Markmið laga um málefni aldraðra er að tryggja að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagsþjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þarfir hvers og eins. Einnig er markmið laganna að aldraðir geti eins lengi og unnt er búið við eðlilegt heimilislíf en sé jafnframt tryggð stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf. Við framkvæmd laganna skal þess gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur.
Helstu þættir þjónustu við aldraða eru félagsleg heimaþjónusta og þjónusta í þjónustumiðstöðvum aldraðra á vegum sveitarfélaga, heimahjúkrun á vegum heilsugæslustöðva, dagvistun, endurhæfingar- og hvíldarinnlagnir eða búseta í dvalarrými eða hjúkrunarrými á stofnunum aldraðra.
Heilbrigðisráðherra fer, samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu starfa ráðherra, með yfirstjórn öldrunarmála samkvæmt lögum nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Meginmarkmið laganna er að tryggja öldruðum heilbrigðis- og félagsþjónustu í samræmi við þörf og ástand hvers og eins.
Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sjúkratryggingar Íslands undirrituðu í október 2016 rammasamning um þjónustu hjúkrunarheimila.
Aldraðir í heimahúsum eiga rétt á félagslegri heimaþjónustu geti þeir ekki hjálparlaust annast heimilishald og persónulega umhirðu. Sveitarfélög veita þessa þjónustu á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 en setja sjálf nánari reglur um framkvæmdina.