Húsnæðismál

Unnið er að innleiðingu á nýrri húsnæðislöggjöf sem breytir í grundvallaratriðum því hvernig opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, veita stuðning í húsnæðismálum.

Sameiginleg markmið í nýrri löggjöf felast í því að:

 • bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga
 • auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og
 • stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu íbúa

Þegar rætt er um opinberan húsnæðisstuðning er einkum átt við eftirfarandi fimm þætti:

 1. Stofnframlög ríkis og sveitarfélaga
 2. Húsnæðisbætur ríkisins
 3. Sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaga
 4. Úthlutun á húsnæðisúrræðum
 5. Ráðgjöf

Frá 1. janúar 2017 munu húsnæðisbætur (greiddar af ríkinu) og sérstakur (viðbótar)-húsnæðisstuðningur sveitarfélaga leysa af hólmi húsaleigubætur sem sveitarfélög sáu áður um að greiða. Gildandi verkaskipti ríkis og sveitarfélaga koma til endurskoðunar samhliða þessari breytingu, eins og nánar er kveðið á um í sérstöku samkomulagi þar að lútandi.

Gagnvart sveitarfélögum er stærsta breytingin sú að greiðsla sérstaks húsnæðisstuðnings verður lögbundið verkefni félagsþjónustu sveitarfélaga. Frá og með næstu áramótum verður þessum sérstaka húsnæðisstuðningi ætlað að lækka greiðslubyrði vegna húsnæðiskostnaðar hjá þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði eða eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað sökum:

 1. lágra tekna / lítilla eigna,
 2. þungrar framfærslubyrði og
 3. félagslegra aðstæðna.

Hér er einkum vísað til þeirra sem eru með hæst hlutfall á milli húsnæðiskostnaðar og ráðstöfunartekna. Almennt gildir að húsnæðisbótum og sérstökum viðbótarhúsnæðisstuðningi er ætlað að stuðla að því að húsnæðiskostnaður skjólstæðinga félagsþjónustunnar sé í samræmi við greiðslugetu viðkomandi einstaklinga/fjölskyldna og að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna, eins og segir í markmiðsgrein laga um almennar íbúðir.

Ný verkaskipting ríkis og sveitarfélaga hefur bæði áhrif gagnvart fjárhag og stjórnsýslu sveitarfélaga. Sérstakri samráðsnefnd hefur verið falið að annast vöktun og greiningu á þessum áhrifum auk þess að fylgjast með því hvernig ofangreindum markmiðum verður náð. Nefndin skal sérstaklega fjalla um verkefni samkvæmt verkaskiptasamkomulagi ríkis og sveitarfélaga, þ.e. þróun á sérstökum húsnæðisstuðningi sveitarfélaga og uppbyggingu á félagslegu íbúðarhúsnæði til úthlutunar á grundvelli lögákveðinna markmiða. Þá skal nefndin fylgjast með almennu framboði íbúðarhúsnæðis í sveitarfélögum, þar með talið skipulagsmálum og framboði á lóðum á grundvelli upplýsinga frá þar til bærum aðilum. Nefndin skal skila árlegri skýrslu til félags- og húsnæðismálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Breyting á kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga skapar fjárhagslegt svigrúm hjá sveitarfélögum vegna útgjaldalækkunar þeirra á ársgrundvelli miðað við árslok 2016 er lög um húsnæðisbætur leysa af hólmi eldri lög um húsaleigubætur. Samkomulag er um að nýta skuli þetta svigrúm til opinbers húsnæðisstuðnings, samanber hér að ofan, í a.m.k. þrjú ár frá gildistöku samkomulagsins til viðbótar við aðra fjármuni sem sveitarfélögin nýta til þessara verkefna.

Nýtt húsnæðiskerfi verður þarfadrifið, þ.e. byggt upp til þess að mæta þörfum fólks fyrir öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Lögð er megináhersla á að efla gagnaöflun um húsnæðismál og að greiða fyrir miðlun upplýsinga milli opinberra aðila og annara þeirra sem koma að húsnæðis- og fasteignamarkaði. Þess er sérstaklega farið á leit að félagsþjónustan greini þarfir fyrir húsnæði hjá þeim sem sveitarfélögin bera sérstakar lagaskyldur gagnvart í húsnæðismálum, m.a. fatlað fólk. Stefnt er að því að til verði miðlæg gagnasöfn þar sem haldið er utan um margháttaðar upplýsingar um stöðu húsnæðismála, í samstarfi við ÍbúðalánasjóðÞjóðskráMannvirkjastofnun og fleiri aðila.