Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 m.s.br. er kveðið á um skipan öldungaráðs sveitarfélaga. Þessu ráði er ætlað að vera formlegur samráðsvettvangur um þjónustu við aldraða og þróun öldrunarmála innan sveitarfélagsins.
Skipa skal öldungaráð að hverjum sveitarstjórnarkosningum loknum. Í því sitja að lágmarki þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn, þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara og einn fulltrúi frá heilsugæslunni. Ef tvö eða fleiri sveitarfélög eiga samstarf um öldrunarþjónustu, koma þau sér saman um samsetningu öldungaráðs. Sveitarstjórnir hafa því í hendi sér þann fjölda fulltrúa sem skipar ráðið hverju sinni umfram lögbundið lágmark. Ráðlegt er þó að stilla fjölda fulltrúa í hóf.
Öldungaráðin eru samráðsvettvangur sveitarstjórnar með fulltrúum tiltekins notendahóps. Í því felst að ráðin hafa ekki stöðu fastanefndar og eru ekki skilgreind sem launuð nefnd.
Áður en kosið er í öldungaráð verður að fella það undir samþykktir sveitarfélagsins. Jafnframt þarf að fella þaðan burt eldri ákvæði um þjónustuhópa aldraðra, þar sem starfsemi þess hóps á sér ekki lengur stoð í lögum.
Telja skal öldungaráð upp með öðrum nefndum, ráðum og stjórnum sem sveitarstjórn kýs fulltrúa í. Þessi upptalning er yfirleitt í staflið sem kemur á eftir fastanefndum sveitarstjórnar. Þá þarf textinn að vísa til þess, að á kjörið fari fram á grundvelli 2. mgr. 38. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga (með síðari breytingum) með hliðsjón af 8. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra (með síðari breytingum). Með þessu móti fá öldungaráðsfulltrúar hliðstæða stöðu og fulltrúar sveitarfélagsins á aðalfundum landshlutasamtaka eða öðrum samráðsvettvangi af svipuðum toga.
Þegar samþykktir hafa verið endurskoðaðar getur kosning á fulltrúum í öldungaráð farið fram. Hafi sveitarstjórn þegar kosið í þjónustuhóp aldraðra, kemur einnig til greina að þeir fulltrúar taki sjálfkrafa sæti í öldungaráði sveitarfélagsins. Það er þó háð því að sama skipan verði áfram höfð á samstarfi um þjónustusvæði, þar sem það á við.
Mælt er með því að öldungaráð setji sér starfsreglur sem kveða á um kjör og skyldur formanns, undirbúning funda o.s.frv. svo að starfsemi ráðsins sé í föstum skorðum. Þegar starfsreglum sleppir gilda almennar reglur um fundarsköp félagasamtaka.
Öldungaráði er heimilt að koma með tillögu til sveitarstjórnar, þ.m.t. tillögur um fyrirkomulag og skipulag öldrunarþjónustu. Slíkar tillögur eru þá teknar fyrir sem erindi til sveitarstjórnar. Fundargerðir þarf ekki að bera sérstaklega undir sveitarstjórn, en teljast verður æskilegt að þær séu lagðar fram til kynningar í þeirri nefnd eða þeim nefndum sveitarfélagsins sem eru starfandi á sviði félags- og fjölskyldumála.
Frekari upplýsingar hjá sambandinu veitir María Ingibjörg Kristjánsdóttir, félagsþjónustufulltrúi, á maria@samband.is og Valgerði Ágústsdóttur sérfræðingi á þróunarsviði valgerdur@samband.is.