurlagi 2. mgr. 5. gr. laganna skal senda samninginn til staðfestingar hjá velferðarráðuneytinu (skrifstofu félagsþjónustu). Velferðarráðuneytið upplýsir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu um staðfestingu sína.

Stuðningsþjónusta

Núgildandi reglur sveitarfélagsins gera ráð fyrir allt að 10 stundum á viku í félagslega heimaþjónustu / liðveislu. Þarf að endurskoða reglurnar?

Já, lagabreytingarnar kalla á endurskoðun reglna. Endurskoðun þarf bæði að ná til viðmiða um stundafjölda og skilgreininga á þjónustuþáttum.

Mun sambandið útbúa eitthvert „skapalón“ um þessar reglur?

Já, sambandið hyggst útbúa fyrirmynd sem sveitarstjórnir geti haft hliðsjón af við umfjöllun sína.

Þarf að ljúka endurskoðun reglna fyrir 1. október?

Æskilegt er að endurskoðun reglna sé lokið í tæka tíð þannig að nýjar reglur sveitarfélags um stuðningsþjónustu geti tekið gildi samhliða lagabreytingum þann 1. október 2018. Í öllu falli ætti endurskoðun að vera lokið um áramót.

Þarf að endurskoða gjaldskrá vegna félagsþjónustu fyrir 1. október?

Sambandið mælir með því að gjaldskrá vegna félagsþjónustu sé endurskoðuð um leið og aðrar gjaldskrár sveitarfélaga og fái umfjöllun við gerð fjárhagsáætlana sveitarfélaga vegna ársins 2019. Miða ætti við að endurskoðuð gjaldskrá taki gildi 1. janúar 2019.

Er hægt að sækja um framlög úr Jöfnunarsjóði til þess að fjármagna aukinn stundafjölda skv. nýjum viðmiðum?

Nei, sveitarfélög standa straum af útgjöldum vegna þessarar almennu félagsþjónustu með skatttekjum (útsvari) og hlutdeild notenda skv. gjaldskrá.

Öldungaráð

Er sveitarstjórn skylt að velja fulltrúa til setu í öldungaráði?

Já, lögbundið er að öldungaráð starfi með aðkomu frá fulltrúum sveitarfélagsins.

Er öldungaráð ein af fastanefndum sveitarstjórnar?

Nei, öldungaráð er samráðsvettvangur sem sveitarstjórn kýs fulltrúa sína á.

Þarf að telja öldungaráð upp í samþykkt sveitarfélags um stjórn og fundarsköp?

Já, öldungaráð er meðal annarra nefnda, ráða og stjórna sem sveitarstjórn kýs fulltrúa í (þessi upptalning er yfirleitt í staflið sem kemur á eftir fastanefndum sveitarstjórnar). Fulltrúum sveitarfélags í öldungaráði er með þessu veitt staða sem er hliðstæð fulltrúum þess á aðalfundum landshlutasamtaka og vettvangi annarra aðila af svipuðum toga.

Kemur öldungaráð í stað þjónustuhóps í málefnum aldraðra?

Já, öldungaráð leysir þjónustuhópana af hólmi.

Á hvaða lagagrundvelli starfa öldungaráð?

Frá 1. október 2018 gilda um öldungaráð ákvæði bæði í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og um málefni aldraðra. Þessi ákvæði eru rakin í minnisblaði. Í samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélags ætti að vísa til þess á kjörið fari fram á grundvelli 2. mgr. 38. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga (með síðari breytingum) með hliðsjón af 8. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra (með síðari breytingum).

Hvenær á sveitarstjórn að kjósa sína fulltrúa?

Til framtíðar er miðað við að kjör þessara fulltrúa fari fram á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar að afloknum sveitarstjórnarkosningum.

Ný lög taka gildi 1. október 2018, þarf að bíða með kjörið þangað til?

Almennt er miðað við að kjör á fulltrúum sveitarfélags í öldungaráði fari fram þegar samþykkt um stjórn og fundarsköp hefur verið endurskoðuð. Sú leið er einnig möguleg, þar sem öldungaráði er ætlað að leysa af hólmi þjónustuhópa sem hingað til hafa starfað (að nafni til þó í flestum tilvikum), að fulltrúar sem sveitarstjórn velur til setu í þjónustuhópi á fyrsta eða öðrum fundi sínum eftir nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar verði sjálfkrafa að fulltrúum sveitarfélagsins í öldungaráði. Þetta er þó háð því að sama skipan verði áfram á samstarfi um þjónustusvæði þar sem það á við.

Hver er staða öldungaráðs innan stjórnsýslunnar?

Umfjöllun á vettvangi öldungaráðs er ekki hluti af stjórnsýslu sveitarfélags. Öldungaráð er samráðsvettvangur með fulltrúum tiltekins hóps notenda ásamt fulltrúum sveitarfélagsins. Hugmyndin er að til umræðu á þessum vettvangi komi almenn stefnumótun og áætlanagerð sveitarfélags í þeim málum sem varða viðkomandi notendahóp.

Hver eru viðfangsefni öldungaráðs?

Í lögum um málefni aldraðra er gert ráð fyrir því að öldungaráð hafi eftirtalin verkefni á starfssvæði sínu:

  1. Að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra og samhæfa þjónustu.
  2. Að gera tillögur til sveitarstjórna um öldrunarþjónustu.
  3. Að leitast við að tryggja að aldraðir fái þá þjónustu sem þeir þarfnast og kynna öldruðum þá kosti sem í boði eru.

Getur öldungaráð komið með tillögur til sveitarstjórnar?

Já, lög gera ráð fyrir því að öldungaráð geti gert tillögu til sveitarstjórnar um fyrirkomulag öldrunarþjónustu, þ.m.t. skipulag hennar. Meðferð tillagna öldungaráðs er hluti af stjórnsýslu sveitarfélags.

Getur öldungaráð sent erindi til yfirstjórnar heilbrigðismála í héraði?

Já, öldungaráð getur sent erindi til stjórnenda heilbrigðisumdæmis um fyrirkomulag þjónustunnar, þ.m.t. skipulag hennar.

Hvaða reglur gilda um meðferð mála á vettvangi öldungaráðs?

Mælt er með því að hvert öldungaráð fyrir sig samþykki starfsreglur, þar sem m.a. er kveðið á um formennsku, undirbúning funda og fleiri atriði af þeim toga. Þegar starfsreglum sleppir gilda almennar reglur um fundarsköp félagasamtaka.

Getur fulltrúi í öldrunarráði verið vanhæfur við málsmeðferð á þeim vettvangi?

Almennt myndu hæfisreglur ekki eiga við um öldrunarráð enda er þeim fyrst og fremst ætlað að fjalla um almenna stefnumótun og áætlanagerð. Ef umfjöllunarefni snýr hins vegar að einstaklings­bundnum málum getur komið til álita að beita hæfisreglum og er því mælt með tilvísun til þeirra í starfsreglum.

Getur öldrunarráð þá fjallað um mál einstakra notenda?

Lög gera ráð fyrir því að samráð við notendur í málum sem varða þá sjálfa, fari fram innan stjórnsýslunnar á grundvelli leiðbeiningaskyldu, andmælaréttar og fleiri slíkra reglna. Af þeirri ástæðu ætti að heyra til undantekninga að öldungaráð fjalli um einstaklingsbundin mál notenda. Ef til greina kemur engu að síður að öldungaráð fjalli um einstaklingsmálefni ber að gæta sérstaklega að persónuverndarsjónarmiðum og að fyrir liggi skýrt, upplýst samþykki hlutaðeigandi gagnvart umfjöllun.

Var tilkoma öldrunarráða kostnaðarmetin gagnvart sveitarfélögum?

Öldungaráð taka við af þjónustuhópum aldraðra sem núgildandi lög mæla fyrir um að skuli starfa. Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, segir að kostnaður af starfi þjónustuhóps aldraðra greiðist af sveitarfélögum á starfssvæði hans í hlutfalli við fjölda íbúa í hverju sveitarfélaganna. Þessi regla gildir áfram um öldungaráð og af þeirri ástæðu er ekki um nýja lagaskyldu að ræða fyrir sveitarfélögin.

Hvaða reglur gilda um samráðshópa í málefnum fatlaðs fólks?

Að stofni til eiga svör um öldungaráð einnig við um samráðshópa í málefnum fatlaðs fólks, en atriði sem sérstaklega þarf að gæta koma fram í svörum hér að aftan.

Eiga notendur sem sitja í samráðshópnum rétt á stuðningi vegna funda?

Til þess að samráðshópur í málefnum fatlaðs fólks nái markmiðum sínum er mikilvægt að þeim sem taka þátt í því sé tryggður nægjanlegur stuðningur og eftir atvikum þjálfun til þess að þeir geti tekið virkan þátt í samráðinu. Slík þjálfun og stuðningur er á sama tíma valdeflandi og gefur fólki mikilvæga reynslu sem getur nýst því til að vinna úr aðstæðum sínum og hafa áhrif á þær.

Var tilkoma samráðshópa í málefnum fatlaðs fólks kostnaðarmetin gagnvart sveitarfélögum?

Lagaskylda til þess að starfrækja samráðshópa er nýmæli. Um áhrif þess sagði í greinargerð með frumvarpinu: Breytingin er talin leiða af sér lítils háttar viðbótarkostnað sem ekki mun hafa umtalsverð áhrif á fjárhag sveitarfélaga. 

Sambandið gerði ekki athugasemd við þetta mat en lagði áherslu á að áhrif nýmæla og breyttra ákvæða væru vöktuð næstu þrjú til fimm ár.

Er sveitarfélögum skylt að skipa notendaráð vegna fleiri hópa en fatlaðs fólks og aldraðra?

Samkvæmt breyttri 8. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem tekur gildi 1. október 2018, skulu sveitarfélög funda a.m.k. árlega með hagsmunasamtökum notenda félagsþjónustunnar. Jafnframt skal starfrækja sérstök notendaráð sem tryggi aðkomu hagsmunasamtaka notenda við stefnumörkun og áætlanagerð.  Samráð á vettvangi notendaráða byggir þannig á tilvist félagasamtaka, sem hafa umboð til aðkomu að málefnum er varðar meðlimi þeirra.

Þurfa sveitarfélög að veita stuðningsþjónustu þeim sem eru inniliggjandi á öldrunarstofnunum?

Nei, skv. 2. mgr. 26. gr. og lokamálslið 40. gr. er sveitarfélögum ekki skylt að veita stuðningsþjónustu á stofnunnum, svo sem sjúkrahúsum og öldrunarstofnunum.

Nú er akstursþjónusta fyrir fatlað fólk flokkuð sem stuðningsþjónusta. Þurfa sveitarfélög þá ekki að skipuleggja akstursþjónustu fyrir fatlað fólk eldra en 67 ára sem dvelur á öldrunarstofnun?

Sú staðreynd að akstursþjónusta er flokkuð sem stuðningsþjónusta tekur ekki af skarið í þessu efni. Þjónustuþættir sem 40. gr. telur upp að sveitarfélögum er ekki skylt að sinna eru: heimaþjónustafélagsráðgjöf og heimsending matar. Eðlilegt er að félagsþjónustan eigi samtal við stjórnendur öldrunarstofnana í héraði um fyrirkomulag akstursþjónustu fyrir þá sem þar eru inniliggjandi, sbr. 62. gr. laganna.

Á öldrunarstofnunum dvelja hjúkrunarsjúklingar yngri en en 67 ára. Hvaða skyldu hefur sveitarfélag til þess að skipuleggja akstursþjónustu fyrir þá?

Breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga taka ekki af skarið í þessu efni. Eðlilegt er að félagsþjónustan eigi samtal við stjórnendur öldrunarstofnana í héraði um fyrirkomulag akstursþjónustu fyrir þá sem þar eru inniliggjandi, sbr. 62. gr. laganna.

Einstaklingur með notendasamning (t.d. NPA-samning) fer í hvíldarinnlögn. Lækka greiðslur skv. samningi þar sem skylda sveitarfélags til að veita þjónustu m.a. á heimili fellur niður á því tímabili?

Innlögn um skemmri tíma breytir ekki notendasamningi (þ.m.t. NPA-samningi) og haldast greiðslur skv. samningi því óbreyttar. Þetta á m.a. við um NPA-samninga enda eiga þeir notendur rétt til samfelldrar þjónustu skv. 2. mgr. 3. gr. laganna. Ef innlögn reynist langvarandi getur það falið í sér verulega breytingu á stuðningsþörfum og verið ástæða fyrir endurskoðun á notandasamningi.

Geta þeir sem eru inniliggjandi sótt um fjárhagsaðstoð?

Fjárhagsaðstoð er ekki meðal þeirra þátta sem 40. gr. telur upp að sveitarfélögum sé ekki skylt að sinna. Af því leiðir að inniliggjandi geta lagt inn umsókn hjá sínu lögheimilissveitarfélagi, en um meðferð og niðurstöður umsóknar fer skv. reglum þess sveitarfélags. Mat fer þá fram á aðstæðum umsækjenda og könnun á þeirri aðstoð sem honum stendur til boða hjá öðrum en sveitarfélögum.

Hvaða aðstoð getur viðkomandi staðið til boða hjá öðrum?

Viðkomandi á rétt til ráðstöfunarfjár skv. lögum um almannatryggingar. Einnig greiðslur erlendis frá [ath. með samskipti við TR].

Hefur nýr reglurammi áhrif á umsóknir frá föngum um fjárhagsaðstoð?

Lagabreytingar sem taka gildi þann 1. október 2018 taka ekki af skarið um skyldur sveitarfélaga gagnvart þeim sem afplána refsingu. Áfram verður unnið að því að skýra ábyrgð fangelsisyfirvalda og framfærslukerfa ríkisins gagnvart þessum hópi. Í því efni liggur fyrir að fangi á rétt til ráðstöfunarfjár sbr. 56. gr. laga um almannatryggingar.

Hafa ný og endurskoðuð lög áhrif á samvinnu sveitarfélaga um almenna félagsþjónustu?

Já, löggjafinn hefur ákveðið að samvinna sveitarfélaga um almenna félagsþjónustu muni til framtíðar byggjast á meginreglum IX. kafla sveitarstjórnarlaga fremur en sérstökum ákvæðum í lögum um félagsþjónustu.

Hvaða þýðingu hefur að meginreglur sveitarstjórnarlaga gildi framvegis um samvinnu?

Fyrst og fremst að ef í samningi um samvinnu sveitarfélaga felst framsal á valdi til töku ákvarðana um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga getur samvinnan aðeins farið fram á vegum byggðasamlags eða á þann hátt að eitt sveitarfélag tekur að sér verkefni fyrir annað eða önnur sveitarfélög, þ.e. verið leiðandi sveitarfélag. Sjá 93. gr. sveitarstjórnarlaga.

Geta þá sveitarfélög ekki samið um að hafa sameiginlega félagsmálanefnd án leiðandi sveitarfélags?

Nei, lögin gera ekki ráð fyrir þeim möguleika ef félagsmálanefnd tekur ákvarðanir um rétt eða skyldu einstaklinga og fjölskyldna. Hér undir falla m.a. allar umsóknir um fjárhagsaðstoð, þjónustu, úrræði o.s.frv.

Er munur á því hvort stjórn byggðasamlags eða félagsmálanefnd leiðandi sveitarfélags fer með skipulag og framkvæmd félagsþjónustu?

Sameiginlegt hvoru tveggja er að samningur hlutaðeigandi sveitarfélaga liggur til grundvallar. Efni samninganna er hins vegar mismunandi, sjá 94. gr. sveitarstjórnarlaga um byggðasamlög og 96. gr. sveitarstjórnarlaga um leiðandi sveitarfélag.

Á sveitarfélag rétt á að skipa fulltrúa í stjórn byggðasamlags?

Það fer eftir efni samnings hvort öll sveitarfélög sem vinna saman eigi fulltrúa í stjórn.

Á sveitarfélag rétt á að skipa fulltrúa í félagsmálanefnd leiðandi sveitarfélags?

Ákveði sveitarstjórn að nýta heimild skv. 96. gr. sveitarstjórnarlaga til þess að fela öðru sveitarfélagi að veita félagsþjónustu fyrir sína hönd má hún jafnframt kjósa áheyrnarfulltrúa í félagsmálanefnd þess sveitarfélags sem þjónustuna veitir (þ.e. leiðandi sveitarfélags). Áheyrnarfulltrúi hefur seturétt með málfrelsi og tillögurétti á fundum félagsmálanefndar þegar málefni samstarfsverkefnisins eru þar til umræðu.

Getur sveitarfélag bæði verið með sína félagsmálanefnd og áheyrnaraðild að félagsmálanefnd annars sveitarfélags?

Nei, ákveði sveitarstjórn að nýta heimild skv. 96. gr. sveitarstjórnarlaga til þess að fela öðru sveitarfélagi að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur á sviði félagsþjónustu, þá felst í því að sveitarstjórn kjósi ekki jafnframt sína félagsmálanefnd. Stefnumörkunarhlutverk á sviði félagsþjónustu er þá á hendi sveitarstjórnarinnar sjálfrar og eftir atvikum byggðaráðs.

Eiga aðildarsveitarfélög byggðasamlags aðgang að gögnum þess?

Samkvæmt 7. mgr. 94. gr. sveitarstjórnarlaga eiga einstakar sveitarstjórnir og endurskoðendur aðildarsveitarfélaga rétt á aðgangi að öllum gögnum um stjórnsýslu byggðasamlags.

Á sveitarfélag aðgang að gögnum leiðandi sveitarfélags?

Fulltrúar í sveitarstjórn þess sveitarfélags sem hefur falið öðru sveitarfélagi að annast fyrir sig félagsþjónustu eiga sama rétt á aðgangi að gögnum og upplýsingum um það verkefni hjá því sveitarfélagi sem veitir félagsþjónustu og þeir hefðu ella haft skv. 28. gr. sveitarstjórnarlaga.

Getur sveitarfélag verið með sameiginlega skóla- og félagsmálanefnd?

Já, skv. 3. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga er sveitarstjórn heimilt að sameina nefndir þannig að ein nefnd fari með verkefni á fleiri en einu sviði þó að svo sé kveðið á í lögum að kjósa skuli sérstaka nefnd til að fara með tiltekin verkefni.

Getur notandi áfrýjað niðurstöðu byggðasamlags eða leiðandi sveitarfélags til „sinnar“ sveitarstjórnar?

Nei, skv. 3. mgr. 92. gr. sveitarstjórnarlaga er ekki hægt að kæra til lögheimilissveitarfélags þær ákvarðanir sem eru teknar á grundvelli samnings um samvinnu sveitarfélaga.