Stafræn framtíð Evrópu

Helstu mál á vettvangi ESB árið 2020

Í starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir árið 2020 er að finna sex forgangsmál sem leggja línurnar fyrir helstu aðgerðir ESB næstu fimm árin:

  1. Grænn sáttmáli fyrir Evrópu
  2. Stafræn framtíð Evrópu
  3. Efnahagskerfi sem sinnir þörfum almennings
  4. Áhrif Evrópu á heimsvísu
  5. Evrópsk gildi
  6. Öflugra lýðræði í Evrópu

Stafræn framtíð Evrópu er eitt af stóru málunum á dagskrá framkvæmdastjórnar ESB árið 2020.

Umhverfi okkar tekur örum breytingum þessi misserin vegna stafrænnar þróunar, sem hefur á stuttum tíma gerbreytt hvernig við störfum og hegðum okkur. Í breytingum sem þessum felast tækifæri en einnig áskoranir. Stafræn framtíð býr yfir miklum drifkrafti breytinga hvort sem horft er til viðskiptalífs eða samfélagsgerðar og tækifærin felast m.a. í nýjum samskiptaleiðum, bættri þjónustu og hvernig verslun og viðskiptum verður háttað í framtíðinni. Áskoranirnar snúa hins vegar m.a. að siðferðilegum álitefnum í tengslum við notkun á gervigreind við úrvinnslu persónulegra gagna.

Stafræn framtíð Evrópu er sýn ESB á það með hvaða hætti Evrópa geti orðið leiðandi á sviði stafrænnar tækni, bæði sem brautryðjandi við þróun tækninnar og ekki síður þegar kemur að því að nýta sér hana. Á sama tíma leggur ESB áherslu á mikilvægi þess að Evrópa haldi fast í þau grunngildi sem íbúar álfunnar búa við, sem snúa m.a. að álitaefnum í tengslum við notkun á gervigreind við greiningu og miðlun upplýsinga.

Í febrúar á þessu ári kynnti framkvæmdastjórn ESB tvo fyrstu aðgerðahlutana í tengslum við Stafræna framtíð Evrópu.

Í fyrsta lagi er um að ræða stefnumótun um meðferð upplýsinga, s.k. European Data Strategy, en henni er ætlað að tryggja að Evrópa geti nýtt sér sem best hið gríðarlega magn af upplýsingum sem ný tækni gerir bæði aðgengilegar og hugsanlega mjög gagnlegar á mörgum sviðum. Stefnumótunina er að finna hér.

Í öðru lagi birti framkvæmdastjórn ESB s.k. Hvítbók í tengslum við notkun á tækni sem byggir á gervigreind. Hvítbókin markar upphafið að samráðferli sem ætlað er að undirbúa framtíðar löggjöf innan ESB í tengslum við gervigreind. Hvítbókina er að finna hér.

Fleiri aðgerða er að vænta síðar á þessu ári og má þar nefna nýja tilskipun um stafræna þjónustu, s.k.Digital Service Act. Með henni er stefnt að því að skilgreina betur lagalegan grunn ESB fyrir stafræna þjónustu og þá einkum með tilliti til smærri fyrirtækja. Þá verður einnig hugað að rétti neytenda í tengslum við stafræna þjónustu. Gerðin er hluti af þjónustutilskipun ESB frá árinu 2006 sem var innleidd á Íslandi árið 2011 og því má gera ráð fyrir að stafræna þjónustugerðin verði einnig innleidd á Ísland í náinni framtíð.

Stafræn tækni og öryggismál eru samofin mál og á þessu ári stefnir framkvæmdastjórn ESB á að endurskoða tilskipun frá árinu 2016 sem snýr að netöryggi, s.k. Directive on Security of Network and Information Systems. Tilskipunin sem um ræðir mun taka gildi á Íslandi í september á þessu ári og því er ljóst að endurskoðuð tilskipun mun að öllum líkindum einnig verða innleidd á Íslandi. Lögin eru þau fyrstu sem snúa að netöryggi á Íslandi og markmið þeirra er að auka öryggi net- og upplýsingakerfa sem koma við sögu í rekstri mikilvægra efnahags- og samfélagslegra innviða. Þá er þeim einnig ætlað að bæta viðnámsþrótt þessara innviða komi til netárása og samræma viðbrögð við slíkum atvikum. Lögin ná til margskonar starfsemi, þar á meðal starfsemi sem fellur undir starfsvið sveitarfélaga, m.a. rekstur heilbrigðisþjónustu, rafmagnsveita, hitaveita og vatnsveita.